Samkynhneigð og Biblíuleg trú

Biblíuleg trú og bókstafleg trú

Í kirkjunni heyrum við oft þá skoðun að Biblían banni samkynhneigð og þess vegna eigi kristnir menn að vera á móti samkynhneigð. Sumir álasa samkynhneigðu fólki og sakfella það sem syndara, og aðrir telja samkynhneigð andstæða Biblíulegri trú þótt þeir fallist ekki á að álasa fólki persónulega. Biblían er að sjálfsögðu grunnur fyrir trúaða til að halda í trú sína og skilaboð hennar eru tvímælalaust mikilvæg.

Hvað segir Biblían um samkynhneigð? Ég get ekki bent á alla hluta textans hér heldur vil aðeins taka þrjú grundvallardæmi. Fyrsti hlutinn er frá Heilagleikalögum í Gamla testamentinu:“Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.” (3. Móse. 18:22). Annar hluti er frá orðum Páls postula: “Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars …..og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar” (Róm. 1: 26 – 27). Þriðji hlutinn eru orð Jesús um karl og konu sem hann orðar í 1. Mósebók: “…skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu…..fyrir því skal maður … bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður”(Matt. 19:4-5).

Í stuttu máli sagt eru rökin eftirfarandi. Í fyrsta lagi á samlíf að vera á milli karlmanns og konu, því Guð ákvað að slíkt væri eðli mannsins.  Sagt er að þar af leiði að samkynhneigð sé á móti vilja Guðs, og í sjálfu sér lauslæti.  Í þessum rökum er einatt vísað til Biblíunnar og mér virðist sem margir telji þetta Bibíulega trú. Stundum eru slík viðhorf líka kölluð bókstafleg trú. Ég er hvorki sannfærður af þessum rökum né sammála að þetta megi kalla Biblíulega trú.

Biblían og skilaboð hennar

Trúarbrögð eru hluti af menningu mannanna og eru þess vegna bundin við tiltekna menningarheima og sögu.  Trúarbrögð eru gjarnan klædd í mismunandi búning til að viðhalda trúarlegum sannleika hvers tíma og samfélags. Með þessu er ég ekki að segja að sannleikurinn sé ekki sannleikur.  Ég er einfaldlega að segja að sannleikurinn verður að tengjast áþreifanlegum atburðum í sögunni og reynsluheimi okkar mannanna á hverjum tíma til þess að birtast okkur og vera okkur skiljanlegur. Biblían var ekki sköpuð í menningarlegu eða sögulegu tómi. Biblían er bunki margra bóka og hver þeirra var skrifuð á tilteknu menningarsvæði á tilteknum tíma. Þess vegna verðum við að endurtúlka texta hennar ef viljum leita sannleikans, og við verðum að forðast það að villast í túlkunum okkar vegna mismunar á stund og stað. Orðalag sem Páll postuli notar í texta Biblíunnar getur t.d. þýtt allt annað á hans tíma en við túlkum skv. okkar orðalagi árið 2002. Að þessu leyti tel ég að svokölluð “bókstafleg trú” sé ekki möguleg og í raun vanræksla á trúariðkun. Biblían inniheldur því aðeins sígild orð sannleikans ef við höldum áfram að hafa fyrir því að skilja hana og höfum til hliðsjónar þekkingu okkar á hverri öld og hverjum menningarheimi. Aðeins með þeim hætti getum við þróað kristna kenningu á sviðum sem Biblían talar ekki beinlínis um, eins og t.d. klónun eða umhverfismál jarðarinnar.  Aðeins þannig getum við talað um satt viðhorf biblíulegrar trúar. Við þurfum að taka ýmis mál Biblíunnar til endurskoðunar því að þau hafa greinilega aðra þýðingu í nútímanum en þau gerðu á sínum tíma. Málefni annarra trúarbragða er dæmi um slíkt og að mínu mati er sömu sögu að segja um málefni samkynhneigðra.  Biblíuleg trú er að hlusta eftur heildarskilaboðum Biblíunnar, en ekki að koma fram með örsmáa hluta hennar eftir eigin geðþótta.

Samkynhneigð og Biblían

Mig langar í þessu samhengi að líta stuttlega á tvær staðhæfingar:

A) samkynhneigð er á móti því mannlega “eðli” sem Guð hefur skapað
B) samkynhneigð er lauslæti.

Lítum fyrst á atriði B, en það er aðallega rökstutt með Heilagleikalögum í 3. Mósebók og orðum Páls postula. Varðandi Heilagleikalögin mun enginn neita því að þau grundvallast á tilteknum menningarheimi eins og ég hef orðað það hér að ofan. Ef maður notar viðkomandi setningar sem rök fyrir máli sínu verður maður að sýna fram á skilning á Heilagleikalögunum sjálfum (þ.á.m. á ítarlegum reglum um trúarlegar athafnir í gömlum Gyðingdóm).

Orð Páls eru einnig mjög bundin við hans eigin menningarheim. Flest okkar erum þegar búin að viðurkenna það hvað varðar álit hans á stöðu kvenna innan kirkjunnar. Mig langar til að benda á tvö atriði um orð Páls. Í fyrsta lagi ber að gæta þess að í viðkomandi hluta Biblíunnar gagnrýnir hann aðallega kynferðislegt lauslæti almennt frekar en samkynhneigð.  Í öðru lagi talar hann um tiltekið fólk sem hann hefur þekkt en ekki um siðferðilegar reglur almennt. Munið að orð hans eru úr einstökum bréfum hans þótt þau séu notuð í opinberum tilgangi innan kirkjunnar. Við getum ekki tekið orð hans úr samhengi. Álit mitt um atriði B er að það sé ekki hægt að fordæma samkynhneigð beinlínis með viðkomandi orðum Biblíunnar. Þar vantar rök til að aðgreina sígilt mat frá tilteknu menningargildi.

Atriði A er ef til vill flóknara því að það snertir viðhorf Biblíunnar til hjónabands, en það er líka mjög bundið við sérstakan menningarheim (sjá sögur í 1. Mósesbók. t.d.um Jakob, Rakel og Leu) og ekki auðvelt að fá skýra skilgreiningu. Hér bendi ég hins vegar á tvö atriði sem ég tel mikilvæg. Í fyrsta lagi: Hver er tilgangur hjónabands í samhengi við Guðs vilja? Hvað er að vera gagnkvæmur hjálpari hvort við annað? Verður fólk að vera karl og kona til þess að hjálpa maka sínum og elska? Í öðru lagi: Hvað er Biblíulegur skilningur á tengslum milli hluta persónuleika einstaklings og heildarpersónuleika hans? Er hægt að aðskilja tilfinningarlíf samkynhneigðrar manneskju frá manneskjunni í heild sinni? Ég þarf að bíða eftir öðru tækifæri til að rökstyðja þessi atriði.

Niðurstaða mín er hins vegar sú að við getum ekki fordæmt samkynhneigð og samkynhneigt fólk með beinum tilvitnunum í orð Biblíunnar eins og svokallað “bókstafstrúarfólk” heldur.

(Prestur innflytjenda, 19. júlí 2002 Mbl.)

css.php