Aðskilnaðarmál kirkjunnar og trúfrelsi

Varðandi umræðu um aðskilnað þjóðkirkjunnar frá ríkinu og trúfrelsi á Íslandi langar mig til að leggja orð í belg, þar sem viðkomandi mál snerta starf mitt sem prests innflytjenda.
Þetta málefni snertir bæði  trúmál, þjóðarmenningarmál, stjórnmál og réttindamál. Það er því vel skiljanlegt að fólk sjái málið frá mismunandi sjónarhóli og skoðanir séu skiptar. Mér sýnist að það séu a.m.k. þrjú mikilvæg atriði í málinu.
Þau eru: 1) trúarlegt gildi þess fyrir kirkjufólk að vera í þjóðkirkjunni, 2) trúfrelsi  og 3) fjár- og skattamál, en ég mun ekki fjalla um síðasta atriðið.

Trúarlegt gildi þjóðkirkjunnar

Ef við lítum fyrst á trúarlegt gildi þjóðkirkjunnar þá varðar það að sjálfsögðu aðallega fólk innan þjóðkirkjunnar. Mér finnst nokkurs misskilnings gæta frá upphafi umræðunnar varðandi þetta atriði. Ég varð kristinn í Japan og var vígður til prests þar. Ég ólst upp sem kristinn utan þjóðkirkjulegs menningarsvæðis. Því get ég fullyrt að hugtakið „þjóðkirkjan“ er alls ekki trúarleg hugmynd. Það hefur ekki trúarlegt gildi hvort kirkjan er þjóðkirkja eða ekki. Í kristni er kirkjan annaðhvort sönn kirkja Jesú Krists eða ekki. „Þjóðkirkjan“ er frekar stjórnsýslu- og menningarleg hugmynd í íslensku þjóðfélagi. Þetta er atriði sem við þjóðkirkjumenn þurfum að átta okkur á. Hér á ég þó ekki við að menningarlegt gildi þjóðkirkjunnar sé lítils virði.

Trúfrelsi á Íslandi

Ég er prestur á fullum launum innan þjóðkirkjunnar en grunnstefna starfs míns er að þjóna öllum án tillits til þess hvort sá sem leitar til mín sé kristinn eða ekki. Þetta er sama starfsstefna og hjá sjúkrahúsprestum. Aðalstarf mitt er ráðgjafaþjónusta og sálgæsla fyrir innflytjendur, en meira en helmingur þess fólks sem kemur til mín er ekki kristið. Ég hitti marga múslima, búddhista eða fólk sem ekki er trúrækið. Tilgangur þjónustu minnar er ekki að innræta skjólstæðingum mínum kristni, heldur að veita þeim aðstoð með virðingu fyrir lífsskoðun hvers og eins þeirra. Þar á ég einnig við að þeir geti rækt eigin trú. Í starfi mínu er trúfrelsi eða réttur til að iðka trú sína ( þ.á m. að trúa engu) áþreifanlegt mál, ekki aðeins hugmyndarfræði.

Mig langar til að vitna í nokkur dæmi um raunveruleika trúfrelsis. Fyrir nokkrum árum veitti ég aðstoð fjölskyldu sem missti ungt barn af slysförum. Fjölskyldan var búddistar og langaði að halda jarðarför á búddíska vísu. Ég leitaði að búddistamunki og bað hann um að sinna athöfninni. Þá kom í ljós að munkurinn skildi ekki íslensku og hafði heldur enga þekkingu á því hvernig bæri að framkvæma jarðarför í samræmi við íslensk lög. Því tók ég að mér hlutverk einkaritara hans, ákvað tímasetningar, pantaði leigubíl fyrir munkinn, útskýrði nauðsynleg lagaleg og praktísk atriði fyrir fjölskyldunni og fleira. Söfnuðurinn þar sem fjölskyldan bjó gerði líka mikið til að styðja hana.

Annað dæmi er jarðarför fyrir útlenska konu sem lést skyndilega. Barn hennar var eftir, aleitt í sorg og einangrun. Barnið bað mig um að sinna útförinni en ekki á kristinn hátt, þar sem hin látna var trúleysingi. Ég gerði það, þar sem ég taldi að með því gerði ég rétt í augum Guðs líka.

Þessi dæmi eru áþreifanlegur vitnisburður þess hvernig trúfrelsi rætist í raun. Trúfrelsi er ekki aðeins hugmyndafræði, það þarf að vera virkt í verki. Og að mínu mati er kirkjan enn best í stakk búin til að sinna þessu verki í raun, a.m.k. þangað til umhverfið fyrir trúfrelsi verður þróaðra.

Hins vegar viðurkennum við kirkjumenn að það geti komið til árekstra milli trúariðkunar fólks utan kirkjunnar og kristilegrar siðvenju, t.d. í skólum eða á spítölum.  Þess vegna hélt kærleiksþjónustusvið Biskupsstofu fjögur málþing sl. ár um mismunandi trúarbrögð og siði á Íslandi og hyggst halda því áfram. Ef mál koma upp þar sem árekstrar verða milli kristinnar trúar sem meirihluta og trúariðkunar minnihlutahópa verður að leggja í vinnu til að bæta stöðuna. En þessir árekstrar leysast ekki með því að gera þjóðkirkjuna bara eitt af trúfélögunum, þar sem hún verður áfram langstærst. Það gæti þvert á móti verið verra, því að kirkjan bæri þá enga sérábyrgð á að hafa frumkvæði að því að bæta stöðuna. Það væri ekki jákvætt fyrir trúfrelsi á Íslandi.

Lokaorð

Skoðun mín er sú að það sé ekki trúarlegt atriði hvort kirkjan sé þjóðkirkja eða ekki. Sem þjóðkirkja á hún samt meiri möguleika á að styðja við trúfrelsi á Íslandi. Ef of hratt er gengið í að framfylgja aðskilnaði kirkjunnar frá ríkinu getur það komið í veg fyrir framgang trúfrelsis. Að sjálfsögðu er það mikilvægt að halda áfram á málinu með tilliti til aukins trúfrelsis. Hins vegar er ég alveg á móti viðhorfi fólks sem talar um aðskilnaðarmál eingöngu út frá sjónarhóli fjár- og skattamála án þekkingar á raunveruleika trúfrelsis og heldur fram tálsýn sem þeirri að ef kirkjan verði aðskilin frá ríkinu, fylgi trúfrelsi sjálfkrafa.

(Prestur innflytjenda, 24. október 2003 Mbl.)

css.php