„Miskunnsami samverjin” sem lifir í okkur“

Í sumar kom ungur ferðamaður hingað til lands í heimsókn. Hann kom alla leið frá Japan til að sjá heimaland hennar Bjarkar sem hann dáðist mjög að. En því miður gerðist það e.t.v. vegna þreytu af löngu ferðalagi – að maðurinn varð veikur, mikið veikur andlega, á meðan hann dvaldist hér á landi.

Hann fór að haga sér undarlega á hótelinu sem hann gisti á. Starfsmaður hótelsins tók eftir þessu og bað mig um að tala við þennan unga gest og reyna að komast að því hvað væri að hjá honum, af því að ég er japanskur og þar að auki prestur. Þegar ég hitti unga manninn var hann illa haldinn af taugaspennu og þar kom að maðurinn féll í yfirlið á gólfið. Hann var fluttur á spítala og eftir tæplega vikudvöl þar gat hann lagt af stað til heimalands síns í læknisfylgd.

Þessa daga gerði ég það sem ég gat gert fyrir hann. En þar fyrir utan veitti hótelið, þ.e. Hótel Loftleiðir, honum mikla aðstoð. T.d. aðstoðuðu starfsmenn þess manninn við að breyta flugmiðum hans, að hafa samband við tryggingaraðila og heimsóttu m.a.s. á spítalann. Starfsfólk hótelsins sýndi honum innilega samúð og hjálpaði honum miklu meira en því bar skylda til, jafnvel þegar hann var hættur að vera gestur á hótelinu.

Hér með vil ég tjá starfsmönnum hótelsins þakklæti mitt fyrir hönd unga mannsins. Eftir á velti ég þessari hlýju fyrir mér og spurði mig hvaðan hún kæmi.

Biblían fjallar um miskunnsama samverjann og hvetur okkur til að taka okkur hann til fyrirmyndar. Prestarnir tala um kærleiksþjónustuna úr predikarastólnum. Við vitum að það að þjóna náunga okkar í kærleika byggir á kristnum grunni. En oft vill það verða að þegar við göngum út úr kirkjunni þá virðist “allt öðruvísi” heimur bíða okkar.

Union seminary er mjög frægur prestaskóli í New York, en þar var gefin út skólahandbók fyrir nemendur sem hófst á eftirfarandi orðum; “Opnaðu aldrei dyrnar á herbergi þínu fyrir óþekktum gesti” “Gættu að því hvort hurðin sé læst þótt hún hafi sjálflæsingarkerfi”. Annars vegar væru prestar framtíðarinnar að læra um kærleiksþjónutu til náunga sinna og hins vegar væru þeir að viðurkenna að skynsamlegt væri að aðskilja líf sitt frá öðrum með læsingu.

Þetta er bara eitt dæmi en mér virðist að þessi lífsháttur sé almenn regla í nútímasamfélagi eða sé að verða það. Og þeim mun meiri sem þessi “læsing” verður að meginreglu, þeim mun meiri hætta er á að kærleiksþjónusta verði að dyggð í kirkjunni og að sagan um miskunnsama samverjann verði eins og hver önnur álfasaga. Það er oft sagt að andheiti hugtaksins kærleika sé ekki hatur, heldur áhugaleysi. Þetta áhugaleysi getur smitast og breiðst út alveg eins og plága sérstaklega í háþróuðum samfélögum. Við fylgjumst með hræðilegum aðstæðum fólks í sjónvarpsfréttunum sem eru fórnarlömb hallæra og hryðjuverka og við látum nokkur orð falla í meðaumkunar- og samúðarskyni. En í næsta vetfangi skiptum við um rás á sjónvarpinu og getum skellt upp úr yfir einhverri gamanmynd.

Að sumu leyti getur áhugaleysi verið ákveðinn háttur á að vernda líf sitt því að enginn maður getur borið allar þjáningar annarra á herðum sér. Ef hann reynir það verður hann brátt uppgefinn og útbrunninn sjálfur. Þetta er hvorki kaldhæðni né bölsýni, heldur raunveruleiki þar sem við eigum að halda í trú okkar.

Það er alltaf til staðar viss spenna á milli okkar daglega lífs og trúarlífsins. Þessi spenna er nefnilega sú spenna sem er til staðar á milli ríkis heimsins og ríkis Guðs. Stundum gefumst við upp undan þessu álagi og erum örmagna. Það er skiljanlegt og jafnvel eðlilegt. En oftar en ekki forðumst við þessa spennu og látum eins og hún sé ekki til staðar.

T.d. er helgihald í kirkjunni vissulega mikilvægt atriði í trúarlífi okkar en í helgihaldinu komumst við hjá því að upplifa þessa spennu. Það er vegna þess að helgistundin er “aðskilinn tími í tímanum”. Og við getum líka læst hurð kirkjunnar til þess að við mætum ekki þessari spennu. En ef við gerum það þá stuðlum við ekki að þjónustu við náunga okkar vegna þess að kærleiksþjónusta á sér stað mitt í daglegu lífi okkar en ekki í aðskildum tíma eins og í helgistund. Okkur leyfist ekki að vera áhugalaus um náunga okkar.

Þess vegna verðum við að búast við nokkurri áreynslu ef við viljum fylgja Jesú. Trú án þessarar áreynslu er bara siðferðiskenning eða trúarlegar mannasetningar. Við verðum að hlusta á Guðs orð og þjóna náunganum í þeirri togstreitu sem skapast milli orðs Guðs og raunveruleika heimsins. Trúarleg hugmynd verður að trú í togstreitunni.

Hér rís miskunnsami samverjinn upp og vaknar til lífsins. Hann læsir ekki hurðinni, heldur opnar hana fyrir náunga sínum.
Atburðurinn á Hótel Loftleiðum var svolítill sigur miskunnsama samverjans. Ungur, veikur maður, sem líklega hefði bara verið látinn eiga sig í stórborg eins og t.d. Tókýó, var fundinn hér og honum gefinn kostur á að jafna sig. Þetta er mjög merkilegt því atburðurinn átti sér stað á stórhóteli sem líta má á sem smækkaða mynd nútímasamfélags. Ég veit ekki hvort það starfsfólk sé trúað fólk eða ekki. Það skiptir ekki máli. En ég er alveg viss um að sagan um miskunnsama samverjann búi með því og vinni með því. Hlýja þess kemur þaðan.

Er þetta ekki kristinn siður (ethos) sem íslensk þjóð ætti að fagna í þúsund ára kristnisögu sinni og annast meira?
Sem presti var það mér blessun að fá að upplifa þennan atburð. Það sem Biblían boðar var ekki árangurslaust.

“Eins er því farið með mitt orð, það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.” (Jesaja 55:11) Starfsfólk Hótels Loftleiða er vitnisburður um þetta.Ég þakka innilega fyrir.

(Prestur innflytjenda, 8. október 1998)

css.php