Hugrekki til að elska og lifa

Í okkar nútíma samfélagi höfum við gjarnan að leiðarljósi, meðvitað eða ómeðvitað, tvær kennisetningar. Önnur kennisetningin er sú að við séum öll jöfn. Hin kennisetningin er sú að við séum öll ólík; að hvert og eitt okkar sé einstakt. Það má kannski segja að þessar tvær staðhæfingar séu að miklu leyti grunnur samfélagsfræða okkar í dag, eins og t.d. hugtaksins um mannréttindi.
Þegar við tölum um jöfnuð mannkynsins, vísum við meðal annars til jafnréttismála, en jöfnuðurinn einskorðast þó ekki bara við réttindamál. Hann á einnig við um virði manneskjunnar allrar sem birtist í mismunandi lífskjörum og lífsháttum.

Erum við jöfn?

En erum við jöfn í alvöru?. Þessarar spurningar spyrjum við þegar við horfum á raunveruleika samfélags okkar og á mismunandi kjör manna. Hér á ég ekki aðeins við mismunandi félagslega stöðu fólks eða fjárhagslegar aðstæður, heldur jafnframt við mikilvægasta þátt lífsins, sem er að elska og að vera elskaður/uð. Þótt ég sé trúaður er ég eins konar svartsýnismaður og viðurkenni að við erum alls ekki jöfn hvað ástina varðar. A.m.k. virðist sem sumir séu heppnir og elski meira og séu meira elskaðir en aðrir. Sumir virðast ekki geta gefið ást eða þegið. Stundum eru aðstæður svo erfiðar að ekki er hægt að leyfa ástinni að þróast, eins og til dæmis í stríði. Hver er jöfnuður fólks hvað ástinni viðkemur?

Kannski er raunveruleiki okkar flóknari á dýpri stigum lífsins. Við getum ekki svo auðveldlega aðgreint það að elska og hitt að vera elskaður. T.d. ala foreldrar upp börn sín með ást en samtímis móta börn ást foreldra sinna.  Ást sem birtist í erfiðleikum getur einnig sýnt okkur dýpri og fallegri mynd af samskiptum og minnt okkur á mikilvægi  þess að elska og veita styrk og hlýju jafnt í meðlæti sem í mótlæti.

Hugrekki samkynhneigðra til að elska.

Í fyrra komu tveir menn – íslenskur og útlenskur – til mín og báðu mig um að halda blessunarathöfn fyrir sambúð þeirra. Það var augljóst að þeim fannst erfitt að bera erindið upp við prest. Málefni samkynhneigðra eru enn umdeild innan kirkjunnar. Samkynhneigt fólk þarf að leita fyrir sér ef það vill tala einlæglega við prest.

Mér finnst það vera sorglegt að fólk geti ekki verið visst um viðmót prestsins þegar það kemur til þess að fá blessun. En málinu var ekki lokið. Dagana eftir athöfnina varð ég vitni að því hve mikið þeir urðu að berjast við ýmsar stofnanir til þess að skrá staðfestar samvist sínar. Viðhorf starfsmanns nokkurs kom mér spánskt fyrir sjónir. Hann sýndi þeim ókurteisi og dónaskap hugsanlega vegna þess eins að þeir eru samkynhneigðir.

Þess má geta að þessir menn þjáðust af HIV svo þeir tóku bæði sterk og dýr lyf. Þess vegna var daglegt líf þeirra mjög takmarkað bæði í starfsorku og í fjárhagslegum aðstæðum.

Engu að síður voru þeir alltaf kurteisir og þolinmóðir, og reiddust aldrei út af aðstæðum sínum. Það sem stakk mig og hvatti var sú staðreynd að þrátt fyrir erfiðleika voru þeir enn trúaðir og leituðu til kirkjunnar og prests án þess að gefast upp. Þeir höfðu fengið góða aðstoð frá Hjálparstarfi kirkjunnar, en traust þeirra til kirkjunnar var áður til staðar. Við í kirkjunni megum ekki gleyma þessari hlið málsins.

Mér sýnist því miður að kirkjan, hvar sem hún er í heiminum, hugsi um mál samkynhneigðra á aðeins einn veg hvort sem hún annars viðurkennir samkynhneigt fólk eða ekki. En ættum við ekki að dýpka hugtak okkar um ástina og auka skilning okkar á ólíkum manneskjum í stað þess að ala á fordómum? Eins og samkynhneigt fólk leitar til kærleika kirkjunnar, ætti kirkjan að leita til elsku þess til að gefa tilvist sinni meira gildi?

Aðstæður ofangreindra vina minna virðast vera þær sömu og áður en þeir halda áfram að berjast fyrir rétti sínum og að sýna öðrum fram á gildi ástar sinnar. Þeir hafa unnið mikið fyrir aðra HIV smitaða á Íslandi og í heimalandi útlenska makans. Starf þeirra sést á vefsíðu www.hiv.is

Saga þeirra er dæmi um ást í erfiðum aðstæðum. Ást þeirra er ekki alls staðar velkomin og þurftu þeir þar af leiðandi að skipuleggja marga baráttudaga í þeirri von að upplifa þær félagslegu og líkamlegu aðstæður sem flestir ganga að sem vísum.

Samt er ást þeirra sönn og þeir gefast ekki upp og sýna fordæmi um hugrekki til að elska, lifa og treysta. Ég fann þar einnig traust sem þeir burðu til míns embættis fyrirfram og það snarti hjarta mitt. Ég var með vitund “kærleiksbera” og hélt að ég væri “gefandi” til þeirra. En ég  lærði meira frá þeim um jafnt virði ástar og mikilvægi þess að hugleiða  raunverulegan jöfnuð manna.

Hvar og hvenær staðfestum við jöfnuð manna á meðal? Bíðum við þangað til dauðinn jafnar alla á jörðunni? Eða leitum við að jöfnuði á meðan við erum enn á lífi?

(Prestur innflytjenda, 10. nóvember 2003 Mbl.)

 

css.php