Innflytjendur og kosningastefna

Sveita- og borgarstjórnakosningar nálgast. Og enn og aftur er engir áþreifanlega stefna um innflytjendamál á dagskrá stjórnmálaflokkana nema í VG. Það er kannski ekki merki um vanrækslu þeirra, heldur frekar birting á því hversu skammt á veg umræður um þetta málefni eru komnar á hinu pólitíska sviði og eru þar oft óþroskaðar.

Oftast er orðasambandið ,,gagnkvæm aðlögun“ notað í umræðum um innflytjendamál. Lengra en að komast á blað virðist orðasambandið samt ekki komast, það hefur ekki náð því að verða að áþreifanlegri stefnu eða raunverulegri framtíðarsýn.

T.d. gaf Félagsmálaráðuneytið út skýrslu í fyrra sem heitir ,,Um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi“ og þar er bent á að ,,gagnkvæm aðlögun“ séu lykilorðin, en hún skilgreinir ekki hvað þau eru samkvæmt skilningi skýrsluhöfunda. Yfirleitt sýnist mér að ,,aðlögun innflytjenda“ sé í beinni þýðingu ,,að vera ekki með vesen“ fyrir viðkomandi málsaðila, hvort sem er um ráðuneyti, vinnuveitanda eða aðra að ræða. Ef lykilorðin í umræðunni um innflytjendur eru svona óskýr, þá er skiljanlegt að innflytjendamál séu ekki á stefnuskrá stjórnmálaflokkanna nú í vor.

Eigum við ekki að hætta að nota orðasambandið ,,gagnkvæm aðlögun“ í umræðum innflytjendamála, sérstaklega í stjórnmálum og um samfélagsréttindi, og nota einfaldlega orðið ,,þátttaka“? Því það er nákvæmlega það sem innflytjendur eiga að gera hér. Innflytjendur reyna að læra tungumálið, hefðir og siði og á sama tíma á samfélagið að veita þeim sanngjarnt tækifæri til þess að taka virkan þátt í þjóðlífinu. Í pólitísku samhengi er gagnkvæm aðlögun ekkert annað en þetta, hún snýst oft um praktísk atriði.

Þá ættu fjölmiðlar og aðrar mikilvægar, samfélaglegar stofnanir að stuðla að því að rödd og íslenska innflytjenda heyrist svo að þátttakan aukist.

Við innflytjendur skiljum líka að verðum að uppfylla íslenskar menntunarkröfur til að fá að starfa í okkar sérgreinum en á móti verður samfélagið að meta á sanngjarnan, skipulegan hátt menntun innflytjenda og einnig að leiðbeina um hvar og hvernig þeir geti öðlast uppbótarmenntun ef slíka vantar. Við lærum íslensku til þess að búa hér eins og aðrir, en ekki vegna þess að okkur skortir grunnmenntun. Flestir innflytjendur eru í vinnu og greiða skatta til samfélagsins, því þeir eru með rétt til þátttöku í þjóðamálaumræðum sem þarfnast úrlausna. Hugtakið “þátttaka” er að mínu mati miklu eðlilegra hugtak í umræðunni um innflytjendur en ,,gagnkvæm aðlögun“. Það vilja nær allir að taka þátt í því samfélagi sem þeir búa í, njóta réttinda og uppfylla skyldur, og geta haft eitthvað um það og líf sitt að segja. Það er óréttlæti þegar þess er ekki kostur og veldur reiði og sárindum manna, hvar og hvenær sem er. Ég óska hér með eftir því að stjórnmálaflokkar setji sér áþreifanlega á stefnuskrá í málefnum innflytjenda, sem byggir á hugtöku þátttökunnar.

Til þess vil ég leggja til að búa til þátttökuvísitölur í stjórnsýslunni, en bíð eftir öðru tækifæri fyrir frekari útskýringu.

(Prestur innflytjeda, 24. apríl 2006 FrB.)

css.php