Meira um móðurmál!

Félagsmálaráðuneytið kynnti stefnu um aðlögun innflytjenda á Íslandi á vegum ríkisstjórnarinnar í síðastliðinni viku. Stefnan er alls ekki fullnægjandi að mínu mati og vantar þar ýmsar viðbætur. Samt er það fagnaðarefni að í stefnunni er rætt um mikilvægi þess að ,,nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum með annað móðurmál en íslensku fái eftir því sem kostur er tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu.“ Í framhaldi er bent á mikilvægi þess að skólaaðilar og skólaumhverfi taki tillit til þekkingar á erlendu móðurmáli nemenda vegna sjálfsmyndar þeirra en einblíni ekki bara á vankunnáttu þeirra á íslensku.

Það er lofsvert að ríkisstjórnin viðurkenni mikilvægi móðurmáls innflytjenda og ég met það mikils enda mikilvægt fyrir innflytjendafjölskyldur að viðhalda móðurmáli sínu. En ég vil bæta við nokkrum atriðum sem styrkt gætu móðumálskennslu innan sem utan skólakerfisins enn betur.

Í fyrsta lagi hafa fjöldi rannsókna leitt það í ljós að þeim mun betur sem einstaklingur kann móðurmál sitt, þeim mun auðveldara reynist honum að tileinka sér og læra nýtt tungumál.

Í öðru lagi snýst þekking á móðurmáli ekki bara um sjálfsmynd innflytjendabarna, heldur einnig foreldra þeirra og samband barns og foreldris. Það er ekki síður mikilvægt fyrir fullorðinn innflytjenda að læra íslensku eins og börn þeirra. En að læra nýtt tungumál er ekki alltaf létt og óöryggið ekki langt undan þegar byrjað er að tala tungumálið – sama á hvaða aldri er. Börn geta liðið fyrir lélega íslensku foreldra sinna, t.d. í skólasamskiptum, og skynja strax ef viðmælandi ber ekki virðingu fyrir foreldrum sínum. Í ofanálag líða foreldrar fyrir að þeim sé ekki sýnd virðing fyrir framan börnin sín. Þar af leiðandi eru tengsl sjálfsmyndar barna og foreldra annars vegar og tilllitssemi við innflytjendur sem eru að ná tökum á nýju tungumáli hins vegar flóknari en margur heldur.

Í þriðja lagi er foreldri oftar en ekki að glíma við að ná tökum á íslensku á sama tíma og hann er að viðhalda móðurmáli barna sinna. Það er því mikilvægt að foreldri fái stuðning og hvatningu til þess eins og börnin.

Síðast en ekki síst eru tvítyngd börn auður samfélagsins og framlag þeirra er mikilvægt þegar fram í sækir. Því er móðurmálskennsla ekki einkamál innflytjendafjölskyldna. Fimm hópar eru nú í móðurmálskennslu hjá Móðurmáli, félagi um móðurmálskennslu tvítyngdra barna, og fleiri að bætast við. Að því er ég best veit eru fleiri en félagið Móðurmál sem halda úti móðurmálskennslu. Yfirvöld menntamála hér á landi veita tvítyngdum börnum og foreldrum þeirra ekki styrk til móðurmálskennslu, en í tilefni útgáfu innflytjendastefnunnar vil ég fara þess á leit við ráðuneytið að þeir gangi skrefinu lengra og styrki móðurmálskennslu innflytjenda.

(Prestur innflytjenda, 10. febrúar 2007 Frb.)

css.php