Ræða á málstofu Sigurðar Nordas Institute

Góðir áheyrendur, komið sæl og blessuð. Ég er frá Japan og er búinn að vera á Íslandi í 9 ár nú í vor.

Ég skil að  ástæaða þess að mér er boðið á þessa málstofu, þó að ég sé ekki neinn sérfræðingur um íslenskt tungumál, sé að sýna viðhorf til íslenskrar tungu út frá sjónarhorni manns, sem notar íslensku, en hún er ekki móðurmál hans. Þetta er auðvitað dæmigert fyrir innflytjendur hérlendis eins og mig sjálfan.

Fyrir ári síðan birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu um íslenska tungu og í henni benti ég á, að íslenskan sé orðin einskonar skurðgoð fyrir Íslendinga og að Íslendingar hlusti því ekki vel á hvað innflytjendur hafa að segja heldur aðeins á hvernig þeir að tala. Greinin fékk óvænt talsverð viðbrögð, bæði jákvæð og  neikvæð. Skoðun mín núna er enn þá sú sama og fram kemur í greininni, en í dag vil ég útskýra hana einu sinni enn og  bæta við nokkrum atriðum.

Áður en ég byrja að tala um meginatriðið langar mig til þess að ræða aðeins um tungumál almennt. Ég er prestur og guðfræðingur. Í guðfræði er það mjög mikilvægt að hafa góðan skilning á sambandinu milli tungumáls og þess sem tungumálið þýðir eða táknar. Að sjálfsögðu er tungumálið sjálft ekki það sama og það sem það túlkar. Hvaða tungumál sem er, er alltaf óhjákvæmliega bundið við tiltekið sögulegt og menningarlegt samhengi. Hins vegar getur það inntak og hugtök, sem tungmálið tjáir verið eitthvað óbreytt og óháð sögulegum eða menningarlegum takmörkunum.

Til þess að gera þetta atriði skýrt vil ég taka dæmi um Biblíuna. Er íslenska Bíblían hin heilaga Biblía sjálf eða þýðing Biblíunnar á íslensku? Sem skrifað orð á blöð, nefnilega sem söguleg bók, er hún þýðing frumtexta Biblíunnar. En þegar trúaður maður les Biblíuna sem bók sem færi honum óbreytanlegan sannleika, er hún hin heilaga Biblía sjálf, ekki aðeins þýðing sögulegrar bókar.
Því horfir maðurinn ekki eingöngu á tungmálið, heldur hlustar hann á þann boðskap sem kemur gegnum tungumálið. Kjarni Biblíunnar er þessi boðskapur, en ekki tungumálið sem ber hann til okkar.

Þannig getum við viðurkennt mikilvægi þess að aðgreina tungumál frá inntaki þess. En hér er annnað umhugsunarvert atriði. Tungumálið er eðlilega tengt við mælanda þess, sem sagt þann sem notar það. Tungumál er að sumu leyti huglægt, en t.d. íslenskan sem við heyrum og lesum á hverjum degi er mjög áþreifanleg og tengd við tiltekinn mann sem notar hana.  Hver segir hvað, hvar og hvenær er mjög áþreifanleg atriði. Þessi áþreifanlega íslenska er tjáning mælandans og við vitum hvað hann hugsar, skynjar eða vill með því að heyra eða lesa þessa tjáningu hans. Tjáning og orðalag sem einstaklingur notar, það er, hvernig hann talar og skrifar, þykir spegill hugsunar hans og meira að segja geta þessi atriði verið viðmið til að meta persónuleika og mannkosti hans. Að þessu leyti er tungumál ná tengt við menntun eða uppeldi þess sem talar.

Ef við lesum eitthvað sem er skrifað á blað með barnalegri orðanotkun, þá getum við giskað á að barn  hafi skrifað það. Ef einhver segir; “mig langar til að pakka niður öllum nýbúum frá Asíu og senda þá til baka”, mun okkur ekki aðeins finnast að þetta orðalag sé ljótt, heldur myndum við okkur líka skoðun um  mannkosti um þess sem talar, því að sú hugmynd sem hann tjáir er ljót. Hlutverk tungumáls sem viðmið til að meta mannkosti fólks eða persónuleika er að vissu leyti tengd við skynsemi okkar.

