Sjálfsmynd Íslendinga í fjölbreyttu þjóðfélagi

Varðandi innflytjendamál í víðu samhengi, tel ég tvö meginatriði mikilvægust.

A. Kynþáttafordómar eða mismunun eftir þjóðerni.
B. Mismunandi mat varðandi hagsmuni þjóðarinnar. Sem sagt hvort innflytjendur hafi jákvæð áhrif eða neikvæð fyrir efnahag þjóðarinnar, menningu eða viðhald stjórnskipulagsins.

Hér ætla ég fyrst og fremst að fjalla um atriði B, sem sagt um hagsmuni þjóðarinnar, eins og þeir eru metnir samkvæmt sameiginlegum viðmiðum lýðræðisþjóða. Þau eru t.d. mannréttindi eða virðing á sjálfstæði og fullveldi þjóðanna. Það má segja að þessi sameiginlegu viðmið séu viðhorf til að viðhalda og bæta lýðræðið bæði innan hverrar þjóðar og í alþjóðlegu samhengi. Auk þessara viðmiða getum við bætt við trúarlegu- eða hugmyndarfræðilegu gildismati, en það gildismat á að rætast með lýðræðisreglum.

Þegar við metum hagsmuni þjóðarinnar verðum við að nota þessi viðmið, en þó að við séum innan ramma þeirra, leggjum við áherslu á mismunandi málefni. Fyrir suma vega t.d. efnahagslegir hagsmunir mikið, en aðrir leggja áherslu á umhverfisvernd. Þessi munur speglar að vissu leyti eiginleika mannsins og sjálfsmynd hans. Og þess vegna er fólk með mismunandi skoðanir í lýðræðisþjóðfélagi, og það er af hinu góða.

Nú er oft spurt af hverju Íslendingar þurfi að taka á móti innflytjendum? Er Ísland ekki fyrir Íslendinga, eingöngu? Til þess að svara þessari spurningu, verða Íslendingar að ákveða hvað vegur mest í gildismati þeirra, hvað meta þeir meira en annað.

Í því samhengi er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim tímum sem við lifum á.

Í gamla daga var jörðin stærri en núna. Gamla Testamentið segir okkur að Nói hafi flúið synduga jörð í örkina, og sögu Móse og Ísraelsmanna og flutning þeirra frá Egyptlandi. Þessar sögur fjalla um ákvörðun um aðskilnað. Það var enn til nóg rými á jörðinni til þess að færa sig um set.

Árið 2000 er jörðin okkar orðin minni en áður. Þetta er staðreynd sem við getum staðfest í daglegu lífi okkar á áþreifanlegan hátt. Nú til dags er ekki hægt að búa til örk og flýja úr landi. Kanski getum við sagt að jörðin sé sjálf orðin stór örk, en samt getum við ekki flogið út í geiminn með henni.

Þegar árið 1963 skrifaði Martin Lúther King úr fangelsi í Austur-Bandaríkjunum;”Óréttlæti á tilteknu svæði ógnar réttlæti alls staðar í heiminum. Við erum allir bundnir við net, sem við getum ekki flúið og það net er kallað gagnkvæmni.” Óréttlæti og þjáning á einum stað veldur kvöl sem snertir okkur öll. Mig langar til að ítreka það að þetta er ekki aðeins trúarlegt efni heldur raunveruleiki heimsins, raunveruleiki gagnkvæmninnar sem við byggjum líf okkar á.

En hvernig er þessi gagnkvæmni á Íslandi? Hvernig verðum við áþreifanlega vör við hana?

1. Hvað fara margir Íslendingar til útlanda til þess að klára framhaldsnám, og nýta síðan þessa menntun eftir að þeir koma til baka til landsins? Læknar, flugmenn, íþróttafólk, listafólk o.fl?

