Móðurmál barna – fjársjóður allra

,,Móðurmál – félag um móðurmálskennslu tvítyngdra barna“ fagnar 10 ára afmæli sínu núna í desember. Móðurmálskennslan er fyrir börn sem eiga sér annað móðurmál en íslensku en er ekki íslenskukennsla fyrir íslensk börn sem búsett hafa verið erlendis. Jafnvel þótt þetta séu í raun tvær hliðar á sama peningi þá virðist móðurmálskennsla barna innflytjenda á Íslandi enn fá litla athygli í samanburði við þá ,,móðurmáls“kennslu sem íslensk börn fá.

Eftirfarandi er persónuleg skoðun mín sem einstaklings tengdur móðurmálskennslu og prests innflytjenda, en ekki álit Félags Móðurmál eða annarra aðila.

Félagið ,,Móðurmál“

Hér verð ég að  afmarka skrif mín um móðurmálskennslu við þá sem tengd er félaginu ,,Móðurmál“, en ég vil samt benda á að það fer fram sambærileg móðurmálskennsla utan félagsins á öðrum tungumálum, t.d. pólsku.

Félagið  ,,Móðurmál“ var stofnað árið 2001 og var tilgangur þess í fyrsta lagi að leita styrkja til þess að halda áfram móðurmálskennslu eins og ensku, rússnesku og japönsku, sem þegar var hafin og í öðru lagi að boða mikilvægi móðurmálskennslu og styrkja hana í skólakerfinu og almennt í samfélaginu. (Nánara um Móðurmál fæst í www.modurmal.com)

Rétt áður hafði Reykjavíkurborg samþykkt Fjölmenningarstefnu sína en í henni var sagt: ,,Lögð verði áhersla á kennsluhætti sem henta börnum af erlendum uppruna og að koma til móts við þarfir þeirra, m.a. í kennslu á íslensku sem öðru tungumáli. Einnig með kennslu í og á móðurmáli þeirra eftir því sem við verður komið.“

Þetta var frábær setning en hún hefur æ síðan verið eins og ,,gulrót sem haldið er undan hestsnefi“ fyrir þá sem vilja festa móðurmálskennslu í grunnmenntun barna, þar sem stefnunni var ekki hrint í framkvæmd. Félagið ,,Móðurmál“ fékk styrki héðan og þaðan, en þeir dugðu aðeins til að kynna starfsemi félagsins og fyrir námskeiðum kennara. Kennslan var og er enn unnin í sjálfboðastarfi, nema að síðastliðin tvö ár hefur Reykjavíkurborg styrkt félagið með því að lána því kennslustofu í Hagaskóla.  

Ég ætla ekki að segja að ekkert jákvætt hafi gerst í móðurmálskennslu barna sem eiga sér annað móðurmál en íslensku síðan félagið var stofnað en það er heldur ekki allt í góðu. Mér finnst að það vanti enn skilning á mikilvægi móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi. Því verðum við foreldrar tvítyngdra barna að halda málinu á lofti.

Málið hefur tvær hliðar

Málið hefur tvær hliðar: önnur er hlið sem snertir réttindi barna í menntakerfinu og hin er hliðin sem snýr að fjölskyldulífi þeirra. Að viðurkenna  móðurmálskennslu sem réttindi barna – eins og sást í Fjölmenningarstefnu borgarinnar áður – veldur strax vandamálum fyrir yfirvöld, af því að þá verða þau að tryggja móðurmálskennslu á öllum tungumálum í skólanum, sem eru líklega fleiri en hundrað. Auðvitað er það ekki hægt núna, og ég krefst þess ekki. Raunar steig lýsingin um móðurmálkennslu aftur á bak í Mannréttindastefnu borgarinnar sem tók yfir Fjölmenningarstefnu árið 2006: ,,… þeim (börnum af erlendum uppruna) gefið tækifæri til að kynna heimamenningu sína og móðurmál.“

Hin hliðin er að kenna börnum móðurmál sitt í fjölskyldunni, það er, að láta þau læra móðurmál sitt heima fyrir. Að mínu mati, og í rauninni stendur móðurmálskennslan einhvers staðar þarna á milli – sem viðurkenndra opinberra réttinda barna og þess að vera einkamál innflytjenda, ef til vill nær því síðarnefnda. Það er mín von að vísirinn fari að hreyfast í hina áttina á næstunni.

Ég krefst þess ekki að móðurmálskennslu á öllum tungumálum verði sinnt í skólanum, a.m.k. ekki núna, en ég óska þess að sú móðurmálskennsla sem nú er í gangi, og vonandi fleiri tungumál á næstunni, fái stöðugri stuðning eins og með fjárveitingu eða kennslustað sem væri hluti af félagslegri viðurkenningu. Félagið ,,Móðurmál“ er búið að sanna starfsemi sína og mikilvægi tilvistar tvítyngdra barna. Nú er kominn tími á að samfélagið viðurkenni það.

Ég tel tilvist tvítyngdra barna vera fjársjóður íslensks samfélags. Börn og ungmenni sem kunna tvö tungumál og menningarheima auðga sannarlega þjóðfélagið,  breikka það og dýpka. En móðurmálskennsla hefur sín örlög sama hvaða mál er að ræða. Hún er alltíð tímabundin. Ólíkt mörgum verkefnum í samfélagi, getur móðurmálskennsla ekki beðið. Við getum rætt mörg ár um flutning flugvalla. En börn okkar alast upp dag eftir dag og við getum ekki stöðvað þau. Þrjú ár, fimm ár eða tíu ár í móðurmálskennslu þýða bókstaflega þá tímalengd. Ef foreldrar missa af tækifæri til að kenna börnum móðurmál sitt tímanlega, er það rosalega erfitt að fá það aftur til baka.
Ég óska þess innilega að Íslendingar taki þetta sérkenni í móðurmálskennslu til tillitssemi sinnar og tryggi fjársjóð þjóðarinnar í framtíð.

(Prestur innflytjenda; 2. des. 2011 Mbl.)

css.php