Ræða á ráðstefnu: „Hvað getur ungt fólk lagt að mörkum til mannréttinda og friðarmála á 21. öldinni sem einstaklingar?“

Fyrir um 65 árum, í kringum árið 1940, komu þýskir hermenn til smábæjar í Rúmeníu.  Þar bjuggu meðal annarra nokkrar fjölskyldur Gyðinga. Gyðingarnir voru hræddir við þýsku hermennina og forðuðust að fara út á götu. Í einni af þessum fjölskyldum var 12 ára stelpa. Hún sagði við foreldra sína: ,,Pabbi, mamma, ég er svöng“. En það var ekkert til að borða á hennar heimili frekar en öðrum í bænum. Stelpan spurði: ,,En af hverju förum við ekki til  Þjóðverjanna og biðjum um mat? Þeir eru að borða!“ Pabbi hennar sagði:,,Ertu brjáluð? Þeir skjóta þig!“

En stelpan fór út engu að síður, ef til vill skildi hún ekki vel hvers konar áhættu hún var í raun og veru að taka, og hún fór til eins foringja hermannanna. ,,Herra, ég er svöng!“ Foringinn horfði á hana, hló en benti svo á borð þar sem á lágu diskar og bollar með matarleifum hermannanna. Stelpan gekk að borðinu, tók saman afganginn af matnum og fór með heim.

Næstu daga endurtók stelpan leikinn. Hún gerði smáviðvik fyrir hermennina og fékk í staðinn að borða. Hún tók einnig mat fyrir fjölskylduna sína. Þjóðverjarnir vissu af því en stoppuðu hana ekki.

En síðan runnu upp enn harðari tímar. Þjóðverjarnir fluttu sig smám saman yfir í annan bæ og samtímis byrjuðu þeir að undirbúa flutning Gyðinga í sérstakar búðir. Enginn sagði það upphátt eða beinlínis en fólk gat sér til um hvað væri að gerast. Stelpan fór til foringjans og spurði: ,,Ætlarðu að drepa pabba minn?“ Hann staraði á stelpuna en hunsaði hana. ,, Ætlarðu að drepa pabba minn!?“ spurði hún aftur. Foringinn leit út fyrir að vera hissa á þrákelkni stelpunnar  og ruglaður. En hún gafst upp ekki. ,, Ætlarðu að drepa pabba minn? Skjóttu mig þá fyrst! “ Þá tók foringinn báðum höndum um hattinn sinn og sagði lágt, ekki við stelpuna heldur sjálfan sig: ,, Guð, mér var kennt að Gyðingar væru allir huglausir eins og grísir…“. Hermennirnir fluttu í annan bæ, en þeir tóku engan Gyðing með sér.

Stelpan lifði af stríðið og varð síðar móðir. Kommúnistar tóku við stjórn Rúmeníu og þar voru börnin frædd og kennt allflest um stríðsglæpi Þjóðverja. Það var eingöngu rætt um allar ljótu sögurnar og neikvæðu um Þjóðverja. En stelpan, sem nú var móðir nokkurra barna, talaði aldrei illa um Þjóðverja. Hún vildi bera vitni um það að á meðal Þjóðverja voru einstaklingar sem hefðu gert góðverk í ljótu og hörmulegu stríði en stjórnin vildi aðeins halda á lofti hinu neikvæða.

Stelpan er í dag 75 ára og býr enn í  Rúmeníu. Ég heyrði þessa sögu fyrst, aðeins fyrir viku, nákmæmilega á síðasta laugardaginn, þegar ég var á leið í lest á milli Brussel og Amsterdam. Það var sonur konunnar sem sagði mér söguna, en hann er prestur rétttrúnaðarkirkju í Tékklandi og starfar mikið fyrir flóttamenn þar.
Frú Vigdís, ágæti fundarstjóri, gott fólk í undirbúningsnefnd og kæru gestir. Ég þakka innilega fyrir þetta tækifæri, að fá að vera með ykkur hér á ráðstefnunni og fjalla um friðar- og mannréttindamál. Mér er það mikill heiður og innilega til hamingju með frábæru sýninguna.

