Athugasemd við auglýsingu frá Samvinnuhóp kristinna trúfélaga

Samvinnuhópur kristinna trúfélaga birti auglýsingu sem bar yfirskriftina,, Frjáls úr viðjum samkynhneigðar“ hér í Mbl. 12. ágúst sl. Í henni boðar hópurinn ,,fagnaðarerindi“ sitt um að menn geti “frelsast” frá eigin kynhneigð með hjálp Jesú Krists.

Í augum samvinnuhóps kristinna trúfélag virðist samkynhneigð teljast til samfélagsmeina eins og t.d. eiturlyfjaneyslu, klámvæðingar eða ofsa aksturs. Hin þrjú síðarnefndu teljast til vandamála því þau geta stofnað lífi manna og heilsu í hættu og vega að mannlegri reisn á einn eða annan hátt. Kynhneigð er aftur á móti ekki vandamál því hún er einkamál hvers og eins og skaðar ekki aðra heldur er aftur á móti ein grunnforsenda hamingjuríks lífs. Kynhneigð verður fyrst ,,vandamál“ þegar þröngsýnir hópar finna sig knúna til að vega að virðingu og mannfrelsi samkynhneigðra.

Mér er til efs að samvinnuhópur kristinna trúfélaga átti sig á því að hann er að tala um ástarsambönd annarra sem eru mjög persónulegt atriði og eitthvað það mikilvægasta í lífi hvers einstaklings. Auðvitað kemur trúin alltaf inn í einkalífið en virðing fyrir hverjum og einum er grunnatriði. Hvað fyndist okkur um auglýsingar um einkalíf okkar eins og: ,,Hættu að elska konuna þína því samband ykkar er ekki þóknanlegt Guði” eða “Biddu Jesú um lækningu því það er sjúkdómur að elska manninn þinn.”  Við myndum firrtast við og krefjast þess að fá að vera látin í friði.

Eflaust eru til margir samkynhneigðir sam fagna því að ,,frelsast” og ég virði þá ákvörðun líka. Ég get samt ekki komist hjá því óþægindum við tilhugsunina um að enn geti fólk ekki vandræðalaust- í sátt við sjálft sig- lifað eins og Guð skapaði það heldur finnur sig knúið af samfélaginu til að breytast á einhvern hátt.  Erum við ekki öll dýrmæt eins og við erum?  Guð hefur gefið okkur allt.  Fagnaðarerindi Jesú felst ekki í því að reyna breyta gjöf Guðs til okkar mannanna, heldur að finna gjöfina í okkur sjálfum og annast hana hvert og eitt.

Auglýsing samstarfshóps kristinna trúfélaga er ekki viðhorf til vandamáls, heldur skapar hún vandamál.  Ég get ekki bent á sérstaka  vefslóð þar sem hægt er að fá aðstoð til að ,,frelsast úr viðjum haturs á samkynhneigðum“, en vil mæla með því að fólk lesi Biblíuna með ,,öllu hjarta sínu, allri sálu sinni, öllum mæti sínum og öllum huga sínum“, í stað þess að klippa út hluta eftir hentugleikum og aðhyllast bókstafstrú (raunar ,,hlutatextatrú“). Biblían segir og gefur okkur allt sem við þurfum að en við verðum að muna að merkinguna er ekki bara að finna í textanum.

(Prestur innflytjenda, 17. ágúst 2006 Mbl.)

css.php