Síbreytileg innflytjendamál

Erlendum verkamönnum hefur fjölgað mjög á Íslandi síðan 1. maí, en þá tóku gildi lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) fyrir ný aðildarríki. Þau 10-12 ár hef ég, sem prestur innflytjenda, haft góða yfirsýn yfir hvernig málum er háttað hér á landi og hvernig þróunin hefur verið. Hingað til hafa innflytjendur verið frá ólíkum svæðum í heiminum eins og t.d. frá Taílandi eða Filippseyjum. Þeir sem vildu greiða götu þeirra í íslensku samfélagi og unnu að því að bæta réttindi þeirra og aðgengi voru engu að síður að vinna í þágu allra innflytjenda. Baráttan fyrir löggjöfinni um að innflytjandi gæti fengið dvalarleyfi fyrir aðstandendur sína var réttarbót fyrir alla innflytjendur, jafnvel þótt hún hafi verið sett þegar innflytjendur hérlendis hafi verið flestir frá tveimur ofangreindum löndum, það var enginn undanskilinn.

Núna er staðan orðin allt önnur. Fólk sem hingað kemur, til þess að vinna eða búa, og er frá aðildarríkjum EES-samningsins njóta að mörgu leyti forréttinda. Fjöldi þeirra sem koma t.d. frá Póllandi og Litháen, er svo mikill að dregið hefur úr mikilvægum baráttumálum innflytjenda frá öðrum heimssvæðum, fólks hefur minni rétt. Fyrir EES-innflytjendur eru atvinnuréttindi, dvalarleyfi eða sameining fjölskyldu ekki á oddinum því þeir hafa nú þegar þessi réttindi. Þetta eru hins vegar atriði sem að skipta þá útlendinga sem koma frá löndum utan EES, til þess að vinna og búa, miklu máli. Eftir að lögum var breytt árið 2004 og þar sem dvalaleyfi er háð aldursmörkum hafa gert mörg mál enn erfiðari viðfangs, eins og sést í 24 ára reglu eða 66 ára reglu.

Málið er að ef eingöngu er horft á stöðu innflytjenda t.d. frá Póllandi, sem nú eru fjölmennastir, og lífskjör þeirra á Íslandi og aðeins reynt að bæta þau, þá sitja málefni innflytjenda utan EES á hakanum. Það þýðir með öðrum orðum að þeir sem vinna fyrir þennan hóp innflytjenda eru ekki endilega að vinna fyrir alla innflytjendur á Íslandi. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir þessu.

Þetta er að sjálfsögðu ekki Pólverjum eða öðrum EES útlendingum að kenna. En samt sem áður þá ber þessi hópur, sem meirihluti útlendinga á Íslandi, ákveðna ábyrgð. Þeir jafnt og aðrir verða að taka tillit til þess að í raun eru tvenns konar innflytjendur á Íslandi, þeir sem koma frá EES-löndum og þeir sem koma frá öðrum löndum. Staða og réttindi þessara útlendinga hér á landi eru ólík og því geta hagsmunamálin verið það líka.

En hvernig eigum við að bregðast við á þessum tímamótum? Mig langar til að koma með nokkrar ábendingar sem hægt væri að hafa sem leiðarljós.

a) Þegar við fjöllum um innflytjendamál verður að vera skýrt um hvaða fólk við erum að tala. Innflytjendur eru ekki einsleitur hópur og við verðum að vera meðvituð um að aðstæður og hagsmunir ólíkra hópa eru ekki endilega þeir sömu.

b) Oft heyrast orð eins og “málsvari” innflytjenda, en við þurfum að gefa gaum að því hvort um er að ræða málsvara allra innflytjenda eða aðeins hluta þeirra.

c) Það er óhjákvæmilegt að aðgreina innflytjendur sem ætla að dveljast hérlendis tímabundið starfs síns vegna frá þeim sem langar að setjast hér að. Það er mikilvægt að bjóða farandverkafólki á stutt réttindanámskeið, en jafnframt er brýnt að ákveðið aðlögunarkerfi sé í boði fyrir aðra innflytjendur. Mikilvægt er t.d. að leiðbeina fólki um ellilífeyrisréttindi sem verður án efa stórmál eftir nokkur ár. Málefni aldraðra innflytjenda er mál sem við verðum að byrja að vinna að núna strax.

d) Að skoða hagsmuni sérhvers innflytjendahóps er ekki það sama og að skipta innflytjendum í ótengda smáhópa. Innflytjendur eiga margt sameiginlegt eins og að þurfa íslenskunám, móðurmálskennslu og aðlögun að íslenska samfélaginu, óháð því hvaðan þeir koma.

e) Þegar um réttindamál innflytjenda er að ræða, þá þurfum við reyna að setja megináherslu á þann innflytjendahóp sem hefur minnst réttindi. A.m.k. verðum við alltaf að taka tillit til þessa hóps Annars eiga málefni innflytjenda á hættu að falla í þá pólitísku gryfju að vera minnihlutahópur sem skiptist í enn smærri minnihlutahópa sem berjast innbyrðis. .

f) Við skulum ekki gleyma því að skyndileg fjölgun erlendra verkmanna um þessar mundir veldur gríðarlegu vinnuálagi á þá sem veita útlendingum margvíslega þjónustu eins og Útlendingastofnun, Hagstofu Íslands og Alþjóðahús að ólgeymdum grunn- og framhaldsskólum. Við þurfum að skilja að þetta vinnuálag hefur áhrif ekki aðeins á nýkomna innflytjendur heldur alla þá sem þiggja þjónustu af þessum stofnunum. Ef íslenska ríkið er búið að ákveða að opna dyr fyrir EES borgurum, verður ríkið að vera tilbúið til þess að auka við og bæta þjónustuna sem til þarf svo hægt sé að taka á móti nýjum íbúum svo að þeir geti aðlagast samfélaginu og lagt til þess sem fyrst og best.

Ég vona að ofangreind atriði endurspeglist í innflytjendastefnu íslenskra stjórnvalda í náinni framtíð.

(Prestur innflytjenda, 9. nóvember 2006 Mbl.)

css.php