Ég er búinn að segja ykkur smásögu sem ég heyrði sjálfur nýlega. Ég veit ekki hvort þessi saga sé 100 prósent sönn eða hvort hún sé kannski ofurlítið færð í stílinn. En hvort sem er, þá finnst mér sagan vera mjög góð því hún vekur okkur til umhugsunar um svo margt. Sagan felur í sér nokkur atriði sem ég tel nauðsynlegt og mikilvægt að hafa í huga áður en að við byrjum að fjalla um friðar- og mannréttindamál í dag og ræða þau. Þau munu  hjálpa okkur til að byggja upp skapandi umræður. En hver eru þessi atriði?
Í fyrsta lagi; mannréttindamál eru ekki bara abstrakt hugmyndarfræði, heldur áþreifanleg mál og geta verið mjög persónuleg. Stelpan í smásögunni, sem ég hef kosið að nefna Allesíu-don´t ask me why-, var svöng. Allesía fór til herforingja og bað um mat, ekki til þess að ræða alþjóðleg stjórnmál eða heimspeki. Mannréttindamál eru jú hugmyndarfræðileg og almenn, en jafnframt eru þau hlutstæð og persónuleg. Mannréttindi verða ekki aðskilin frá raunverulegum kröfum okkar og þörfum.

Stundum gleymum við því. Réttindi verða fyrst og síðast að raunverulegum réttindum þegar þegnar heimsins fá raunverulega að njóta þeirra. Þau byggja á ákveðnum sammannlegum grundvallarþörfum sem við manneskjurnar þurfum til þess að vaxa, dafna og þroskast. Þetta er grundvallaratriði í mannréttindamálum – yfirlýsingar eða lög sem í raun og veru eru ekki í eða virka ekki í framkvæmd og eru þar með marklaus teljast ekki til réttinda.

Í öðru lagi; Allesía sagði foringjanum að hana vantaði mat. Í sérhverjum aðstæðum verðum við að vera meðvituð um mannréttindi okkar og krefjast þeirra, sérstaklega í lýðræðiskerfinu þar sem málfrelsi er tryggt. Manneskja verður að vera vakin yfir sameiginlegum mannréttindum og má aldrei sofna á verðinum. Þetta er önnur grunnregla.

Að standa upp og gera kröfur til mannréttinda sinna er oftast mjög þreytandi ferli. Samt er staðreyndin sú, að mannréttindin koma ekki sjálfkrafa til okkar og sagan hefur sýnt að ef við gætum þeirra ekki þá er hægt að taka þau frá okkur.

Í þriðja lagi; það getur verið áhættusamt að krefjast mannréttinda sinna í ákveðnum aðstæðum eins og þegar Allesía stóð frammi fyrir byssukjafti hermannsins. Til allrar hamingju þurfum við ekki að óttast byssur á Íslandi en við getum hins vegar ekki horft fram hjá annars konar áhættu eins og að lenda í einelti, að verða fyrir samfélagslegri einangrun, mæta andúð og svo framvegis ef við tölum hátt um réttindi okkar eða krefjumst þeirra.

Í fjórða lagi; Allesía stóð andspænis herforingja, en ekki hverjum sem er í litla bænum sínum, sem sagt hún krafðist þess af manni í valdastöðu að gefa sér mat. Þegar barist er fyrir mannréttindum er nauðsynlegt að fylgjast sífellt með því hvar valdið liggur. Þetta atriði er kannski ekki alveg vel þekkt. Þegar við ræðum t.d. um fordóma og mismunun gagnvart útlendingum á Íslandi, heyrast raddir eins og : ,, það eru líka til fordómar og mismunun á meðal útlendinga.“

Það er alveg satt og sem prestur ætla ég ekki að segja útlendingar megi halda í fordóma til annarra útlendinga. En hvað mannréttindaumræður varða, þá skiptir það ekki miklu máli, reyndar, hvort það séu fordómar til á meðal útlendinga eða ekki, af því að þeir útlendingar, hverjir þeir sem eru, hafa ekkert vald í samfélaginu. Þeir eru minnihlutahópur(ath: þó að minnihlutahópur geti verið með vald stundum).

