Hjúskaparréttindi Íslendinga

Frumvarp um breytingar á lögum um útlendinga sem lagt hefur verið fyrir Alþingi af stjórnvöldum hefur vakið talsverðar umræður. Sem prestur innflytjenda tek ég þátt í þessum umræðum, og ég tel nokkur atriði í frumvarpinu skerða réttindi manna á alvarlegan hátt. “Réttindi manna” í þessu samhengi þýðir ekki aðeins réttindi útlendinga, heldur einnig réttindi Íslendinga. Frumvarpið leggur t.d. til að setja aldurstakmörk á maka Íslendinga eða útlendinga sem eru búsettir hér með dvalarleyfi, og gerir fólki þannig erfiðara fyrir að fá dvalarleyfi sem ”nánasti aðstandandi” íslenskra borgaraMaki, sambúðarmaki eða samvistarmaki sem er yngri en 24 ára, getur ekki lengur fengið dvalarleyfi á þeirri forsendu að vera nánasti aðstandandi Íslendinga eða útlendings með dvalarleyfi. Þetta þýðir að ef íslenskur strákur giftist 22 ára erlendri stelpu þá geta þau t.d. ekki búið saman á Íslandi, nema ef henni tekst að flytjast hingað sem sjálfstæður innflytjandi.

Hvers vegna 24 ára?

Af hverju setur frumvarpið 24 ár sem aldurstakmörk í þessu samhengi? Í rökstuðningi frumvarpsins segir að það sé vegna þess að dönsk stjórnvöld hafi sett slík lög eftir síðustu kosningar og íslensk stjórnvöld fari að þeirra fyrirmynd. En af hverju 24 ár í Danmörku?

Opinberlega er tilgangur þessarar aldurstakmörkunar að meina “nauðungarhjúskap” meðal innflytjenda og afkomenda þeirra. “Nauðungarhjúskapur” kallast það ef innflytjendaforeldrar neyða ungar dætur sínar til að giftast karlmönnum frá heimalöndum sínum svo að þeir fái landvistarleyfi í Danmörku sem makar stelpnanna. Dönsk stjórvöld töldu þetta mjög alvarlegt mál.Jú, þetta er vissulega alvarlegt mál. En það er meira að baki “24 ára” takmörkun.

Eins og kunnugt er, hafa innflytjendamál verið svo umdeild í Danmörku að þau urðu eitt meginatriði kosninganna þar. Dönsk stjórnvöld vilja stöðva fjölgun inflytjenda. Þrátt fyrir það eru enn tvær dyr opnar fyrir innflytjendur, önnur fyrir flóttamenn og hin fyrir ”nánustu aðstandendur” danskra ríkisborgara, bæði innfæddra og af erlendum uppruna.

Sérstök könnun leiddi eftirfarandi staðreyndir í ljós: mjög fáir “danskir” Danir giftast fyrir 24 ára aldur, meðalaldur fyrstu giftingar þeirra er kringum 31 ár. Hins vegar giftast t.d. 75% danskra kvenna af tyrkneskum ættum fyrir 24 ára aldur, 81% kvenna af líbönskum ættum, 61% af pakistönskum ættum. Þannig voru t.d. 88% nýrra landvistarleyfa til Tyrkja á árunum 2000 -2002 vegna fjölskyldusameiningar o.sv.frmv.

Dönsk stjórnvöld tóku eftir þessu og töldu snjallt að koma á 24 ára aldurstakmörkun vegna landvistarleyfis fyrir nánustu aðstandendur. Slíkt mundi hjálpa til við að stöðva fjölgun innflytjenda, án þess að angra “danska” Dana.

Hvers vegna 24 ára á Íslandi?

Ástæða þess að ég vitna í ofangreindar upplýsingar frá Danmörku er ekki sú að ég styðji þessa stefnu, þvert á móti mundi ég mótmæla henni ef ég byggi í Danmörku. En ég á heima á Íslandi núna og mig langar að spyrja hvers konar samlíkingu við sjáum á aðstæðum í Danmörku og á Íslandi hvað þetta varðar á árunum 2000 – 2004? Næstum ekkert, vil égmeina.. Ólíkt Danmörku er Ísland enn nokkuð opið fyrir innflytjendur. Ísland vantar erlent vinnuafl á vinnumarkað sinn. Þó að ég sé á móti því að skilgreina innflytjendur aðeins sem vinnuafl, er það staðreynd að svo er oft gert. Þess vegna reyna margir innflytjendur að fá starf fyrir sig og tryggja framfærslu sína, húsnæði og sjúkratryggingu samkvæmt lögum og reglum. Margir innflytjendur eru að stunda íslenskunám á meðan þeir eru að vinna jafn mikið og Íslendingar, og þeir vilja einlæglega stofna líf sitt á Íslandi. Að sjálfsögðu eru ýmsir einnig að reyna að kalla á nánustu aðstandendur frá heimalöndum sínum en það er skiljanlegt eðli mannlífs.Við innflytjendur á Íslandi höfum ekki ollið neinum vandræðum hingað til. Af hverju verða íslensk stjórnvöld að setja sams konar lög hérlendis vegna mála sem eiga sér stað í Danmörku, og að líta á okkur aðeins sem uppsprettu vandamála? Rökstuðningur viðkomandi frumvarps útskýrir ekkert um þetta atriði. Hann gefur í skyn tilfelli um “nauðungarhjúskap” á Íslandi en það eru í raun engin slík dæmi hér.

Lokaorð

Góðir Íslendingar, ég vil ítreka að þetta mál varðar jafnt réttindi Íslendinga sem útlendinga.

Það sjást engin rök að baki viðkomandi ákvæði frumvarps um aldurstakmörkun 24 ára fyrir maka íslenskra ríkisborgara. Hins vegar eru margar manneskjur sem hafa áhyggjur vegna þessa frumvarps, og velta fyrir sér hvort þær geti búið með mökum sínum í náinni framtið. Fólk hafði þegar samband við mig í síðustu viku út af þessum ótta. Það voru ekki útlendingar, heldur “íslenskir” Íslendingar. Er rétt að troða á raunverulegum hjúskaparréttindum þeirra vegna vandamála sem eru ímynduð?

Mig langar til að heita á stjórnvöld að endurskoða viðkomandi atriði í frumvarpinu sem koma fram hér að ofan.

(Prestur innflytjenda, 2. apríl 2004 Mbl.)

css.php