Gefið mér þann rétt að mega kjósa!

Alþingiskosningar nálgast og barátta stjórnmálaflokka fyrir þær er orðin mjög heit. Ég var búinn að vera á Íslandi í 21 ár núna í apríl, en ég get ekki tekið þátt í þessum kosningum. Af hverju? Af því að ég er ekki Íslendingur.

Þegar um sveitastjórnarkosningar er að ræða, þá getur útlendingur tekið þátt í kosningum ef hann er 18 ára eða eldri og hefur haft lögheimili á Íslandi stöðugt í fimm ár (3 ár fyrir norrænt fólk). En því miður gildir þetta hvorki um alþingiskosningar né þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þessi stefna sem veitir ekki erlendum ríkisborgurum kosningarétt í ríkismálum er alls ekki án ástæðu. Rökin eru m.a. sú að þátttaka útlendinga í kosningum í ríkismálum geti haft slæm áhrif á utanríkisstefnu Íslands.

En hver sem ástæðan er, er það staðreynd að margir ,,nýir Íslendingar”, sem hafa öðlast ríkisborgararétt á Íslandi, geta varðveitt ríkisborgararétt heimalandsins, ef heimaland viðkomandi viðurkennir fleira en eitt ríkisfang. Sem sagt eru þeir Íslendingar og jafnframt útlendingar.

Ástæða þess að ég er ekki með íslenskan ríkisborgararétt, eftir 20 ára dvöl hér, er sú að heimaland mitt, Japan, viðurkennir ekki tvö- eða margföld ríkisföng. Ef ég fæ ríkisborgararétt hér, verð ég að afsala mér japönsku ríkifangi, en aðstæður mínar leyfa það ekki því að ég á aldraða foreldra í Japan.

Það verður algengara í Evrópu og í Ameríku að viðurkenna fleiri en eitt ríkisfang, en mörg lönd í Asíu eins og t.d. Kína, Suður-Kóreu auk Japans og löndum Afríku halda í stefnu sem hafnar viðurkenningu margfaldra ríkisfanga.

Ég hef aldrei kvartað yfir því hingað til að geta ekki tekið þátt í alþingiskosningum eða þjóðaratkvæðagreiðslum, þar sem ég hélt að ástæðurnar lægju í Japan en ekki Íslandi. Samt hefur mér fundist leitt að geta ekki kosið alþingismenn og tjáð viðhorf mitt til Icesave eða stjórnarskrártillagna. Slík mál eru alls ekki utan áhuga míns.

Réttur til að kjósa a.m.k.!

Ég hef nú skipt um skoðun, þó að ég telji enn þessi óþægindi vera vegna stefnu Japans og ætla ekki að sakast við íslensk stjórnvöld. Ég vil hinsvegar hvetja stjórnvöld til að endurskoða og bæta réttindi erlendra ríkisborgara sem búsettir eru hér.

Ég greiði skatta eins og aðrir og tek þátt í þjóðlífinu eins og aðrir. Hver er munurinn á milli mín og ,,nýrra Íslendinga” sem eru með fleira en eitt ríkisfang? Er ég hættulegri íslensku þjóðinni en þeir? Er það slæm hugmynd að veita erlendum ríkisborgara sem uppfyllir skilyrði fyrir umsókn um íslenskan ríkisborgararétt, fullan rétt til allra kosninga (a.m.k. rétt til að kjósa, sé réttur til framboðs erfitt) og þjóðaratkvæðagreiðslna, þó að hann sæki ekki um ríkisborgararétt?

Ég hef engar tölulegar upplýsingar um hve margir erlendir ríkisborgarar eru í sömu stöðu og ég varðandi þetta mál. En samt vona ég að þetta verði tekið til umræðu einhvern tíma á næstunni og kannað verði um fjölda útlendinga á Íslandi sem geta ekki sótt um ríkisborgararétt vegna ástæðna í heimalandi sínu.

(Prestur innflytjenda, Toshiki.blog.is 19.apr. 2013)

css.php