Gagnrýni og skapandi andi

Ég undirritaður vil gera athugasemd stuttlega við grein eftir Albert Jensen, sem birtist 6. mars sl. hér í Fréttabalðið.

Hlutverk gagnrýnandans er mjög mikilvægt. Stjórnskipulag íslensku þjóðarinnar, lýðræðið, viðurkennir tilvist ólíkra skoðana, sem er mjög mikilvægt. Mér finnst gagnrýni í eðli sínu vera jákvætt fyrirbrigði, hvort heldur er að gagnrýna eða að verða fyrir gagnrýni.

Flest höfum við einhvern tímann lært að ,,gagnrýni er ekki það sama og að skíta einhvern út“. Gagnrýni á að vera málefnaleg og það er mikilvægt að skilja á milli persónu og hegðunar hennar. Ef ég myndi t.d. telja eitthvað gagnrýnisvert í frumvarpi sem lægi fyrir á Alþingi þá myndi ég átelja efnislega þætti þess en ekki þann eða þá sem sömdu og lögðu frumvarpið fram, hvort sem það eru stjórnmálamenn eða flokkar.

Stundum er þó óhjákvæmilegt að tengja gagnrýni á einstök mál eða skoðanir við einstaklinga eða stofnun sem þeir kunna að starfa hjá. Sjálfur reyni ég að forðast að gagnrýna persónulega einstaklinga en ef ég tel að það sé nauðsynlegt þá reyni ég að fylgja eftirfarandi reglum:

a) Að gagnrýna aðeins fólk eða stofnanir sem getur svarað fyrir sig, þ.e. gagnrýninni, eins og stjórnmálamenn, opinbera stofnun eða ritstjórn dagblaða.

b) Að nota ekki neikvæð og gildishlaðin orð yfir fólk eins og “rasisti”, því það þjónar engum tilgangi í gagnrýni að stimpla fólk og útiloka samræðu.

c) Að bera virðingu fyrir viðkomandi manneskju í tjáningu og orðavali, sérstaklega ef gagnrýnin er persónuleg.

Ég er kristinnar trúar og ég tel, eins og allir sem eru með góða samvisku, að við eigum að bera virðingu hvort fyrir öðru. Það að láta ljót orð falla um einhvern getur kannski veitt þeim sem mælir persónulega útrás en það er ekki virðingarvert að láta sér slík um munn fara og að mínu mati flokkast það ekki undir gagnrýni. Sá sem gagnrýnin beinist að er nefnilega líka manneskja sem ber að virða og við eigum að geta gagnrýnt án þess að særa viðkomandi. Hann á líka aðstandendur, eins og t.d. börn, sem geta líka orðið miður sín undan ljótum ummælum.

“Gott lyf er beiskt í munni” er málsháttur í Japan. Það finnst fáum skemmtilegt að fá á sig gagnrýni, og skiptir þá engu hvort viðkomandi þurfi að taka gagnrýnina persónulega nærri sér eða ekki. Viðkomandi verður að viðurkenna að ummælandinn hefur rétt á að gagnrýna hann en við þurfum öll að aga okkur jafnt í að fá gagnrýni og í að gagnrýna.

Manneskjur eru ekki fullkomnar og þær geta stundum misst stjórn á sér og notaði óviðeigandi og óviðunandi orðalag í umræðum. Það er mannlegt og hefur komið fyrir sjálfan mig, oftar en einu sinni og bað viðkomandi afsökunar. Nýjasta tölvutækni og fjarskipti auðveldar samskipti og samræður en hún gerir líka til okkar kröfur, sömu kröfur og áður í samræðum og ritmáli. Við verðum að ígrunda það sem við segjum og skrifum og líka hvernig við segjum það.

Gagnrýni er lykill að lifandi lýðræði og við verðum að gæta að henni því gagnrýni í góðum anda verndar mannvirði og siðferði í samfélaginu.

(Prestur innflytjenda, 9. mars 2006 FrB.)

css.php