Að þiggja hjálp og veita – við hjálpumst að

Um daginn horfði ég á kvikmynd frá árinu 1994: ,,When a man loves a woman“ með Andy Garcia og Meg Ryan í aðalhlutverkum. Hún fjallar um hjón sem á yfirborðinu líta út fyrir að vera hamingjusöm en síðar kemur í ljós að konan er virkur alkóhólisti. Í ástar- og hjónaböndum deilir fólk ekki einungis hamingju heldur líka erfiðleikum.

Meginþema sögunnar er samband hjónanna en á bak við söguna er ekki síður mikilvægt mál, en það eru AA samtökin, (Alcoholics Anonymous), sem eru frjáls félagasamtök fólks með áfengissýki. Þau eru mjög virk um allan heim og ekki síst á Íslandi. Flest okkar hljóta að kannast við samtökin. Samkvæmt mínum skilningi einkennigst starfsemi AA af því að fólk hjálpist að á jafnræðisgrundvelli. Kannski er það vegna séreinkennis áfengissýkinnar, að manni batni aldrei algjörlega, að það gefst svo vel í AA samtökunum að þeir sem eru í góðu lagi og þeir sem eiga í erfiðleikum haldi sig saman á samkomum.

Kvikmyndin vakti mig til umhugsunar um nokkur atriði sem við getum lært af AA og hugsanlega notað í málefnum innflytjenda hérlendis. Að sjálfsögðu eru áfengismál og innflytjendamál ólíkir málaflokkar. En það sem ég legg áherslu á hér eru ekki málaflokkarnir sjálfir, heldur viðhorf manna gagnvart erfiðleikum sínum og fólkinu í kringum sig. Eftirfarandi er hugleiðing mín um innflytjendamál.

1. Að þiggja hjálp er hugrekki

Það er alls ekki auðveld ákvörðun að tala um vandamál sín við annað fólk og að biðja um aðstoð. Jafnvel þótt fagfólk veiti aðstoðina getur það verið erfitt fyrir viðkomandi að tjá sig við ókunnuga. Utan vestur Evrópu og norður Ameríku er mun sjaldgæfara að fólk leiti til sérfræðinga eftir aðstoð. Í sumum menningarheimum er skömm að tala um vandamálin fyrir utan fjölskylduna og jafnvel vanvirðing að fá aðstoð.

Þetta er vissulega skiljanlegt. En ég vil leggja áherslu á nokkur atriði hér á eftir, lesi einhver sem á erfiðleikum þessa grein.

  • Enginn kemur til þín ef þú bara bíður. Margir aðilar, eins og starfsfólk Alþjóðahúss eða þjónustufulltrúar í ýmsum stofnunum, eru reiðubúnir til að hlusta á þig. En við getum ekki fundið þig nema þú komir til okkar.
  • Enginn okkar hlær að þér né lítur niður á þig. Mörg þekkjum við af eigin reynslu hvernig það er að vera innflytjandi, og við erum fólk eins og þú. Við erum eins, en ekki öðruvísi. Við erum á sama báti.
  • ,, Aldrei of seint“ segir fólk stundum, en því er ég ekki sammála. Betra er að leita aðstoðar áður en málið verður óleysanlegt. Þú tapar engu á því að fá hjálp núna, frekar en síðar.

2. Að meta sjálfan sig rétt

Mér skilst að fólk í AA öðlist (eða uppskeri) sjálfstraust í gegnum það að þiggja aðstoð og veita öðrum aðstoð. Mér finnst það sama vera mikilvægt í málefnum innflytjenda.

Það er mjög eðlilegt að upp komi erfiðleikar við búsetu í nýju landi, sérstaklega fyrstu árin. En þetta er ekki innflytjendum að kenna, og ekki heldur Íslendingum. Að sjálfsögðu berum við öll sem hér búum ábyrgð á því að bæta móttökukerfi og losa fólk að mestu við óþarfa erfiðleika. En erfiðleikar sem felast í búferlaflutningum á milli landa munu ávallt vera til staðar í einhverjum mæli, burtséð frá samfélagslegum endurbótum. Ég tel það óhjákvæmilegt að maður upplifi erfið tímabil í flutnings- og aðlögunarferli því sem búseta í nýju landi hefur í för með sér. Tímabil þar sem maður jafnvel missir traust á sjálfum sér.

Það sem er mikilvægt (sérstaklega ef viðkomandi er maður sjálfur) er að við mistúlkum ekki þetta ástand sem heimsku eða leti. Í flestum tilfellum höfum við búið í heimalöndum okkar sem sjálfstæðir einstaklingar og við höldum því áfram hérlendis að loknu vissu skeiði. ,,Aðlögunarferli“ innflytjenda helst einmitt nákvæmlega í hendur við ferli aukins sjálfstrausts þeirra.

3. Ennþá innflytjandi?

Síðasti punkturinn sem mig langar til að fjalla um er dálítið viðkvæmur. Ég tel það óþarfa að við (innflytjendur) höldum fast í þá ímynd að við séum ,,innflytjendur“ eftir að við komumst yfir mestu byrjunarerfiðleikana. Hins vegar þykir mér leitt ef við, sem búin eru að samstilla líf okkar íslensku þjóðlífi, gleymum eigin erfiðleikum eins og þeir hefðu aldrei verið til. Reynsla og þekking okkar sem höfum verið búsett hér lengi hlýtur að geta nýst vel til að auðvelda líf þeirra innflytjenda sem eru nýkomnir.

Ég er búinn að vera búsettur hér í 14 og hálft ár. Í samanburði við þá sem hafa búið hér í 30 ár skortir mig enn ýmsa þekkingu um landið og íslenska mín er síðri. Samt get ég líka gert ýmislegt jákvætt fyrir ,,nýkomið“ fólk og það gleður mig mjög.

En þar sem ég beinlínis vinn við að aðstoða innflytjendur væri ósanngjarnt að bera mig saman við aðra innflytjendur í þessu samhengi. Reyndar þekki ég marga sem sífellt veita fólki frá heimalandi sínu aðstoð. En engu að síður get ég ekki neitað því að mig dreymir um að aðeins fleiri leggi sitt af mörkum við að hjálpa öðrum innflytjendum, eða a.m.k. sýna málaflokknum áhuga. Manni getur tekist að aðlagast íslensku samfélagi gjörsamlega en maður getur ekki þurrkað út hluta lífs síns.

Ef aðstoð innflytjenda til annarra innflytjenda er ekki fullnægjandi er það kannski vegna þess að skipulaging slíks aðstoðarkerfis hefur ekki verið nægilega raunsæ eða áhugaverð. En á sama tíma verðum við að viðurkenna þá staðreynd að fáir innflytjendur hafa svarað kalli til aðstoðar þrátt fyrir mörg tækifæri, t.d. frá Alþjóðahúsinu og Rauða Krossinum undanfarin ár. Því er það einnig mikilvægt og eftirsóknarvert að við innflytjendur veltum þessum málum fyrir okkur. Vegna þeirrar sýnar: að allir eigi að standa saman og hjálpast að, dáist ég að fólki í AA samtökunum.

(Prestur innflytjenda)

css.php