Ógnvænleg trúarbrögð eða málflutningur?

GREIN eftir Grétar H. Óskarsson undir fyrirsögninni ,,Ógnvænleg trúarbrögð” birtist í Morgunblaðinu 21. maí sl. en í henni fjallaði höfundurinn um ógnina sem hann taldi stafa af íslamskri trú. Ég tel að Grétar hafi góða samvisku og gagnrýni hann ekki persónulega en mig langar að gera nokkrar athugasemdir við málflutning hans.

Rökin fyrir ógninni taldi hann m.a. vera eftirfarandi:

  1. Samkvæmt íslömskum trúarlögum má beita dauðarefsingu sem viðurlögum við ýmsum brotum sem fólk fremur, brotum sem okkur í vestrænum menningarheimi finnst að ekki eigi að hafa í för með sér slíka refsingu, eins og t.d. að láta af trúnni.
  2. Dæmi um slíkar refsingar finnast víða í íslamska heiminum í dag. Samskonar dæmi er líka að finna í sögu kristninnar, t.d. á miðöldum, en þær tíðkast þar ekki lengur.
  3. Múslímar byggja moskur í nágrannalöndum okkar og nota þær líka sem félagsmiðstöðvar og undir kennslu um trú sína. Þeir sem frömdu hryðjuverkin í Bretlandi fengu uppfræðslu í sinni mosku. Þannig að moskur eru líka notaðar til undirbúnings hryðjuverka. Þess vegna á ekki á ekki að leyfa Íslendingum að byggja mosku hérlendis.

Ótti af þessu tagi virðist mér hafa tekið sér bólfestu í hugum fjölmargra þegar rætt er um íslam. Ég viðurkenni að óttinn er ekki ástæðulaus en mér sýnist hins vegar að viðbrögðin séu stundum óraunsæ. Því spyr ég:

* Múslímar eru fleiri en billjón. Getum við sett alla múslíma undir sama hatt og notað yfir þá eitt orð, “múslímar”? Eru þeir allir eins? Að mínu mati er orðið þýðingarlítið eins og þegar við köllum okkur “kristna menn”.

* Skoði ég stjórnkerfi íslamsks samfélags viðurkenni ég að efni trúarlegu laganna er mjög umdeilt og í ósamræmi við mannréttindasjónarmið. Við getum ekki litið fram hjá því. Kristnin hefur heldur ekki alltaf verið verndari mannréttinda þegar horft er til sögunnar. Við megum ekki gleyma því að trúarbrögð geta líka breyst.

* Mannréttindum getur verið ógnað í kristni líka og það er ekki einungis fortíðarsaga. Það gerist því miður enn þann dag í dag og getur gerst í framtíðinni líka. Var kristnin hlutlaus þegar fjöldamorð voru framin í nafni fasismans á fyrri hluta 20. aldarinnar? Hvað um aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku á meðan á henni stóð? Hefur kristnin ekki tekið þátt í ófriðsamlegri stefnu Bandaríkjanna gagnvart Mið-Austurlöndum undanfarinn áratug? Eigum við ekki að vera meðvituð um að sérhver trú eða pólitísk skoðun sem völdin hefur getur verið kúgun annarra?

* Það er hræðilegt að innræta og kenna ungu fólki að það sé nauðsynlegt að fremja hryðjuverk á helgistað trúarinnar. En er hægt að alhæfa út frá því fádæmi og rökstyðja að innan raða múslíma á Íslandi séu samskonar “meðlimir” og hryðjuverkamennirnir?

Ofangreindar ábendingar mínar eru alls ekki nýjar en út frá þeim vil ég koma að tveimur mikilvægum vörðum sem ég óska að við sem samfélag hugleiðum mjög vel.

Í fyrsta lagi er það ekki rétt viðhorf að kristni sé þróuð í fullu samræmi við mannréttindi mannkyns og friðarósk, en íslam ekki. Kristni og íslam glíma við ólík verkefni. T.d. tel ég víst að íslam verði að breytast og finna leið til að samræmast hugmyndafræði fólks í vestrænum löndum. Hins vegar þurfum við kristnir menn að skilja að kristni er eins þróuð og við viljum trúa varðandi viðhorf til réttlætis heimsins.

Ég vil frekar segja að kristnin sé búin að læra að fela vandamál sín undir mál sem tilheyra öðrum sviðum en trúarbrögðum. Samband á milli trúar annars vegar og glæpa, kynferðisofbeldis, stríðs o.fl. hins vegar sést ekki eins skýrt í kristni og þegar um íslam er að ræða. En það þýðir ekki að trúin hafi ekkert samband við þetta. Samkvæmt könnun í Bandaríkjunum er hlutfall nauðgana og morða tvöfalt hærra í Louisiana-fylki, sem þykir heitt ,,trúariðkunarsvæði”, en meðaltal landsins alls, og talsvert hærra á svokölluðu Biblíubeltasvæði. Að sjálfsögðu getum við ekki fullyrt að kristin trú sé orsök þessa eða að hún hafi áhrif. Og það er einmitt það sem ég vil segja. Verðum við ekki að skoða okkur sjálf með auðmýkt og íhuga hvort kristni beri fullnægjandi ábyrgð á og í þessari veröld? Þetta er verkefni okkar í kristni.

Í öðru lagi held ég að það skipti miklu máli hvernig íslam breytist í náinni framtíð. Ég er ekki að tala um næsta ár eða áratug heldur lengra tímaskeið. Múslímar eru nágrannar okkar og við getum hvorki breytt þeirri staðreynd né kenningu þeirra að utan. Það eru múslímar sjálfir sem geta leitt íslam á eftirsóknarverðan hátt. Það sem við getum gert er ef til vill að hefja umræður og samræður við múslíma og óska þess að hafa jákvæð áhrif á þá. Ekki vegna þess að kristni þekki betur en íslam, heldur vegna þess að kristni vantar líka ýmislegt og við þurfum að hafa skapandi áhrif hvort á annað með því að hafa samskipti. Aðskilnaðarstefna við múslíma borgar sig aldrei. Áfangastaður hennar er í flestum tilvikum stríð og stjórn á öðrum með ofbeldi. Við þurfum að læra af sögunni.

Grein þessi er ekki tilraun til að vernda íslam, heldur vil ég að við mannfólkið höldum áfram á braut til mannréttinda og friðaróskar, öllum til heilla.

(Prestur innflytjenda, 9. júní 2006 Mbl.)

css.php