Innflytjendastefna án Dómsmálaráðuneytis?

Félagsmálaráðuneytið kynnti fyrir skömmu nýja stefnu stjórnvalda um aðlögun innflytjenda á Íslandi. Stefnan varð til hjá Innflytjendaráði, en þar eiga félagsmála-, dómsmála-, menntamála- og heilbrigðisráðuneyti öll sinn fulltrúa, en auk þess situr í ráðinu fulltrúi Sambands íslenskra sveitafélaga og einstaklingur af erlendum uppruna. Það er ýmislegt gott í hinni nýju stefnu stjórnvalda, en einnig ýmislegt sem á vantar og er algjörlega ófullnægjandi. Ég ætla að tæpa hér á nokkrum atriðum, en helst þyrfti langa greinargerð um málið.

Það sést skýrt að gæði einstakra þátta nýju stefnumótunarinnar eru mjög misjöfn. Sumir kaflar eru vel unnir en aðrir ekki. Kaflarnir um menntamál (skólamál) og heilbrigðismál eru yfirleitt vel hugsaðir og skipulagðir. Það er e.t.v. vegna þess að fjölmargir skólaaðilar og starfsmenn í heilbrigðisþjónustu hafa af sjálfsdáðum verið að vinna að því undanfarin ár að bæta þjónustu sína við innflytjendur. Starfsárangur þeirra endurspeglast í stefnunni.

Köflunum um íslenskukennslu, atvinnumál og hlutverk sveitafélaga er hins vegar mjög ábótavant. Spurningar vakna um hvernig á þessu standi. Er þetta vegna þess að það hefur einfaldlega ekki verið unnið að málefninu á þessum sviðum, eða er það vegna þess að skoðanir og reynsla starfs- og fagaðila hafa ekki náð eyrum Innflytjendaráðs? Ég mæli með því að ríkisstjórnin athugi málið betur.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að það er undarlegt að dómsmálaráðuneytið hefur ekki sett fram neina stefnu um réttindamál innflytjenda. Mannréttindi er eitt af grunngildum íslensku þjóðarinnar eins og sagt í stefnunni sjálfri. Hvers vegna er þá ekkert talað um mannréttindi innflytjenda í nýju stefnunni? Er ekki ýmsu ábótavant í þeim efnum? Hvar er t.d. stefnumótun um landvistarréttindi erlendra kvenna sem mæta heimilisofbeldi? Um þetta hefur verið fjallað í fjölmiðlum að undanförnu en lítið hefur gerst. Hvar er stefnumótun um aldursskilyrði (eldri en 24 ára) í veitingu dvalarleyfa til maka Íslendinga? Árið 2004 gerði mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins alvarlega athugasemd við samsvarandi lagaákvæði í dönskum lögum og taldi það vera mannréttindabrot. Hvar er stefnumótun um fjölskyldueiningu innflytjenda? Sjálfstæð framfærsluskylda er sett á alla umsækjendur um dvalarleyfi svo lengi sem viðkomandi er yngri en 67 ára. Slík lagaákvæði hindra innflytjendur í að búa saman sem fjölskylda. Eiga mál sem þessi ekki beint erindi við aðlögunarmál innflytjenda á Íslandi? Ég mælist eindregið til þess að ríkisstjónin velti málinu fyrir sér að nýju.

Í framhaldi af ofangreindu tel ég það líka nauðsynlegt að móta stefnu um hlutverk lögreglunnar í samskiptum við innflytjendur. Viðurkennir lögreglan t.d. skort á íslenskukunnáttu þegar maður af erlendum uppruna er annars vegar? Er það ekki nauðsynlegt að móta stefnu um samskiptin sem gengur vel eftir staðreynd af þróun samfélagsins? Það væri vel við hæfi að hlutverk lögreglu væri einnig þáttur í stefnumótun sem þessari.

(Prestur innflytjenda, 2. febrúar 2007 Blaðið)

css.php