2. Hvaða vörur kaupa Íslendingar frá útlöndum, og nota í daglegu lífi? Bíla, tölvur, lyf o.fl? Séstaklega með því að kaupa framleiðslu í þungaiðnaði kemst Ísland hjá mengun og eyðileggingu á náttúru landsins. Fögur náttúra Íslands reiðir sig að vissu leyti á þjáningar í útlöndum.

3. Hversu mikið af fiski selja Íslendingar til útlanda? Geta sjómenn haldið vinnu ef önnur lönd hætta að kaupa fisk frá Íslandi?

4. Hvað vinna margir innflytjendur eða erlent fólk á Íslandi? Getur iðnaðurinn starfað án þessara starfsmanna? Í fiskvinnslu, á veitingastöðum, hótelum eða sjúkrahúsum ? Fjöldi nýrra atvinnuleyfa til útlendinga í fyrra var 3.073. Þýðir þessi tala aðeins umburðarlyndi Íslendinga? Þýðir hún ekki að Ísland þarfnist vinnuafls útlendinga?

5. Hvað koma margir ferðamenn til Íslands á hverju ári? Fleiri en 200.000 erlendir ferðamenn komu hingað til lands í fyrra. Hafa þeir ekki góð áhrif á efnahag þjóðarinnar?

Þannig virkar gagnkvæmnin milli Íslands og útlanda. Það er ekkert annað en tálsýn að horfa fram hjá þessum raunverukeika og reyna að gera Ísland að eins konar eigin örk.

Næstu hundrað ár frá árinu 2000 er ekki tími sem byggir á hugmynd aðskilnaðar eins og sést í sögu Móse, heldur verður framtíðin að byggja á hugmynd Hvítsunnudags. Það er dagur þegar fólk byrjar að tala og heyra mörg ókunnug tungumál í Nýja Testamentinu. Þar er það táknað sem andstæða aðskilnaðarhugmyndar. Það er hugmynd um blöndun og gagnkvæma aðlögun, m.ö.o. von um uppbyggingu jákvæðrar fjölbreytni. Tveir eða fleiri ókunnugir mætast þar, og lyfta tilveru sinni á hærra plan, með því að gera hið óþekkta þekkt. Ef mannkynið á að þroskast á einhvern hátt tel ég að það hljóti að vera á þennan hátt.

Samfélag mannkyns hefur þróaðst og breyst í samhengi við rými á jörðinni. Ennþá hefur mannkynið þó ekki náð að þróa þá dýpt sem þarf til sameginlegrar tilvistar á jörðinni. Er það ekki satt að þetta sé stefnan í framtíðinni á okkar tímum? Mér sýnist að í umræðum um málefni innflytjenda hafi skort að skoða þau mál út frá manneskjunni sjálfri og hvernig þau snerta tilveru okkar alllra.

Málefni innflytjenda er ekki aðeins mál sem snertir útlendinga, heldur eru þetta mál sem varða tilveru Íslendinga eða sjálfsmynd þeirra. Hverjir eru Íslendingar og hvað er gildismat þeirra? Hverjir eru náungar þeirra? Hvernig sanna Íslendingar sig í sögunni sem stolt þjóð? Hugmyndir Íslendinga í þessum efnum ættu að vera grunnur innflytjendamála. Að breyta lögum eða samfélagskerfi smátt og smátt án þessara hugmynda getur ekki verið annað en yfirborðsleg “plástursmeðferð”.

Hvernig skilja Íslendingar þá tíma sem þeir lifa á? Hver er framtíðarmynd þjóðarinnar? Hvað færir framtíðina til Íslands? Einangrunarstefna færir enga framtíð. Hvað er sjálfstæð þjóð? Er það þjóð sem þykist geta gert allt sjálf? Er það ekki frekar sú þjóð sem viðurkennir mikilvægi alþjóðlegrar gagnkvæmni og samvirkni, og ber ábyrgð ekki aðeins á sjálfri sér, heldur á hagsmunum og friði alls mannkyns?

Ef það er ekki svo, hver er þá framtíðin?

(Prestur innflytjenda, 7. júní 2000 Mbl.)

css.php