Útlendingalög og hjúskaparréttindi

Ríkisstjórnin er búin að leggja fyrir Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um útlendinga. Því miður sýnist mér að nokkur atriði í því séu ekki nógu vel hugsuð og vekja ótta um réttindi fólks af erlendum uppruna. Ég vil útskýra málið stuttlega og vænti góðs skilnings landsmanna.

Hvað er málamyndarhjúskapur?

Eitt óljóst atriði laganna er ákvæði sem varðar málamyndarhjúskap og nauðungarhjúskap. Samkvæmt rökstuðningi frumvarpsins er málamyndahjúskapur hjónaband sem stofnað er til í þeim eina tilgangi að útlendingur fái dvalarleyfi á Íslandi með því að gifta sig Íslendingi eða einhverjum sem hefur dvalar- og atvinnuleyfi. Nokkur tilfelli virðast hafa komið upp á undanförnum árum þar sem grunur er um slíkt. Nauðungarhjúskapur er hins vegar hjónaband sem ekki er stofnað til með vilja beggja aðila hjónanna; hjónaband, þar sem í flestum tilvikum konur eru neyddar til að giftast. Í rökstuðningi segir að hópur innflytjenda í Danmörku (ekki á Íslandi) skipuleggi slíkan nauðgunarhjúskap til að koma fólki til landsins og oftast er dætrum þessara innflytjenda fórnað. Frumvarpið kveður á um að slík hjónabönd uppfylli ekki skilyrði til að fá dvalarleyfi.

Ég er prestur og ætla alls ekki að verja slíkar gerðir. Mér finnst það mjög eðlilgt að yfirvöldin reyni að bregðast við þessu fyrirbæri.

Lög sem eru ekki samræmi við mannréttindi

En eitt er að bregðast við málum og annað að setja ný lög. Yfirvöldin geta ekki sett ný lög án þess að gæta þess að þau séu í samræmi við önnur gildandi lög og grundvallar mannréttindi. Hvert er þá vandamálið?

Fyrst og fremst spyr ég, hvað er málamyndahjúskapur eða nauðungarhjúskapur lögfræðilega? Slík hugtök eru hvergi til staðar í núgildandi lögunum. Samkvæmt hjúskaparlögum er hjúskapur hjúskapur. Það eru ýmis skilyrði um hjúskaparstétt, en grundvallarreglan er sú að tveir einstaklingar geta stofnað hjúskap ef þeir vilja það. Jafnvel í „nauðungarhjónabandi” hlýtur að vera nauðsynlegt að fá samþykki beggja hjónaefna a.m.k. á yfirborðinu.

Þá er það spurningin um ásetning hjónaefna til hjúskapar, sem sagt, tilgang þeirra þegar um “málamyndahjúskap” er að ræða, og “alvöruvilja” þeirra þegar um “nauðungarhjúskap” er að ræða. Þessi ásetningur eða alvöruvilji til hjúskapar tilheyrir samt “óskrifuðum lögum” eða skynsemi okkar og hjúskaparlögin kveðja ekkert á um þessi atriði. Þessi staðreynd er alls ekki af tilviljun heldur er hún vegna þess að hér liggur einmitt lína sem aðskilur hvað tilheyrir samfélagslegri skyldu og hvað tilheyrir friðhelgi hvers einstaklings.

Aðalgalli frumvarpsins er sá að það skilgreinir ekki lögfræðilega hugtakið um “málamynda- eða nauðungarhjúskap”. Samtímis er gert ráð fyrir á grundvelli þessara hugtaka að hægt sé að synja um dvalarleyfi, gefa lögreglu heimild til rannsökunar og refsa fyrir brot.

Hér verð ég að segja að yfirvöldin eru komin yfir línu þá er greinir að samfélagslegra skyldu og friðhelgi einstaklinga án þess að hafa íhgað málið nægilega vel.

Dómur án dómstóls

Önnur athugasemd mín við frumvarpið er að það veitir lögreglu heimild til að rannsaka heimili innflytjenda þegar grunur er um “málamynda-eða nauðungarhjúskap”. Hér getur Útlendingastofnun krafist rannsóknar þegar hún er í vafa. En slík rannsókn er gríðarleg ógnun við friðhelgi einstaklinga og ég tel sjálfsagt mál að dómstóll kanni ástæðu gruns fyrst áður en húsleitarheimild er gefin. Við verðum að hafa í huga þá hættu sem fylgir því að framkvæmdaraðli sé líka dómari í lýðræðiskerfi.

Rökstuðningur frumvarpsins birtir enn frekari ágalla. Í honum eru taldar upp ábendingar um “grunsamlegt hjónaband” en þær eru t.d. mikill aldursmunur hjónanna, skortur á sameiginlegu tungmáli milli hjónanna, skortur á ítarlegri þekkkingu á lífi maka fyrir giftingu o.fl. Sem prestur innflytjenda þekki ég mörg pör sem falla á þessu prófi, en þau eru eigi að síður hjón eins og önnur. Mér finnst lagaframkvæmd sem fylgir þessum ábendingum vera ógnun fyrir mörg hjón sem sannarlega eru í “sönnum hjónaböndum”.

Lokaorð

Það eru fleiri atriði sem ég tel ekki vera fullnægjandi í frumvarpinu. Í stuttu máli sagt, er forvarnarhugsun farin langt á undan í frumvarpinu en lögfræðileg hugmynd fylgir ekki vel á eftir. Ég óska þess að stjórnvöldin muni draga frumvarpið til baka og velta málinu betur fyrir sér. Við útlendingar erum ekki á móti stjórnvöldum og óskum þess jafn heitt og Íslendingar að byggja hér upp betra og sanngjarnara samfélag.

(Prestur innflytjenda, 29. mars 2004 Mbl.)

css.php