Gegn fordómum – sameiginlegt verkefni fyrir okkur öll

Kynþáttafordómar á Íslandi eru mikið í umræðunni þessa daga. Orðið„kynþáttafordómar“ er í raun skrítið hugtak þar sem við mannkynið erum sama kyns sem Homo sapiens. Orðið kynþáttafordómar er notað í víðtækri merkingu, sem sé„fordómar vegna litarháttar, þjóðernis eða einhvers framandi einkennis sem maður ber með sér“.

Ég vil stuttlega taka þátt í umræðunni og benda á nokkra punkta sem ég tel nauðsynlega og mikilvæga til að berjast gegn kynþáttafordómum. Þessir punktar eru aðallega fyrir Íslendinga en gilda að sjálfsögðu líka fyrir innflytjendur.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að við hlustum á þolendur. Stundum skilja gerendur ekki hversu mikið þeir særa fólk með því að gera grín að innflytjendum, með aðkasti eða dónaskap. Það er algengur misskilningur að innflytjendum sé sama um þá fordóma sem þeir mæta.

Í öðru lagi líkjast kynþáttafordómar kynferðislegri áreitni að því leiti að erfitt er að sanna að útlenskur maður hafi mætt kynþáttafordómum. Þegar einhver segist hafa mætt slíkum fordómum er mikilvægt að hlustað sé á hann eða hana og tekið sé mark á þeirri upplifun. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir fólk sem gegnir ráðgjafastöðum, kennara, félagsráðsgjafa, trúnaðarmenn og presta.

Í þriðja lagi hindra órökstuddar alhæfingar heilbrigða umræðu. Þegar kynþáttafordómar eru ræddir heyrast alltaf raddir sem spyrja„erum við Íslendingar rasistar?“ Flestir hugsa ekki í slíkum alhæfingum og þær leiða af sér alhæfingar af öðru tagi á borð við„allir innflytjendur frá Svartahafi eru glæpamenn“ og„allir asíubúar gifta sig til að fá dvalarleyfi“. Slíkar alhæfingar bera með sér fordóma og hindra samtímis umræðu sem þarf að eiga sér stað.

Í fjórða lagi er fræðsla um fordóma nauðsynleg öllum aldurshópum, frá leikskólabarna til fullorðins fólks.

Að lokum er mikilvægt fyrir okkur sem erum innflytjendur að þegja ekki þegar við mætum kynþáttafordómum. Við þurfum að segja frá. Það er oftast erfitt að segja frá slæmri reynslu en það er staðreynd að ef þolendur þegja, mun enginn þekkja fordómana. Baráttan gegn kynþáttafordómum er sameiginlegt verkefni Íslendinga og innflytjenda.

(Prestur innflytjenda; 21.september 2010 Smugan)

 

css.php