Hugvekja í Heimsdegi barna

Komið þið sæl, góðir þátttakendur og gestir. Ég vona að allir hafi notið þess að vera hér á Heimsdegi barna og á Vetrarhátíðinni. Ég vil sjálfur þakka fyrir góðu stundirnar hér.

Nú er komið að lokum dagskrárinnar. Við stöndum hér fyrir framan “óskatréð”, en á það höfum við hengt óskirnar sem búa í brjóstum okkar. Og nú ætlum við að kveikja í óskatrénu og brenna það. En af hverju?

Við mannkynið erum eitt en búum í gjörólíkum menningarheimum hér á jörðinni. Við eigum samt margt sameiginlegt og eitt af því eru óskirnar sem búa í brjósti hvers og eins okkar. Við eigum okkur öll ósk eða óskir og frá því í gamla daga og til dagsins í dag, hvort sem það er norðarlega í heiminum, sunnarlega eða við miðbaug, þá hafa manneskjur, hver með sínum hætti, safnað saman óskum sínum og falið þeim æðra mætti, náttúrunni eða guðum, á táknrænan hátt.

Það kann að vera að sú athöfn, sem nú á sér brátt stað, að brenna óskatré, sé framandi fyrir Íslendinga en í heimalandi mínu Japan eru hún algeng. Við Japanir höldum 7. júlí ár hvert sumarhátíð sem heitir “tanabata” Þá skrifar hver og einn ósk sína á lítið blað sem eru í fimm mismunandi litum, en hver má skrifa nokkrar óskir, og með þeim skreytum við bambustré. Sérhvert heimili getur skreytt sitt eigið bambustré en íbúar á tilteknu svæði geta líka tekið sig saman og haft sameiginlegt tré.

Bambustrén með óskunum er síðan höfð úti í garði til að sumarvindarnir geti blásið um það og borið óskirnar til stjörnuprinsessunnar sem talin er búa á himnum. Þessi siðvenja var upphaflega þannig að fólk trúði því að prinsessan færði því sérstaka gæfu í saumaskap og því skreytti það gjarnan lítinn saumaklút eða skrifaði á hann óskirnar sem það hengdi á tréð, en hún þróaðist í almennt óskatré.

Margir Japanir fara einnig á svokallaðan Shintó-helgistaði með tréflís sem það hefur teiknað á hest auk þess að skrifa á óskirnar sínar. Í gamla daga virðist fólk hafa fórnað alvöru hestum en smám saman fór það að nota myndirnar í staðinn fyrir lifandi hesta, til allrar lukku fyrir þá! Þessar tréflísar eru síðan brenndar á ákveðnum dögum. Eldur þykir oft heilagur kraftur. Með því að brenna efnið og breyta því í reyk sem fer upp til himna telur fólk að óskirnar fari sömu leið, til himinsins og guðanna.

Slíkar athafnir, að skrifa óskir og skila þeim af sér, í á, sjó eða að brenna þær, eru þekktar víða um heim, þótt útfærslan sé mismunandi. Það sem er sameiginlegt er að okkur langar að bera óskir okkar til sjávar, himins eða guðs, sem sagt til einhvers sem hlustar á óskirnar. Við horfum á himninn með von um að almáttug tilvera taki á móti óskunum okkar.

En um leið verður óskin að vera sönn og réttlát.
Ég vil benda á að það er ekki bara mikilvægt að skrifa óskirnar niður heldur einnig að skoða þær. Af hverju óska ég þessa? Hvað mun það þýða í lífi mínu ef óskin rætist? Er óskin nauðsynleg? Hvar liggja rætur óskar minnar? Oftara en ekki, þekkjum við ekki svo vel óskir okkar og veltum því ekki einu sinni fyrir okkur.

Ég tel að sönn ósk eigi að eiga sér rætur djúpt í hjarta hvers manns. Ósk sem á sér ekki rætur í hjartanu er ekkert annað en bara yfirborðslegur draumur. Þess vegna finnst mér mikilvægt að fólk haldi í óskir sínar. Að halda í ósk er ekki það sama og að eltast við draum. Ósk er ekki flótti frá erfiðleikum lífsins heldur er hún að meðvituð um raunveruleikann og gerir greinarmun á því sem við getum ráðið og því sem við getum ekki ráðið. Og það er mikilvægt. Það skiptir ekki máli hvort þú sért unglingur, fullorðinn eða eldri maður. Að íhuga eigin óskir á þennan hátt er leið til veruleika sem sérhver á í sínu brjósti sínu, til innri heims mannsins.

Óskatréð okkar hér er táknrænt fyrir vegamót. Brátt horfum við öll á óskir okkar fara til himna. Jafnframt kunna þær að rætast í hjarta okkar, hvers og eins, sem aðeins við höfum aðgang að.

Að lokum langar mig til að segja stutt bænarorð og mér þykir vænt um ef við getum sameinað hugi okkar og hjörtu líkt og óskirnar sameinast himninum.

“ Himneski almáttugur, taktu á móti óskum okkar, þær eru nú í þínum höndum. Láttu óskirnar skína í vetrahimninum eins og glitrandi, silfraðar stjörnur. Lýstu hjarta hvers og eins okkar með hreinu ljósi gleði, vonar og hlýju manna sem við öll viljum geyma í brjóstum okkar”.

(Prestur innflytjenda)

css.php