En fleira er umhugsunarvert. Í fyrsta lagi hvort þessi skynsemi, það er, að meta mannkosti  fólks eftir tungumálskunnáttu þess sé ótakmörkuð eða ekki?  Í öðru lagi, þegar maður leggur mikla áherslu á góða kunnáttu tungumáls eða á fallegt tungumál, getur það breytst í ofdýrkun á tungumálinu sjálfu. Það  tengist því að setja tungumálið í æðri stöðu en tillitssemi við manneskjuna. Í þessu liggur hætta á skurðgoðadýrkun í nútimasamfélagi.

Skurðgoðadýrkun felst ekki aðeins í því að dýrka styttur. Nútímaleg skilgreining á skurðgoðadýrkun er, samkvæmt dr. Paul Tilich, “það sem er raunverulega takmarkað þykir ótakmarkað. Það sem er aðeins hluti heildar er litið á sem heildina alla”.  Segjum við þetta með einfaldara orðalagi, þýðir það að skurðgoðadýrkun er að nota gildismat sitt þar sem það á ekki við. T.d. ef einstaklingar eru metnir eða dæmdir eftir ákveðnum viðmiðum sem samfélagið hefur gefið sér fyrirfram, þá er það ákveðin skurðgoðadýrkun. Að þessu leyti er nútímaleg skurðgoðadýrkun mjög svipuð og tengsl á milli staðalmynda og fordóma.

Nú dáist maður mikið að fallegri íslensku og telur að menntað fólk hljóti að tala góða íslensku, þá getur þetta verið staðalmynd um heiðursmann. Síðan ef hann metur og dæmir aðra manneskju með þessari staðalmynd, þá eru það fordómar, því að þessi staðalmynd gildir ekki um alla í þjóðfélaginu. Fólk sem á annað móðurmál en íslensku, fólk sem er á einhvern hátt  málhalt með lærdómsörðugleika eða fólk sem ekki hefur haft tækifæri til að mennta sig, uppfyllir ekki kröfu um fullkomna íslensku. Samt er virði manneskjunnar óbreytt.

Fyrir 9 árum þegar ég kom til landsins skildi ég ekkert á íslensku. Nú get ég nokkurn veginn bjargað mér á íslensku og ég fæ stundum tækifæri til að halda ræðu eins og í dag og er mér heiður af því. Hafa þá mannkostir minir breyst til hins betra? Ég held ekki. Ég er bara ég eins og fyrir 9 árum. Kannski er ég aðeins búinn að bæta við mig 9 ára lífsreynslu. Það breytir samt engu um mannkosti mína.

Maður sem talar fallega íslensku hlýtur að eiga skilið hrós. En það virkar ekki öfugt. Þó maður geti ekki tjáð sig almennilega á íslensku, verða mannkostir hans alls ekki verri. Mér sýnist þetta vera að algengur misskilningur í íslensku þjóðfélagi. Stolt og virðing fyrir fallegri íslenskri tungu hafa ómeðvitað breyst í fyrirlitningu og fordóma gagnvart þeim sem ekki hafa tileinkað sér góða íslensku eins og dæmigert er fyrir innflytjendur. Við þessu hef ég fengið mikil mótmæli. Margt fólk heldur að þessi fyrirlitning og fordómar sem ég er að benda á séu ekki til og að það sé sjálfsagt að innflytjendur læri íslensku. Til þess að halda þessari umræðu áfram vil ég benda á eftirfarandi tvö atriði.

Fyrsta atríðið varðar íslenskukennslu, ekki aðeins í skólakerfinu heldur líka almennt í hversdagslífi okkar. Þegar innflytjandi lærir íslensku er nauðsynlegt að fá aðstoð Íslendinga, t.d. kennara eða fólks í kringum hann.  Á þeim tíma kennir að sjálfsögðu Íslendingurinn innflytjandnum íslensku.

Engu að síður misskilur hann oft þetta hlutverk sitt eins og að hann þurfi að kenna viðkomandi allt um lífið og tilveruna, og lítur á innflytjandann sem lægra settan en hann sjálfan, jafnvel ómeðvitað. Í rauninni getur innflytjandinn verið meira menntaður eða með meiri reynslu að ýmsu leyti en íslenskukennari hans. Þarna kemur upp sá misskilningur að sá sem er með yfirburði á tungumálasviðinu hafi yfirburði á öllum sviðum.

