Hver er nágranni minn?

Októbermánuður var liðinn. Október er alltaf svolítið annasamur hjá mér, meðal annars vegna þess að börnin mín tvö eiga þá bæði afmæli. Þegar börnin voru lítil, var hver afmælisdagur bókstaflega stór atburður og við foreldrar vorum ekki síður spennt en börnin sjálf.

Nú eru þau búin að ná tvítugsaldri og afmælisdagar þeirra að sjálfsögðu ekki jafnspennandi og þegar þau voru lítil. Samt eru þeir enn gleðilegt tilefni. Sonur minn var t.d. af tilviljun staddur á landsmóti Æ.S.K.Þ. (Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar) á afmælisdaginn sinn og fékk blessun margra unglinga þar. Mér finnst sonur minn vera lánsamur. Slíkt er alls ekki sjálfsagt mál. Og ég er líka lánsamur sem faðir hans.

En það eru ekki allir sem geta notið gleði lífsins á sama hátt.

Einn af hælisleitendum sem ég hef samband við þessa dagana er strákur á sama aldri og sonur minn. Hann flúði heimaland sitt með fjölskyldu sinni þegar hann var sex ára en faðir hans hafði verið myrtur í stríði áður en flótti þeirra hófst.

Nágrannaþjóð tók á móti fjölskyldunni en þar mætti hún aftur ofsóknum og mismunun af landsmönnum þjóðarinnar. Eftir tíu ár, þegar strákurinn varð að táningaur, flúði hann aftur, en aleinn í þetta skiptið.

Strákurinn eyddi fimm árum í að leita að landi þar sem yfirvöld tækju upp hælismál hans. En lönd í Evrópu, sem eru þegar full af hælisleitendum, sýndu máli drengsins engan virkilegan áhuga. Hann kom til Íslands fyrir tveimur árum og hérna var málið hans tekið almennilega til skoðunar í fyrsta skipti.

Eftir tvö ár á Íslandi fékk strákurinn synjun um hælisumsókn sína frá Útlendingastofnun. Málinu hefur verið áfrýjað til ráðuneytisins en víst er að lífi hans er ekki ætlað að verða auðveldu.

Við skulum samt ekki sjá drenginn aðeins sem manneskju með slæm örlög eða vesaling. Ég hef ekki rétt til að dæma það hvort hann sé hamingjusamur eða ekki þrátt fyrir lífsreynslu hans. Hann er með eigin persónuleika og á að eiga möguleika í framtíðinni sinni eins og sérhvert ungmenni í samfélagi.

Engu að síður er það staðreynd að lífsaðstæður drengsins hafa verið allt aðrar en þær sem við eigum að venjast í okkar samfélagi. Ég tel að það sé mikilvægt að við séum meðvituð um það að það eru ekki allir sem lifa í sama umhverfi og við.

Þessi smávitund verður að hjálpa okkur að verða ekki skilningarsljó á ýmsa hluti sem við njótum daglega og tökum næstum því sem sjálfsagða. Og jafnframt mun smávitundin vonandi vekja spurningu inni í okkur sjálfum um hvers konar nágrannar við eigum að vera hverjir við aðra í heiminum.

Við getum látið erfiðleika annarra vera þeirra eigin. En stundum finnst okkur við einnig geta reynt að taka á okkur hluta af byrði nágranna okkar. Ef til vill sveiflumst við oft á milli þessara tveggja viðhorfa.

Samt hvílir spurningin yfir höfðum okkar:„Hver er nágranni minn?” ,,Hvers konar nágranni er ég?” Er það ástæðulaus yrðing mín ef ég segi að spurningin skipti okkur miklu máli núna í samfélaginu?

(Prestur innflytjenda, 30. október 2013 Trú.is) 

css.php