Duldir fordómar, ,,Nei, takk !“

21. mars er alþjóðlegur dagur gegn rasisma. Kynþáttafordómar eru í hugum flestra fjarlægt fyrirbrigði sem jafnvel koma þeim ekki beinlínis við. En er það rétt? Í tilefni af þessu langar mig til að hugleiða um birtingu kynþáttafordóma á Íslandi.

,,Ólýsanleg óvirðing sem ég hingað til aldrei mætt,“sagði maðurinn og var miður sín þegar hann sagði mér frá leiðinlegri upplifun sinni. Hann er frá einu af nýjum aðildarlöndum Evrópusambandsins en atvikið sem hann var að vísa til átti sér stað þegar hann var að kaupa heimilistæki í verslun fyrir skömmu. Maðurinn upplifði að sá sem afgreiddi hann breytti hegðun sinni, áreiðanlega ómeðvitað og óviljandi, þegar hann uppgötvaði frá hvaða landi maðurinn var.

Fordómar birtast á ólíkan hátt, sumir eru mjög sýnilegir aðrir eru duldir en það voru slíkir fordómar sem manninum fannst hann verða fyrir. Þeir síðarnefndu geta birst í afskiptaleysi, eins og að heilsa ekki fólki, í því að veita verri þjónustu en eðlilegt getur talist eða að tala niður til fólks eins og það sé lítið barn. Andúð og óvirðing eru með þessum athöfnum tjáð á óbeinan hátt í stað þess að tjá þær með orðum. Duldir fordómar eru sennilega algengasta birtingaform fordóma í samfélaginu.

Það er erfiðara að tala um og benda á dulda fordóma gagnvart útlendingum en útlendingahatur sem birtist í ræðu og riti og því er erfiðara að ráðast gegn því og uppræta það. Hinar duldu birtingamyndir fordómanna eru eins og orðið felur í sér ekki eins sýnilegar og t.d. hið skrifaða orð eða myndir. En fyrir fólkið sem verður fyrir hinum duldu birtingamyndum eru þeir alveg jafnraunverulegir. Það finnur fyrir þeim fordómum og þess vegna verðum við að ræða þá og mig langar til þess að sem flestir velti þessum málum fyrir sér og bæti líf þannig líf allra.

Í fyrsta lagi þarf fólk að hafa í huga að viðhorf þess kann að endurspeglast í framkomu þess og duldir fordómar þannig bitna á öðrum án þess að það hafi verið ætlunin. Þess vegna er mikilvægt að takast á við fordóma og endurskoða viðhorf sín.

Í öðru lagi þá eiga útlendingar stundum í erfiðleikum með að skilgreina hvort að um fordóma hafi verið að ræða í framkomu eða aðeins misskilning. Tökum dæmi til þess að útskýra það betur.

Einu sinni keypti ég frekar dýran grip í vel metinni verslun. Eftir að hafa tekið við kreditkortinu mínu og rennt því í gegnum posann henti sölumaðurinn hreinlega kreditkortinu í mig aftur. Mér var vissulega brugðið en það var samt sem áður ekki sjálfgefið að þessi framkoma væri vegna þess að ég væri af asísku bergi brotinn. Það gátu a.m.k. fjórar ástæður legið að baki hegðun hans 1: Sölumaðurinn hefur það fyrir venju að henda kreditkortinu í viðskiptavini sína 2: Sölumaðurinn var af einskærri tilviljun í vondu skapi þegar ég kom í búðina 3: Sölumaðurinn kunni ekki við mig persónulega. 4: Sölumaðurinn er með fordóma gagnvart útlendingum almennt.

Ein leið til þess að fá sannleikann fram í dagsljósið væri að spyrja viðkomandi hvers vegna hann hefði hent kortinu í mig í stað þess að rétta mér það kurteislega. En dónaleg framkoma kemur okkur yfirleitt á óvart og því bregðumst við ekki alltaf skynsamlega við en sitjum eftir með spurningar. Það hljómar líka eins og stríðsyfirlýsing að spyrja einhvern beint út: ,,Hefurðu fordóma gagnvart mér?” Besta lausnin er sennilega að hver og einn líti í eigin barm.

Í þriðja lagi þá fá útlendingar sem tala um fordóma sem þeim finnst þeir mæta of oft eftirfarandi viðbrögð: ,, Þetta er ekki fordómar. Þú ert allt of viðkvæmur.“ Margir upplifa það þá eins og þeir sé vænisjúkur. Ég ætla ekki að segja að það gerist alltaf en ég get sagt að það gerist oftar en bara stundum.

En hvað er þá málið? Er ekkert berjast gegn duldum fordómum ? Jú, að sjálfsögðu getum við (bæði innfæddir Íslendingar og aðfluttir) gert ýmislegt, einkum með því að vera meðvituð um fordóma almennt í samfélaginu. Eftirfarandi atriði eru til umhugsunar.

  • Samfélagið á að hvetja þolendur fordóma til þess að tala um fordóma. Það er hagsmunamál fyrir þolendur alvarlegra og djúpra fordóma sem skerða lífsgæði þeirra verulega og um leið samfélagsins í heild.
  • Fólk verður að hafa svigrúm til þess að tala um upplifun sína og tilvik sem því finnst geta flokkast sem fordómafull án þess að vera krafið um beina sönnun á því.
  • Það er mikilvægt að hlusta á þá sem segjast hafa orðið fyrir fordómum, skoða og viðurkennum fordóma sína því öll höfum við einhverja, endurskoða viðhorf sín og gæta að framkomu sinni og viðbrögðum dags daglega.

Fordómar koma þolenda iðulega á óvart. Að mæta fordómum kemur flestum í uppnám og bregða skugga á jákvæðar tilfinningar. Það á enginn að þurfa að þegja um og þola fordóma. Nú hafa komið til landsins fjölmargir útlendingar, sumir ætla aðeins að vera hér í skamman tíma aðrir lengri. Þeir hafa tungumálið ekki jafnvel á valdi sínu og innfæddir og eru berskjaldaðri en margir fyrir duldum fordómum. Ég hvet þess vegna Íslendinga alla til þess að taka höndum saman og hafna duldum fordómum: Nei, takk!

(Prestur innflytjenda, 21. mars 2007 Mbl.)

css.php