Jólakveðja til samkynhneigðra

Það dregur að jólum. Á þessum tíma árs vil ég senda sérstaka kveðju til samkynhneigðra, aðstandenda þeirra og vina, en kynni mín af samkynhneigðum og réttindamálum þeirra hafa auðgað líf mitt á árinu sem er að líða. Ég hef lært mikið af því að kynnast ykkur og ykkar mannréttindabaráttu, en áhugi minn og bein afskipti af þeirri baráttu eru tiltölulega ný af nálinni. Þessi samskipti hafa leitt mig til æðra stigs á skilningi mínum á Biblíunni, sérstaklega hvað varðar ást einnar manneskju á annarri.

Við kristnir menn á Íslandi lifum og hrærumst í ólíkri návist við trúna. Fyrir suma skiptir trúin miklu máli, en fyrir aðra minna. Í orðræðu kristinna manna er títt vitnað til Biblíunnar, en persónuleg túlkun fólks á boðskap hennar getur verið afar mismunandi. Ég verð hins vegar að viðurkenna að sumar slíkar túlkanir særa mitt kristna hjarta. Biblían er samansafn sögulegra bóka, en hún verður „lifandi orð Guðs“ þegar maður les hana í trú sinni. Ein leið til að meðtaka boðskap Biblíunnar er að vera vel að sér í Biblíufræðum. Sérhver prestur á að baki nám í guðfræði sem á að gera honum kleift að predika orð Biblíunnar. Boðskapur Guðs er að sumu leyti ekki auðfenginn. En með alúð og fyrirhöfn verður söguleg bók að lifandi orði Guðs fyrir viðkomandi prest eða kristinn mann, og hann deilir því með öðrum. Allir prestar þekkja ánægjuna sem því fylgir að breiða út fagnaðarerindið.

Ég hef verið svo lánsamur að hafa kristni að mínu leiðarljósi í lífinu. Jesús flytur mér orðin og með nærveru hans í daglegu lífi og starfi reyni ég að lifa eftir orðum hans. Lestur Biblíunnar er vissulega mikilvæg iðja í þeirri viðleitni. Það er hins vegar ekki bara með lestri Biblíunnar sem við erum með Jesús næst okkur, heldur í verkum okkar og daglegum samskiptum hvert við annað. Tilvitnanir í Biblíuna eru hjóm eitt ef boðskapur kristninnar er fótum troðinn í daglegum verkum okkar og tali gagnvart náunganum.

Kæru vinir. Jesús hugsar til okkar allra jafnt og hvetur okkur til að lifa okkar eigin lífi eins og okkur er gefið af Guði. Virði hvers og eins okkar felst í því að vera “ég sjálf/ur”. Þetta eru skilaboð Biblíunnar. Stundum gleymum við í kirkjunni þessum kjarna, því að við misskiljum orð Guðs sem boð laga og regluna en ekki boðskap ástar og mannkærleika. Það ógnar fjölbreytileika manlífsins. Þetta verður að lagast. Þess vegna þarfnast kirkjan ykkar, kannski meira en þið þarfnist hennar. Við þurfum á hjálp ykkar og visku að halda til að fagna fjölbreyttara mannlífi og flagga regnbogafánanum fyrir öll börn Drottins.
Ég þakka ykkur fyrir samskiptin á árinu sem er að líða og óska ykkur gleðilegra jóla. Fyrir nokkru bjó ég til smá kvæði til “lesbískra” vinkvenna minna og mig langar til að senda ykkur nokkrar línur úr því, sem jólakveðju mína.

Englar eins og þú og vinkona þín
halda uppi gráu þaki heimsins
og gera okkur það kleift
að anda ljúfu og ljúffengu lofti í veröldinni.
Þökkum fyrir ást þína!

(Prestur innflytjenda, 23. desember 2003 Mbl.)

css.php