Biblían, guðfræði og staðreynd

Yfirleitt nota menn tvenns konar röksemdafærslu í daglegu lífi, afleiðslu(deduction) og aðleiðslu(induction). Afleiðsla er það nefnt þegar ný staðhæfing er leidd af öðrum staðhæfingum, sem maður veit að eru réttar(A=B, A=C, ergo B=C). Aðleiðsla er hins vegar rökfræðileg samsetning þar sem maður kemst að ályktuninni út frá fjölda staðreynda sem maður upplifir sem reynslu sína.

Báðar aðferðirnar, afleiðsla og aðleiðsla, eru nauðsynlegar í skynsamlegri rökfærslu og jafnréttháar, líka í guðfræði. Mér virðist að í þeim fræðum sé almenn tilhneiging almennings jafnt sem fræðimanna að reiða sig fremur á afleiðslu en aðleiðslu og jafnvel gleyma alveg síðarnefndu aðferðinni. Þetta á við t.d. þegar guðfræðingur vill sannreyna hvort ákveðið málefni, t.d. samkynhneigð, sé í samræmi við kristna trú og boðskap. Iðulega vísar hann í Bíblíutextann sem forsendu og þróar út frá honum röksemdarfærslu sína. Þetta er alls ekki röng aðferð í guðfræðinni en sum samfélagsmálefni, eins og t.d. samkynhneigð, eru þess eðlis að falla ekki vel inn í þennan rökfræðiramma.

Tökum annað dæmi. Segjum að guðfræðingur fari til Taílands í fyrsta skipti á ævinni og þar hitti hann á hverjum degi fjölmarga búddista. Af reynslu sinni dregur hann þessa ályktun: ,,Yfirleitt eru búddistar hógværir og elskulegir“. Síðan spyr hann spurningar eins og : ,,Hverjir eru búddistar í skilningi guðfræðinnar?“ Ályktunin er staðhæfing sem orðin er að staðreynd í huga guðfræðingsins í gegnum upplifun hans og reynslu. Þá staðhæfingu er ekki hægt að setja í neinn sérstakan bás út frá guðfræðilegum þankagangi um hvort að hún sé t.d. rétt eða röng. Guðfræðin getur reynt að skilgreina búddista út frá kenningum kristninnar en hún getur ekki hreyft við þessari staðhæfingu guðfræðingsins sem fór til Taílands og upplifði búddistana á þennan hátt. Guðfræðilegur skilningur á búddista getur aðeins þróast á skapandi hátt með því að viðurkenna reynslu eins og upplifun Taílandsfarans.

Umræðan um málefni samkynhneigðra, sérstaklega þessa daga um ,,hjónaband“ af sama kyni, er virk enn og aftur í kirkjunni. Umræðan virðist vera mjög góð og fróðleg og ég  ber virðingu fyrir henni. Engu að síður finnst mér hún dálítið festast í sömu hjólförunum og ekki komast upp úr þeim. Íslenskt samfélag veit að innan þess býr samkynhneigt fólk. Gagnkynhneigt fólk, sem er meirihlutinn, veit að samkynhneigt fólk er alveg eins og það, nema hvað varðar kynhneigðina. Þetta eru forréttindi okkar sem búum á Íslandi í dag að vita það. Þetta er alls ekki sjálfsagt mál, þar sem samkynhneigðir þurfa því miður enn að lifa í felum svo víða í heiminum.

Við vitum að það er enginn munur á draumum samkynhneigðra og gagnkynhneigðra – langflest viljum við eignast lífsförunaut og stofna hamingjusama fjölskyldu. Það er staðreynd, eins og að Esjan er fjallið nærri höfuðborgiini og búddistar eru milljónir. Á þá guðfræðin ekki að viðurkenna samkynhneigða, líf þeirra og vonir, drauma og þrár sem staðreynd, rétt eins og gagnkynhneigðra? Þetta er guðfræðileg aðleiðsla. Ef guðfræðingar nálgast málefni samkynhneigðra að mestu leyti með guðfræðilegri afleiðslu, þ.e. er rökfærslu með tilvísun í Biblíutextann, þá er erfitt að komast upp úr hjólförunum. Einfaldlega vegna þess að Biblían var færð í letur á öðru menningartímabili, þar sem stefnur og straumar, voru aðrir en nú og samkynhneigð ekki viðurkennd opinberlega og því eðlilega ekki skýrt frá henni.

Ef einhverjir geta ekki eða vilja ekki viðurkenna ofangreindar staðreyndir um samkynhneigt fólk, þá má segja að þeir nálgist málið fremur út frá eigin synsemi sem er bundin við ákveðna sið eða menningu fremur en út frá guðfræði.

Það er skoðun mín að við sem tilheyrum guðfræðisamfélaginu ættum að vera skýrari í umræðunni um málefni samkynhneigðra í íslensku þjóðkirkjunni, hvort hún sé guðfræðilegs eðlis eða menningar- og mannlegs.

(Prestur innflytjenda, 8. júní 2007 Mbl.)

css.php