Hvers konar íslensku eigum við að læra?

Undanfarið hefur mikið verið rætt um að innflytjendur á Íslandi skuli læra íslensku og er það vel. Flestir eru sammála um að einhver íslenskukunnátta er nauðsynleg fyrir virkni hinna nýju þegna í samfélaginu. Það sem mér hefur þó fundist skorta í umræðunni er hvers konar íslensku eiga innflytjendur að læra. Um það er ekkert getið t.d. í nýkynntri stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda.

Það getur ef til vill verið erfitt fyrir Íslendinga að skilja við hvað er átt en tungumálið, íslenskan, sem fólk notar í daglegu lífi er fjölbreytt og fer eftir kringumstæðum. Áherslur eru líka ólíkar í talmáli og ritmáli og þar getur líka verið nokkur blæbrigðamunur á málnotkun. Það sama á við um þá sem sjá um íslenskukennsluna. Mig langar til þess að nefna nokkur dæmi til þess að skýra hvað ég á við. Hjá Háskóla Íslands er námið ,,Íslenska fyrir erlenda nemendur,” mjög akademískt og tekur þrjú ár. Nemendur læra mikla málfræði, öðlast víðtæka þekkingu á sögu og bókmenntum en jafnframt er lögð áhersla á málnotkun og orðaforðinn(eins og t.d. vask, lak, vigt, rúsk-inn, röndött-ur) er oftast mjög mikill eftir námið. Á hinum endanum er stutt námskeið, yfirleitt nokkurra vikna, eins og kennd hafa verið hjá Námsflokkum Reykjavíkur. Þar byggist kennslan fremur á að kenna einfalt, íslenskt mál og einfaldar setningar á borð við ,,Góðan daginn,” ,,Ég heiti ….,” og svo framvegis þar sem fólk getur bjargað sér eins og ferðamaður með frasabók (e.phrasebook). Síðustu ár hefur líka verið að þróast svokölluð ,,starfstengd íslenska” en þar er lögð áhersla á orða- og málnotkun sem útlendingar þurfa líklega helst að nota á vinnustöðum sínum.

Það er eðlilegt að bjóða upp á marga möguleika og allir hafa þeir kosti og galla. En um leið tel ég að það sé eftirsóknarvert að móta einhvers konar sameiginlega ,,grunnnámskrá í íslensku” fyrir innflytjendur.

Fjölbreyttari og sveigjanlegri íslenska

Slík grunnnámskrá myndi að mínu mati einnig hjálpa Íslendingum í samskiptum við innflytjendur, sem eru þá að læra grunníslensku, þar sem þær hefðu þá betri yfirsýn yfir það sem innflytjendur hugsanlega skilja á íslensku. Þetta segi ég vegna þess að af eigin reynslu og fjölda annarra þá eru Íslendingar óvanir því að tala tungumálið við aðra sem hafa íslensku að öðru tungumáli eða eru að læra það. Þeir sem hafa íslenskuna að móðurmáli nota oft erfið orð, setningaskipan og orðasambönd, sem engin leið er fyrir útlendinga að skilja. Það getur verið erfitt að byggja upp samskipti þegar málum er svo komið. Það væri mikil hjálp í því ef Íslendingar lærðu að vera aðeins sveigjanlegri þegar þeir tjá sig á íslensku við innflytjendur og nota orð sem líklegt er að þeir skilji. Mig langar að taka eitt lítið dæmi. Þegar Íslendingur spyr innflytjenda: ,,Liggur á þessu?” þá getur orðasambandið ,,að liggja á” verið erfitt fyrir viðmælandann nema að hann sé búinn að læra þetta orðasamband og það gerir hann sennilega ekki fyrr en eftir nokkurt nám. Það er því þýðingarlaust að endurtaka sömu spurningu ,,Liggur þetta á?“ mörgum sinnum. Það væri betra að reyna aðrar setningar orð sem hafa sömu merkingu en gætu verið einfaldari fyrir innflytjandann að skilja eins og:,, Er þetta áríðandi?“ eða ,,Ertu flýta þér?“ eða ,,Þarftu þetta strax?” Þetta er lítið atriði en þau eru svo ótrúlega mörg á þessu sviði sem geta liðkað fyrir samskiptum og auðveldað.

Í framhaldi af þessu langar mig að skora á Íslendinga til þess að bregðast vel við viðleitni innflytjenda til þess að læra íslensku. Mig langar að hvetja sjónvarp- og útvarpsstöðvar til þess að ráða innflytjendur svo að rödd þeirra fái að heyrast og til þess að almenningur heyri hversu fjölbreytt íslenska er töluð á þessu landi.

Ég skil að slíkt tilraun gæti verið í mótsögn við það sem kölluð hefur verið hreintungustefna en margir Íslendingar hafa áhyggjur af framtíð íslensku tungunnar. Ég tel hins vegar að endurskoðun og endurskipulagningu þeirrar stefnu varði ekkert síður kynslóð ungra Íslendinga en innflytjendur. Mér finnst þess vegna ósanngjarnt að halda hreintungustefnunni aðeins á lofti þegar málefni innflytjenda.

Tungumál eru dýrmæt, þau eru grundvöllur samskipta og skoðanaskipta, hlustum öll eftir því sem sagt er, ekki aðeins hvernig það er sagt og lærum hvert af öðru.

Þessi farlama orð
eru fjötruð við tungu mína, sálu
og spor mín á jörðu

Þessi fjörugu orð
opna mér heim þúsund skálda
og laða mig að paradís

Orð mín, farlama og fjörug
eru himnagjöf

(Prestur innflytjenda, 18. febrúar 2007 Mbl.)

css.php