Ekki bara kvennamál!

Landspítali háskólasjúkrahús hyggst breyta skipulagningu og þjónustu neyðarmóttöku vegna nauðgana og yfirlæknir móttökunnar hefur þegar fengið uppsagnarbréf. Frá sjónarmiði stjórnar spítalans getur þessi ákvörðun verið hagræðing, en fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda er það ekkert annað en skerðing á þjónustu. Yfirlæknir með sérþekkingu er að fara, ráðgjafar eru ekki lengur í sólarhringsvöktum. Það sem er verst er að þessi breyting mun eyðileggja starfsemi núverandi móttöku sem telst til fyrirmyndar á viðkomandi sviði. Ef ákvörðunin væri tekin vegna fækkunar nauðgana, myndi hún vera skiljanlegri. En staðreyndin er ekki þannig. Að sögn Rúnu Jónsdóttur, talskonu Stígamóta, bárust 155 nauðgunartilfelli til Stígamóta í síðast ár og fjöldi kvenna sem leituðu þangað jókst um 20 prósent.

Þegar þessi skelfilega frétt kom fram brugðust flest kvennasamtök mjög snöggt við. Að sjálfsögðu mótmæla þau öll harkalega þessari áætlun. Hins vegar heyrist ekki mjög mikið frá hlið karlmanna. Er það líka sjálfsagt? Ég held það ekki.

Er móttaka fórnarlamba nauðgana kvennamál vegna þess að flest þeirra eru konur? Slíkt viðhorf er algjör ruglingur eða einfaldur misskilningur. Hverjar eru þær stelpur sem særast bæði líkamlega og andlega vegna kynferðislegs ofbeldis? Hverjar eru þær sem verða að berjast við trauma nauðgunar alla æfi sína sem eftir er? Hverjar eru þær sem þurfa að fá bestu meðferð sérfræðinga eftir þann atburð?

Þær eru án undantekningar dætur einhverra feðra, vinkonur einhverra stráka og ómetanlegur fjölskyldumeðlimur einhverra fjölskyldna. Hvaða karlmaður getur fullyrt að dóttir hans eða fjölskyldumeðlimur muni aldrei lenda í slíkum málum? Við verðum að sjálfsögðu að vinna að því að nauðgun eigi sér alls ekki stað, en því miður mun það ekki rætast strax á morgun. Eigum við ekki að tryggja þá þjónustu sem er best og veita hana fórnalömbum nauðgana þangað til?

Málið má alls ekki snúast einungis um fjármál spítalans. Málið varðar hvers virði manneskjan er í þjóðfélaginu. Málið má alls ekki snúast einungis um konur, heldur er það mál sem varðar alla sem hugsa um börn sín og fjölskyldu. Við karlmenn eigum að sýna skýrt hvert viðhorf okkar er í málinu og að standa saman til þess að halda okkur á réttri braut.

(Prestur innflytjenda, 22. janúar 2004 Mbl.)

css.php