Faglegt samstarf í málum innflytjenda

Þegar bæta á aðstæður ákveðinna hópa í samfélaginu er jafnan lögð áhersla á mikilvægi samstarfs hagsmunaaðila og opinberra stofnanna. Þetta á ekki hvað síst við í málum sem varða innflytjendur á Íslandi. Það er eftirsóknarvert og afar mikilvægt að aðilar sem koma að málefnum innflytjenda skiptist á upplýsingum og fræði hver annan á faglegan hátt. Fyrir rúmum 10 árum var óformlegur samstarfshópur um innflytjendamál settur á fót með það að markmiði að auka samskipti og samvinnu. Framan af var hópurinn m.a. skipaður fulltrúum Reykjavíkurborgar og Leikskóla Reykjavíkur, fulltrúa Félagsþjónustu- eða Miðstöðvar nýbúa (sem varð Alþjóðahús árið2001) en síðar bættust Félagsmálaráðuneyti, Landlæknisembættið og Útlendingastofnun við, ásamt fleirum. Starf hópsins er af hinu góða og hann á hrós skilið.

Mig langar þó líka að benda á að samstarf birtist í mörgum myndum; í samstarfi felst einnig að geta rætt vandamál og bera virðingu fyrir starfsstöðu og sjónarmiðum allra aðila. Þegar um réttindi fólks er að ræða, t.d. réttindi erlendra kvenna sem mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum síðustu daga, þá er eðlilegt að menn skipist í sveitir, sem gróflega má deila í verndara og ,,ákærendur”. Þetta þarf ekki að vera slæmt í sjálfu sér –ólík sjónarmið er alls staðar að finna og opin umræða um samfélag og stjórnsýslu er einkenni virks lýðræðis. Sjónarmið hins opinbera – ,,ákærandans” er ekki alltaf neikvætt en stjórnvöld eru oft gagnrýnd sem er óhjákvæmilegt og eðli máls samkvæmt.

Skoðanaskipti og opin umræða eru nauðsynleg tæki til að komast að kjarna málsins og finna bestu lausnirnar. Raunverulegt faglegt samstarf byggir á hreinskilnum samskiptum en því miður finnst mér það stundum brenna við að opinberar stofnanir virðast taka gagnrýni sem persónulegri móðgun og draga úr samstarfi við gagnrýnisraddir, í stað þess að auka það til að finna raunhæfar lausnir á vandamálunum. Hið opinbera verður að geta tekið gagnrýni og notað hana til að bæta þjónustu sína. Ef samstarfsaðilar hika við að vekja máls á því sem má bæta í opinberri þjónustu vegna þess að þeir óttast að missa samvinnuflöt við hið opinbera þá er ekki um raunverulegt samstarf að ræða, heldur eins konar vinakerfi. Í innflytjendamálum eru það ekki bara útlendingarnir sem tapa þegar samstarfið er einungis á yfirborðinu, heldur samfélagið allt.

Ég ætla ekki að benda á neinar ákveðnar aðila í þessu samhengi en vil minna starfsmenn opinberra stofnana á að hlutverk þeirra er þjónusta við borgarana og þar með talið að taka við málefnalegri gagnrýni og vinna að úrbótum á grundvelli hennar. Þetta á við um okkur öll sem vinnum að samfélagsmálum.

Hvað varðar málefni erlendra kvenna varðar eru Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun mikið í umræðunni en ég trúi að stofnanirnar bregðist við á faglegan, sanngjarnan og mannúðlegan hátt.

(Prestur innflytjenda, 31. ágúst 2006 FrB.)

css.php