20. júní er alþjóðlegur dagur flóttamanna

Þann 20. júní er alþjóðlegur dagur flóttamanna á vegum Sameinuðu þjóðanna síðan árið 2000. Af því tilefni langar okkur undirrituð að segja frá sjálfboðaliðastarfi við hælisleitendur á Íslandi og óskum eftir fleiri sjálfboðaliðum.

Flestir vita að Ísland hefur nær árlega tekið á móti flóttamönnum í gegnum SÞ og það hefur verið vel tekið á móti þeim. En hingað leita líka aðrir flóttamenn sem ekki fer jafnhátt um, flóttamenn sem ekki eru á vegum SÞ, og eru oft nefndir hælisleitendur. Þeir fá ekki jafngóðar móttökur.

Lönd í Vestur-Evrópu hafa gert með sér samkomulag og reglur um móttöku hælisleitenda. Flestir þeirra sem leita til Íslands eru eftir stutta dvöl hér á landi sendir til baka til þeirra landa sem þeir komu frá og teljast bera ábyrgð á viðkomandi hælisleitenda.

Nokkrir, um 15-20 manns hafa dvalið hér í ár eða lengri tíma og jafnvel tvö áður en yfirvöld hafa úrskurðað endanlega um dvalarleyfi þeirra hérlendis (Undanfarin fimm ár hafa ca. 400 einstaklingar sótt um hæli hérlendis en enginn þeirra fékk dvalarleyfi á grundvelli flóttamannareglna en nokkrir dvalarleyfi af mannúðarástæðum.)

Umfjöllun hælisumsókna eða úrskurðir stjórnvalda geta verið umræðuefni en það sem við viljum vekja athygli á hér eru aðstæður hælisleitenda hérlendis á meðan þeir bíða eftir úrskurði stjórnvalda.

Biðin getur verið, eins og áður segir, eitt og jafnvel tvö ár og það er ekki erfitt að ímynda sér að þetta séu erfiðir tímar fyrir hælisleitendur og streituvaldandi þar sem áhyggjur af framtíðinni eru miklar. Þennan tíma eru þeir í eins konar andlegri einangrun. Þótt aðgangi sé ekki lokað að gistaheimilinu í Reykjanesbæ, þar sem þeir dvelja, þá koma þangað fáir utan starfsfólks RKÍ og bæjarins. Viðkomandi starfsfólk gerir sitt besta fyrir hælisleitendurna en það myndi rjúfa einangrun þeirra mikið ef aðrir kæmu einnig reglulega í heimsókn.

Í þeim tilgangi hófu nokkrir einstaklingar að heimsækja gistiheimilið á síðasta ári og þeir ætla nú að stofna grasrótarhreyfingu: ,,Áhugahóp um mannréttindi hælisleitenda“.

Hópurinn ætlar ekki að skipta sér af rannsókn stjórnvalda á umsóknum hælisleitenda eða að reka áróður fyrir pólitískum málstað heldur er tilgangur og markmið hans einfaldlega að kynnast hælisleitendum, hlusta á sögur þeirra, læra um aðstæður í heiminum og leita hugsanlegra leiða til þess að bæta úr mannréttindamálum þar sem þess er þörf.

Grasrótarhreyfinguna vatnar fleira sjálfboðaliða en starfið er ekki alltaf létt og því ekki fyrir hvern sem er. Sögur hælisleitenda geta verið mjög sorglegar, stundum kynnist sjálfboðaliði viðkomandi mjög vel en getur lítið hjálpað og viðkomandi getur verið fluttur úr landi hvenær sem er. Hópurinn mun því bjóða upp á fræðslu fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa með hreyfingunni.

Sá sem gefur sig í þetta starf getur fengið ómetanlega reynslu, sem jafnvel breytir sýn hans á lífið og heiminn. Við trúum því að sjálfboðaliðastarf af þessu tagi leggi ekki aðeins hælisleitendum ómetanlegt lið heldur auðgi það einnig íslenskt samfélag.

(Prestur innflytjenda, 15. júní 2006 FrB.)

css.php