Hvað er trúboð?

Trúfrelsi er mikilvægur hluti mannréttinda í nútímasamfélagi. Þess vegna eru umræður um trúfrelsi að undanförnu hérlendis af hinu góða. Í umræðunum heyrist oft orðið ,,trúboð“ og iðulega í því samhengi að allt sem prestar taka sér fyrir hendur sé trúboð. Þetta felur í sér ákveðna staðalmynd sem stenst ekki.

Samkvæmt Íslensku orðabókinni er ,,trúboð“ skilgreint sem ,,boðun trúar meðal þeirra sem játa e-a aðra trú“. Í orðabókinni segir einnig að ,,boðun“ eða ,,að boða“ sé að ,,kunngera“ eða að ,,reyna að koma e-m á e-a trú eða skoðun“. Sem sé, svo má segja að trúboð sé að hvetja einhvern virkilega að snúa til ákveðinnar trúar með orðum og gjörðum.

Í kristinni kirkju er boðun fagnaðarerindisins ekki smáatriði, heldur kjarnastarfsemi. Þess vegna er eðlilegt að að orðið trúboð fái á sig ólíkan blæ og ólíka þýðingu eftir samhenginu. En í samfélagslegri umræðu ætti skilgreining á trúboði að vera eins og ofangreind tilvísun í orðabókina greinir frá.

Þjónusta sem er ekki trúboð

Ef við fylgjum þessari skilgreiningu, kemur það í ljós að ýmis konar þjónusta prests eða kirkjunnar er ekki trúboð í raun. Skýrt dæmi er þjónusta hjá sjúkrahúsprestum. Sjúkrahúsprestur þjónar öllum sjúklingum og aðstandendum eftir ósk, óháð trúarlegum bakgrunni þeirra. Og þjónustan sem er veitt er fyrst og fremst sálgæsla og samfylgd en ekki trúboð. Kona sem fékk sálgæslu hjá sjúkrahúspresti sagði: ,,sjúkrahúspresturinn talar um allt nema trúmál“. Að sjálfsögðu talar hann um trúmál ef viðkomandi óskar eftir því, en málið er að hann er þátttakandi í samtali við fólk og leggur sig fram við að veita nærveru, virka hlustun og ráðgjöf, en ekki trúboð.

Hið sama gildir um þjónustu mína sem prests innflytjenda. Frá upphafi þjónustunnar árið 1996 hefur markmið hennar verið að hjálpa innflytjendum að aðlagast íslensku samfélagi en ekki beint kristniboð. Mér skilst að þetta sé ríkjandi stefna einnig meðal innflytjendapresta á hinum Norðurlöndunum. Með því að veita innflytjendum aðstoð við að styrkja sjálfsmynd sína, sem oft býður hnekki í nýju landi, sýnir prestur manneskju, sem er sköpun Guðs, virðingu og samstöðu. Það er grunnhugsunin og þannig afstaða þjónar innflytjendum best á erfíðum tíma og í flóknum aðstæðum.

Það er hægt að benda á starfsemi Hjálparstarfs kirkjunnar, samtöl milli  trúarbragða eða áfallahjálp sem dæmi um starfsemi presta eða kirkjunnar þar sem andi mannúðar ríkir, og tilgangurinn er ekki trúboð.

Stuðlum að gagnkvæmri virðingu 

Sumir myndu svara mér og segja: ,,þó að prestur stundi ekki beint trúboð, hlýtur það að vera undirliggjandi tilgangur að fólk snúist til kristinnar trúar“. Það er einstaklingsbundið hvað knýr hvern og einn, þótt erfitt sé að fullyrða að ekkert slíkt búi á bak við. Þó væri réttara að kalla það ,,ósk“ frekar en ,,undirliggjandi tilgang“.

En samkvæmt skilgreiningunni hér að ofan, er trúboð það að hvetja einhvern virkilega að snúa til ákveðinnar trúar, með orðum og gjörðum. Og það sem maður óskar í brjósti sínu er ekki trúboð. Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Þegar fólk tekur þátt t.d. í friðargöngu, hlýtur sérhver maður að bera í brjósti ósk sem er tengd við trú hans eða lífsskoðun, en við lítum ekki á hana sem falinn tilgang. Ef við færum að kalla það ,,falið trú- eða lífsskoðunarboð“ værum við að meta hvað fer fram í huga sérhverrar manneskju. Þar með væri úti um tilraunir til að byggja upp gagnkvæma virðingu meðal fólks.

Það sem við verðum að læra, prestar sem aðrir, er að aðgreina stað, stund og tilefni fyrir trú- eða lífsskoðunarboð. Við þurfum að móta skýra og sameiginlega reglu um þetta og fá þjálfun til að fylgja henni. Ég tel að þetta sé óhjákvæmilegt. Ef prestur byrjar að prédika þar sem það er óviðeigandi, á að vera leið til að kvarta yfir því formlega. En mig langar jafnframt að ítreka það hvort prestur stuðli að trúboði eða ekki á ákveðnum stað og stund á að dæmast eftir orðum og gjörðum prestsins þar, en ekki eftir almennri staðalmynd um presta.

Ef þessi aðgreining er ekki fyrir hendi, verða fordómar og staðalmyndir um trúarbrögðin til þess að ýta prestum og kirkjunni út af opinberum vettvangi. Slíkt er engum í hag.

(Prestur innflytjenda; 25. apríl 2012 Mbl.)

css.php