,,Ætti líf mitt ekki að vera öðruvísi?“

Hefur þú einhvern tíma hugsað þér eða óskað þess að þú gætir lifað lífi þínu upp á nýtt. Jafnvel ekki frá fæðingu, heldur frá ákveðnu tímabili, eins og frá því þú varst í framhaldsskóla, háskóla eða eitthvað slíkt?

Ég skoða reglulega fréttir þessa dagana frá japanskri kirkju, sem er móðurkirkjan mín, til þess að fræðast um starf hennar á hamfarasvæðunum eftir jarðskjálftann og flóðbylgjurnar. Það eru margir sjálfboðaliðar úr kirkjunni sem taka þátt í hjálparstarfinu þar og uppbyggingu og þarna sé ég fólk sem ég var með í prestaskóla.

Þegar ég uppgötvaði það, þá fór ég að hugsa með mér hvernig líf mitt myndi hafa verið ef ég hefði verið í Japan og þjónað í japönsku kirkjunni. Þá væri ég ef til vill einn þeirra sem nú eru á hamfarasvæðinu núna og helga sig  hjálpastarfinu? Ég veit ekki.
Hvernig myndi það líf mitt hafa orðið ef ég hefði ekki kynnst íslenskri konu og Ísland því ekki komið inn í líf mitt? Ég veit ekki.

Það sem ég veit er að ég giftist íslenskri konu og skömmu eftir að ég hafði hafið prestþjónustu í Japan, flutti ég til Íslands til þess að njóta fjölskyldulífs. Því miður skildum við hjónin fyrir um tíu árum og meginósk mín um farsælt fjölskyldulíf rættist því ekki. Í lífi mínu hérlendis hef ég farið í gegnum góða tíma og slæma, skemmtilega og erfiða. En aðeins nokkrum sinnum hefur mér dottið í hug þessi pæling: „Ef ég hefði farið aðra leið í lífi mínu, hvernig myndi allt hafa verið?“

Niðurstaða slíkra pælinga er alltaf sú sama. ,,Þótt Guð myndi gefa mér kost á að velja mér aðra leið í lífinu en ég farið, út frá ákveðnu tímbili, myndi ég kjósa þá sem ég hef farið og hef í rauninni alltaf gert.“  Aðalástæðan er sú að ég get ekki hugsað mér mitt líf án barnanna minna tveggja sem ég hef verið svo lánsamur að eignast. Þau eru ,,Hið góða“sem gerðist í mínu lífi. Þannig að, jafnvel þótt mér byðist einhver eftirsóknarverð leiðrétting á lífsferli mínum – ef slíkt væri hægt-, þá myndi ég afþakka það, nema það hefði engin áhrif á börnin mín.

Margir hafa upplifað mjög slæma reynslu í sínu lífi eða gert slæm mistök. Um þá þurfum við ef til vill að ræða sérstaklega. En fyrir utan að slíkt tilfelli er að ræða, hljóta flest okkar stundum að íhuga það sem ég ræddi hér að ofan, sem sagt: ,,Hvernig  myndi líf mitt hafa orðið ef ég hefði kosið aðra leið á þessum eða þessum tíma?“ Það þýðir ekki endilega að maður sé ósáttur við fortíð sína. Það getur verið jafnvel til gamans að ímynda sér slíkt og m.a.s. hjálpað til að staðfesta jákvæða hluti í lífi sínu.

Það er eðli okkar mannanna, að því er mér virðist, að við kvörtum oft yfir hversdagslífi okkar og krefjumst meira í stað þess að gleðjast yfir lífinu og þakka fyrir það. Og með tímanum förum við fram hjá náð Guðs í hversdagslífinu, vanþökkum hana ómeðvitað og  veltum fyrir okkur: ,, Ætti líf mitt ekki að vera öðruvísi?“

Þá prófum við að fara aftur til fortíðar og gera upp líf okkar einu sinni enn! Förum yfir eigin kosti og galla. Förum yfir tímamót í lífi okkar og hugsum um hvers konar ákvörðun við myndum hafa tekið og afleiðingar hennar.  Svona gerum við upp lífið, alltaf öðru hvoru.

Er árangurinn betri í ímyndum okkar á hinu nýja lífi? Í mínu tilfelli var svarið ,,nei“. En hvað um þig ?!

(Prestur innflytjenda; 27. maí 2011 Tru.is)

css.php