Réttindi erlendra maka Íslendinga

Þorleifur Örn Arnarson skrifaði á dögunum opið bréf til Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, sem birtist á síðum Morgunblaðins, þar sem hann lýsir áhyggjum sínum vegna réttarstöðu erlendrar unnustu sinnar. Þar sem hún er yngri en 24 ára getur hún ekki, samkvæmt svokallaðri „24 ára reglu” í útlendingalögunum, fengið dvalarleyfi sem maki Íslendings.

Svar Björns Bjarnasonar við bréfi Þorleifs birtist í Morgunblaðinu þann 12. maí sl. Þar segir: „[hún] einfaldlega ekki dvalarleyfi „sem maki“, en getur eftir sem áður sótt um leyfi með venjulegum hætti. […] Vitaskuld yrði litið til hjúskapar útlendingsins við Íslending við meðferð umsóknarinnar.” Mig langar til dálitið að fjalla um þau atriði sem ráðherrann bendir á.

1. Hvað er „venjulegt” dvalarleyfi?

Fyrst og fremst vil ég benda á nokkur grundvallaratriði um útlendingalögin. Fyrir utan nánustu aðstandendur Íslendinga, flóttamenn eða stúdenta, fjalla lögin aðallega um „útlenska verkamenn”. Makar Íslendinga, flóttamenn og stúdentar eru eins konar undantekningar í lögunum og stundum hafa þeir forréttindi umfram áðurnefnda verkamenn, enda eru aðstæður þeirra aðrar en verkamannanna.

„Dvalarleyfi fyrir maka Íslendings” er þægilegra en venjulegt dvalarleyfi að mörgu leyti. T.d. fær maki Íslendings að starfa án sérstaks atvinnuleyfis. Hann getur skipt um vinnu eða hætt að vinna ef svo ber undir. Auk þess er hann með fullan aðgang að félagslegri þjónustu eins og t.d. barnabóta eða húsaleigubóta.

Nú á Íslendingur maka, sem er yngri en 24 ára, og sækir sá hinn sami um dvalarleyfi með „venjulegum hætti”, s.s. á eigin forsendum sem einstaklingur. Hvað þarf að vera fyrir hendi til að slíkt leyfi fáist?

Meginskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis eru þrjú: húsnæði, sjúkratrygging og framfærsla. Fyrri tvö atriðin eru ef til vill í lagi, en hvað um framfærslu? Hér verðum við að athuga að framfærsla þarf að vera „sjálfstæð” og að tekjur makans hafa engin áhrif á hana, jafnvel þótt um hjónaband sé að ræða. Hvaða áhrif hefur það? Skoðum málið samkvæmt lögunum ásamt núgildandi reglugerðunum.

Það þýðir annað hvort A) að viðkomandi útlendingur þarf að sýna fram á að hann hafi 78.000 kr. inni á bankareikningi sínum fyrir hvern mánuð sem hann vill vera á landinu. Ef hann ætlar að fá leyfi til eins árs, þarf tæp milljón króna að vera inni á reikningnum áður en leyfið er veitt. Eða B) að hann þarf að verða sér úti um starf hér á landi, fá starfsleyfi og sýna viðeigandi yfirvöldum undirritaðan starfssamning. Hér eru mörg atriði sem krefjast athugunar. Í fyrsta lagi er atvinnuleyfi bundið við tiltekið starf og er ekki hægt að skipta vinnu án þess að það falli úr gildi. Í öðru lagi er atvinnuleyfi aðeins veitt ef um fullt starf, en ekki hlutastarf, er að ræða. Í þriðja lagi þarf útlendingurinn að yfirgefa landið missi hann starfið, og í síðasta lagi getur hann ekki endurnýjað leyfið ef hann þiggur félagslega aðstoð eins og fjárhagsaðstoð frá sveitafélögum.

Það er augljóst að þessi skilyrði henta ekki öllum erlendum mökum Íslendinga. Hvað gerist verði útlensk eiginkona Íslendings ófrísk og getur því ekki haldið áfram vinnu? Hvað gerist ef maki á lítið barn og vill því aðeins vinna hlutastarf? Hvað gerist ef maki missir vinnuna? Sé erlendi makinn er öryrki eða veikur, og því ófær um að vinna, getur hann ekki einu sinni fengið leyfi til að flytjast hingað til að byrja með. Þetta hljómast að vera ósanngjarnt, en þetta eru afleiðingar þess að lögunum er aðallega ætlað að fjalla um erlenda verkamenn, en ekki aðra innflytjendur.

2. Nauðsynlegar breytingar í reglugerðum

Ég er á móti „24 ára reglunni”, en hún er orðin að lögum og því verður að fylgja henni. Þess í stað vil ég að gerðar séu nokkrar breytingar á núgildandi reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í lögum um útlendinga.

1) Tekjur hins íslenska maka eiga að vera taldar með þegar framfærsla útlendingsins er reiknuð.

2) Erlendir makar Íslendinga eiga að fá óbundin atvinnuleyfi í staðinn fyrir tímabundið leyfi.

3) Það að hafa þegið félagslega aðstoð á ekki að hafa nein áhrif á endurnýjun dvalarleyfis.

Ég tel breytingar þessar vera nauðsynlegar til að hægt sé að tryggja venjulegt hjónalíf á Íslandi. Verði reglugerðunum hins vegar breytt í þessa átt hefði það í raun sömu áhrif og ef „24 ára reglunni” hefði verið sleppt frá upphafi.

Dómsmálaráðherra endurtekur, í áðurnefndu bréfi, þá skoðun sína að mótmæli gegn „24 ára reglunni” byggist á misskilningi. Það má vera að ég hafi misskilið lögin og að útlendingar geti notið hjónalífs með íslenskum maka sínum eins og þeir hafa áður getað gert. Ef sú er raunin verð ég manna glaðastur og bið alla hlutaðeigandi afsökunar á andmælunum.

Ég mun hins vegar fylgjast með þróun mála af athygli.

(Prestur innflytjenda, 25. maí 2004 Mbl.)

css.php