Um „sér“þjónustu kirkjunnar

Sr. Ingileif Malmberg, sjúkrahúsprestur, skrifaði ágæta grein um sérþjónustu kirkjunnar sem birtist í Morgunblaðinu 3. september sl. og einnig á Trú.is. Mig langar að bæta nokkrum línum við frá eigin brjósti mínu. Ég verð að takmarka mál mitt við sérþjónustu presta vegna takmarkaðs rýmisins en það þýðir alls ekki að mér finnist lítið til þjónustu djákna koma eða annarrar starfsemi kirkjunnar.

Á Íslandi starfa nú á vegum þjóðkirkjunnar 16 sérþjónustuprestar. Sumir starfa beint fyrir kirkjuna en aðrir eru ráðnir á stofnanir eins og á sjúkrahús eða elliheimili. Dæmi um þá sem eru ráðnir beint af þjóðkirkjunni eru t.d. prestur fanga, prestur heyrnarlausra, prestur fatlaðra, prestur innflytjenda og sjúkrahúsprestur á LSH.

Hvað er sérstakt?

Hvað þýðir „sérþjónusta“ presta? Hvað er „sér“ í þjónustunni? Mér skilst að orðið „sér“þjónusta hafi tvær merkingar hér á landi. Fyrsta merkingin er sú að sérþjónustuprestar annist aðallega kærleiksþjónustu. Yfirleitt og almennt þýðir það að prestar sjái um ýmiss konar þjónustu við fólk sem á í „sérstökum“ erfiðleikum eins og t.d. líknarþjónustu, þjónustu við fátæka, fanga og svo framvegis. Þjónusta af þessu tagi er kölluð „Diakonia“ á þýsku eða „diakoni“ á sænsku, sem þýðir að „þjóna“ en þetta orð er nátengt hugtaki um samfélagsvelferð í kristnum anda.

Mér virðist svolítið einkennilegt að Íslendingar skuli nota orðið „kærleiksþjónusta“ til að segja frá „Diakonia“. Að sjálfsögðu er öll þjónusta kirkjunnar kærleiksþjónusta og því er það ekki hægt að aðskilja ákveðna þjónustu frá almennri þjónustu kirkjunnar í nafni kærleiksþjónustu. Þetta hljómar eins og smáatriði en ef þjónusta við fátæka eða fanga er „sérstök“ kærleiksþjónusta“, þá gæti hún valdið óþarfa og óæskilegri aðgreiningu á þjónustu kirkjunnar. Þess vegna þurfum við að hugleiða þetta. „Diakonia“ er grunnþjónusta kirkjunnar og er alls ekki „sér“þjónusta í raun. Til þess að forðast misskilning: það er ekki rétt heldur að hugsa að „Diakonia“ sé þjónusta sem einungis djáknar veita. „Diakonia“ í þessu samhengi er mun stærra hugtak. ,,Diakonia” er einnig grunnþjónusta presta sem svokallaðir ,,sér”þjónustuprestar sinna því í meira mæli í samanburði við presta sem starfa í söfnuðum.

Önnur merking sem orðið „sér“þjónusta bendir til er sú að starfshættir sérþjónustupresta séu oftast öðruvísi en „venjulegra“ sóknarpresta. Það sem er sérstakt hér er ekki þjónustan sjálf heldur starfshættir prestsins. Víst eru starfshættir nokkurra sérþjónustupresta frábrugðnir hefðbundnum háttum sóknarpresta. Hin hefðbundna hugmynd um kirkjulíf er að grunneining hennar er sóknin og kirkjuhúsið hennar. Sóknin er landfræðilega ákveðin og hún er samtímis samfélag þeirra íbúa sem þar búa. Hefðbundið kirkjustarf byggist því í raun á landfræðilegum ramma.

Sérþjónustupresturinn hefur á hinn bóginn enga landfræðilega sókn, starfshættir hans byggjast fyrst og fremst á þörf viðtakanda þjónustunnar, án tillits til hvar hann er staddur. Það er því enginn landfræðileg aðgreining. Sérþjónustupresturinn þarf hins vegar að hafa góða þekkingu á málefnum þess fólk sem hann sinnir sérstaklega umfram kristilega þekkingu sína. Það er t.d. nauðsynlegt að kunna táknmál til þess að geta þjónað heyrnarlausu fólki. Þokkaleg þekking á sjúkdómum og læknismeðferðum er ómissandi til þess að þjóna á spítala. Það sama má segja um grunnþekkingu á meðal þeirra sem þjónusta fanga, innflytjendur eða fólk sem er þroskahamlað.

Sama grunnþjónusta kirkjunnar

Tilgangur sérþjónustu presta er hins vegar alveg sá sami og þjónusta presta í sóknum. Hann er að boða fagnaðarerindi Jesú Krists í orði og verki. Ég kýs þó persónulega að segja að tilgangurinn sé að þjóna fólki í kærleika Jesú á þeirri forsendu að allir eru Guðs börn. Munurinn á „sér“þjónustunni og hefðbundinni þjónustu snýst fyrst og fremst um hvernig prestur veitir fólki þjónustu sína.

Þannig er „sér“þjónusta presta raunar ekki sérstök í dýpri merkingu, heldur er hún grunnþjónusta eins og hefðbundin, kirkjuleg þjónusta. Mér þykir leitt að finna að sá misskilningur og sú vanþekking skuli enn vera til staðar innan kirkjunnar að „sér“þjónustuprestar brjóti gegn þeirri einingu kirkjunnar sem byggist á sóknum og myndi sérhóp. Það er ekki tilgangur „sér“þjónustupresta að mynda sérhóp innan kirkjunnar og aðskilja fólk frá sókninni sinni, heldur veita þeir þjónustu við ákveðnar aðstæður þegar brúa þarf bilið á milli þess sem fólk þarf af kirkjulegri þjónustu en kemst ekki í hefðbundnar messur eða getur ekki þegið þjónustu á sama hátt og aðrir í sókninni. Draumsýnin er sú að allir mætist í sama kirkjuhúsi og sömu messu. En stundum þurfa sumir að fara lengri leið áður en draumurinn rætist.

Það var til mikillar gæfu sem eftirfarandi orð komust í skýrslu nefndar um heildarskipan þjónustu kirkjunnar sem var lögð til kirkjuþings árið 2010, og kirkjuþingið samþykkti megináherslur hennar: „Sérþjónustuprestar séu ráðnir til að sinna grunnþjónustu kirkjunnar þar sem henni verði ekki sinnt með fullnægjandi hætti á vettvangi sókna“. Ég álít að þetta sé fagnaðarefni og stórt skref fyrir alla í kirkjunni og þjóðfélaginu. Við förum þessa leið.

(Prestur innflytjenda; Mbl. 28.september 2011)

css.php