Þess konar misskilningur getur átt sér stað víða í samfélaginu. Annað atriði langar mig að benda á. Tökum dæmi. Nú hefur frumvarp til laga um útlendinga verið lagt fyrir á Alþingi. Í því frumvarpi er kveðið á um að þátttaka á íslenskunamskeiði skuli vera skilyrði til að fá dvalarleyfi á Íslandi. Sem sagt verða allir útlendingar sem ætla að setjast að hér á landi að fara á íslenskunámskeið. Hvað ef viðkomandi er mjög gamall eða þarf að vinna mikið til að halda uppi fjölskyldu sinni? Eða ef hann hefur aldrei áður setið á skólabekk? Svona tillitisleysi sé ég sem raunverulegt form skurðgoðadýrkunar. Tungumálakunnátta er hér sett æðri lífskjörum manneskjunnar.

Einnig eru búin til neikvæð viðhorf gagnvert innflytjendum eins og að þeir þurfi að fá leiðbeiningu um hvernig þeir eigi að lífa lífi sínu hér frá A til Z. Varðandi þetta dæmi um að skylda innflytjendur til íslenskunáms, viðurkenna flest okkar mikilvægi þess að læra íslensku. Tungumálið er lykillinn að þjóðfélaginu. Engu að síður tala margir Íslendingar við okkur eins og að við viljum ekki  læra íslensku eða að okkur finnist það óþarfi.

Ef við segjum einhverja gagnrýni sem snertir íslensku tungu, byrja Íslendingar að kenna okkur um mikilvægi góðrar íslenskukunnáttu. En við vitum það jú manna best. Við erum þeir sem eigum í vandræðum vegna tungumálsins og töpum ýmsum tækifærum lífsins vegna þess. Okkur vantar hvorki predikanir né skyldur um íslenskunám, heldur praktískan stuðning til að bæta íslenskukunnáttu okkar.

Hins vegar bera viðhorf fólks, sem lítur á innflytjenudur eins og smábörn, vottum þrönga þjóðerniskennd og er byrjun á því að móta eins konar “ný fasíska tungumálastefnu”. Það má ekki ávarpa neytendur á erlendri tungu í augulýsingum. Það má ekki syngja á ensku í söngvakeppni. Svona nýumdeild mál í fjölmiðlunum líta út fyrir að vera eins og menningarverndarhugmynd, en í rauninni er hugmyndin sú að hafa stjórn á fólki með því að leggja áherslu á tungumálið.

Tungumálið er eitt af praktískum leiðum til að hafa stjórn á öðrum. Í Írlandi, Indlandi, Kina eða Koreu reyndu sigurvegarar í striðum alltaf að stjórna landinu sem þeir höfðu hertekið með því að stjórna tungu fólks þar. Tungumál er vopn. Mér skilst að hreintungustefna á Íslandi hafi mótast að miklu leyti í sjálfstæðihreyfingu landsins gagnvart dönskum stjórnvöldum. Ef það er svo, eiga Íslendingar að þekkja betur muninn á réttu og röngu um að stjórna öðrum með tungumáli.

Góðir áheyrendur, eins og ég sagði í upphafi, ætla ég sem prestur ekki að vanmeta hlutverk tungumálsins eða miklvægi þess í lífi fólks. Ég er ekki sammála þeirri hugmynd að tungan sé aðeins praktískt tæki til samskipta. Tungumál í bókamennutum eða trúabrögðum  þýðir mikið meira en tæki til samskipta manna. Einnig vanmet ég ekki virði íslenskrar tungu. Íslenskan er mikilvægur fjársjóður ykkar.

Málið er, að mínu mati, að við verðum samt að viðurkenna það að tungumál sé takmarkað bæði sögulega og menningarlega og þess vegna geti það aldrei verið óbreytilegt viðmið til að meta gildi lífsins eða mannkosti mannsins. Ef við gleymun þessu förum við að dýrka skurðgoð og það hindrar Ísland í að verða fjölmenningarlegt samfélag á jákvæðan hátt.

Að lokum vil ég nefna, að þó ég sé gagnrýninn á skurðgoðadýrkun íslenskrar tungu, er það ekki heildarhugmynd mín um Íslendinga.  Þegar ég reyni að tjá skoðun mína, veita íslenskir vinir mínir mér alltaf aðstoð við að leiðrétta íslensku mína. Ég viðurkenni það fúslega og þakka að allt sem ég geri hér á landi byggist á samstarfi við íslenskt fólk.

Kærir þakkir.

(Prestur innflytjenda;  17. mars 2001  í Þjóðarbókhlöðu)

css.php