Eru múslímar verra fólk en kristið?

Þann 25. ágúst birtist svargrein Skúla Skúlason  í Mbl. við athugasemd sem Sara Kristín Finnbogadóttir gerði við grein sem Skúla skrifaði áður undir yfirskriftinni  ,,Þjóðamorð í Líbanon?“. Í svargreininni ítrekar Skúli neikvætt álit sitt á íslam og múslimum almennt. Eftirfarandi eru mínar athugasemdir.

1. „Í Kóraninum eru 123 vers sem fjalla einmitt um að drepa og herja á annað fólk“ segir Skúli. Ég er ekki búinn að telja þau en þau eru mörg versin í gamla testamentinu sem fjalla um dauða Egypta eða fólks sem var á móti gyðingum.Bíblían er hin heilaga bók þjóðkirkju Íslendinga en við kjósum ekki að túlka hana þannig að kristin trúarbrögð hvetji til manndrápa. Er slík ofureinföldun sanngjörn þegar íslam á í hlut?

2. Höfundurinn segir um Hizbollah eða Talibana: ,,mér vitanlega fylgja nefndir hópar nákvæmlega fyrirmyndunum í Kóraninum og lífi og atferli Múhameðs.“ Kannski telur hann það. En hvað aðra múslíma sem eru yfir þúsund milljónir í heiminum?  Höfundurinn staðfestir í rauninni lítið annað en sína eigin fordóma og veltir aðeins fyrir sér ýktustu birtingarmyndunum í trúarbrögðunum.

3. Höfundurinn telur upp fjölda hryðjaverka eða tilraunir til þeirra  síðan í  september 2001 og kemst að niðurstöðu: ,,Serkir drepa fólk út um allan heim …. þar sem saklaust fólk á sér einskis ills von og hrópa svo: ,,Allah er mikill“. Höfundurinn virðist setja Serki, múslima og hryðjaverkamenn í sama flokk. Þeir eru óvinir Vestur- Evrópu/Bandaríkjanna og íslam er trúarbrögð óvinanna.

Mig langar til að benda á sögulegt atriði. Lúterskir prestar blessuðu kjarnorkusprengjuna, sem sprakk yfir Hirosíma árið 1945 og drap 100 þúsund borgarbúa. Er þá sanngjarnt af mér að segja að allir lúterskir menn séu morðingjar og drepi saklausa borgara? Auðvitað ekki. Af hverju ekki? Sumir munu segja, af því að ,,Hirosíma“ gerðist í stríði. Ég ætla ekki að kafa dýpra í þetta mál hér, en staðreyndin er sú að nokkrir múslímar, ekki allir, telja sig að vera í stríði núna. Þess vegna gera þessir fáu tilraunir hryðjuverka, en ekki aðeins af trúarlegum ástæðum eða þjónustu við íslam.

4. Að alhæfa á grófan hátt um manneskjur er ekkert annað er vanvirðing við mennskuna. Höfundur ætti velta því fyrir sér að hryðjaverkamenn nota sömu orðræðu og hann sjálfur um múslima, t.d  ,,Bandaríkin eru djöflaríki“ og gera það sem þeim kann að þykja nauðsynlegt til þess að verja sig. Sara Kristín reyndi að sýna að múslímar eru líka fólk og við getum ekki ætlast til að þeir beri virðingu fyrir okkur ef við berum ekki virðingu fyrir þeim.

Að lokum langar mig til að spyrja ritstjórn Morgunblaðsins spurningar. Ég met tjáningarfrelsi mikils. En ég velti því fyrir mér hvort grein af þessu tagi, sem er ekkert annað en tilraun til að vekja hatur á ákveðnum hópi manneskja og andúð á grundvelli þjóðernis, trúarbrögða og menningar, eigi skilið að birtast í blaðinu. Má maður skrifa hvað sem er og senda inn? Er Mogginn skyldugur að taka á móti öllum greinum? Hver er síðferðislegi mælikvarðinn?

(Prestur innflytjenda, 2. september 2006 Mbl.)

css.php