Kirkjan og kynþáttafordómar

Sá ljóti atburður sem gerðist við Háteigskirkju hinn 30. ágúst sl. móðgaði og hryggði margt fólk, ekki aðeins okkur útlendinga heldur einnig Íslendinga. Einhverjir máluðu slagorð um kynþáttafordóma og merki nazista á kirkjuveggina. Sams konar atvik átti sér stað við þessa kirkju fyrir tveimur árum. Í þetta skipti voru líka skrifuð bannorð gegn Kristi og merki satanista voru máluð á veggi. Hvað eigum við að segja um þetta mál?
Fyrst langar mig til að segja eftirfarandi sem einn af útlendingunum á Íslandi.

  1. Ég tek það sem þarna stóð ekki sem almenna skoðun Íslendinga.
  2. Ef þetta er eins konar glens finnst mér þetta ekki neitt gamanmál.
  3. Ef einhver vill sýna okkur kynþáttafordóma sína vil ég bjóða honum að koma til okkar útlendinganna og ræða við okkur í staðinn fyrir að mála og skrifa á veggi kirkjunnar.

Mig langar til að biðja ykkur einlæglega, góðir Íslendingar, að líta ekki á þennan atburð sem eitthvert barnagaman eða strákapör því að fasismi byrjar alltaf á þennan hátt.

Yfirleitt byggja fasismi eða kynþáttafordómar á mjög veikum hugmyndafræðilegum grunni. Þess vegna geta fylgjendur þeirra ekki komið fram og tekið þátt í umræðum á venjulegan hátt. Þegar óánægja, reiði og vanmáttarkennd hlaðast upp meðal fólks og þegar það veit ekki hvar það getur fengið útrás fyrir tilfinningar sínar, tapar fólk dómgreind sinni. Þá reynir það að sjá og aðskilja sig sjálft frá öðrum með því að líta á þjóðerni, húðlit eða kynþátt fólks því að það er auðveldasta leiðin til að gera einhvern greinarmun. Og það ákveður að ofsækja fólk sem er ólíkt því sjálfu til að fá útrás fyrir neikvæðar tilfinningar sínar. Þannig hefjast kynþáttafordómar eða nýnazismi. Ef samfélagið reitt og vonlaust, getur fasismi orðið öflug og ofbeldishneigð hreyfing.
Ég óska þess að þið, góðir Íslendingar, hvorki vanmetið þetta né ofmetið, heldur fjallið um og hugsið málið alvarlega.

Að lokum langar mig til að segja eftirfarandi sem kristinn maður til fólksins í kirkjunni okkar.

Þetta mál er ekki aðeins mál samfélagsins heldur mál kirkjunnar sjálfrar. Það er ekki bara nóg að skilgreina vandann og gagnrýna hann. Kirkjan verður að kafa dýpra í málið.

Við kristið fólk skulum velta þessum kynþáttafordómum fyrir okkur, og við skulum iðrast sjálf fyrst og fremst. Af því að hvert okkar hefur einhvers konar fordóma gegn öðrum að meira eða minna leyti. Fólkið í kirkjunni á að iðrast yfir þessum mannlega veikleika. Iðrun er eini grundvöllurinn sem við öll, syndarar, getum staðið saman á. Og þar getum við rík og fátæk, lánveitendur og skuldunautar, vinir og óvinir endurnýjað samskipti okkar.

“Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta” (Sálmur 51). Gagnrýni án iðrunar getur verið miskunnarlaus dómur eða aðeins mannleg hefnd. Ef við eltumst aðeins við kynþáttahatara og hrópum að þeim, munum við missa af því að sjá kjarna málsins fyrir okkur kristna menn.

Kjarni málsins fyrir okkur er að það er lifandi maður á bak við þau ljótu slagorð sem máluð voru á kirkjuna. Þessi maður er líka sköpun Guðs, sem hefur villst af leið sinni.

Hvað eigum við að gera þegar kynþáttahatarar villast og ráfa burt frá skapara sínum?

Hvað segir Jesús við þá?

Hin fræga kenning Jesú “Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður” er ekki aðeins falleg orð, heldur hagnýtt vopn fyrir okkur til að berjast við ill öfl. Kenning Jesú hvetur okkur til að horfa á tilveru okkar sjálfra og iðrast synda okkar, og að reyna að losna við hið illa og láta menn rata rétta leið. Ef við tökum ekki á móti þessari kenningu Jesú í raunverulegu lífi okkar, þá verður trú okkar tóm.

Þótt kynþáttahatarar hati okkur og kirkju okkar, leggjum við ekki hatur á þá. Því að Jesús gerir það ekki, og við fylgjum honum.
(Prestur innflytjenda, 5. september 1997 Mbl.)

css.php