Að þessu leyti eigum við að viðurkenna þann mun sem er á milli mannréttindaumræðunnar og siðferðisumræðunnar. Mannréttindamál snúast um, í fáum orðum, um hvernig menn nota vald til að stjórna. Þess vegna eru mannréttindamál alltaf tengd ákveðnum tíma, stað og hagsmunaaðila eða aðilum. Umræðurnar eiga því að taka mið af valdinu og valdhöfum, það er eitt af leiðarljósunum sem geta beint henni í réttan farveg.

Í fimmta lagi; við skulum vera reiðbúinn að skoða og viðurkenna fordóma okkar sjálfra eða vanþekkingu. 99 prósent af þeirri þekkingu sem við höfum við sennilega numið af öðrum mönnum, bókum og í skólum. Það er alltaf möguleiki fyrir hendi, að við byggjum framkomu okkar eða málflutning á röngum forsendum, eins og foringinn í sögu Allesíu. Honum var kennt að allir Gyðingar væru huglausir. Mannkynssagan sýnir okkur að valdhafar, hvenær sem er og hvar sem er, hafa tilhneigingu til að nota menntakerfi samfélagsins til þess að réttlæta ákveðna fordóma og óréttlæti. Líklegast er hvert og eitt okkar hér líka undir áhrifum frá umhverfi okkar. Við eigum að vera vakandi fyrir því.

Í sjötta lagi;  Allesía vann sitt litla stríð án ofbeldis. Að sjálfsögðu hafði hún ekki annað val en berjast án ofbeldis, en hefði hún haft möguleika á því og kosið frekar að ráðast á hermanninn með vopni, hefði niðurstaðan þá verið sú sama? Ég held það ekki. John Kenneth Garbleith er vel þekktur hagfræðingur í Bandaríkjunum og demókrati, en hann sagði um ábyrgð Bandaríkjanna á Víetnam-stríðinu: ,, Stríð er alltaf auðvelt að byrja, en ansi erfitt að klára.“ Mér sýnast orð hans vera sígild þegar ég sé hvernig aðstæður eru núna í Írak og  Afganistan. Friðarmál er reyndar samofin mannréttindamálum, þar sem ofbeldi brýtur á mannréttindum og treður á mannlífi.

Síðast en ekki síst ; Þegar Allesía varð fullorðin og móðir, kaus hún að segja frá lífsreynslu sinni, ekki aðeins öllu því hræðilega sem fylgdi hernámi Þjóðverja eins og öll rúmenska þjóðin upplifði heldur líka ljósinu í myrkrinum, hermönnunum sem hjálpuðu henni og fjölskyldu hennar. Hún vildi segja frá því að sumir þeirra höfðu líka mannlegar hliðar og að stundum þyrfti maður líka að fyrirgefa til þess að geta haldið áfram og byggt upp. Nú hugsar Allesía um börnin sín og einnig um aðra í samfélagi sínu. Þaðan breiðist ábyrgðarkennd Allesíu út til samfélagsins.

Ég sagði áðan að mannréttindamál eru persónuleg, en ég á ekki við að mannréttindamál eru einkamál mín eða þín. Ef manneskja hugsar vel um sjálfa sig, þá hugsar hún um börn sín og samfélagið sem þau búa í. Manneskja hugsar til nágranna sinna í bænum og í heiminum,  aðstæðna þeirra og framtíðar komandi kynslóðar. Dag eftir dag er allt sem gerist á jörðinni tengt við mitt líf og þitt líf. Við getum ekki flúið jörðina.
Góðir gestir. Ég þori ekki að tala meira um frið og mannréttindi, á meðan þrír áberandi menn horfa á okkur, Gandhi, King og Ikeda. Ég er ekki maður sem getur bætt einhverju við árangur þeirra í starfi. En samtímis trúi ég því, að jafnvel Gandhi, King eða Ikeda hafi ekki unnið aleinir, það hlýtur gott fólk að hafa lagt hönd á plóginn. Ég trúi því líka að heiminum öllum séu margir með sömu hugsjónir og hugrekki og Gandhi, King, Ikeda og Allesía í Rúmeníu.

Hvað getur ungt fólk lagt að mörkum til mannréttinda og friðarmála á 21. öldinni sem einstaklingar? Þessi spurning er einföldust: ,,Hvað get ég gert núna sem einstaklingur?“. Það hlýtur að vera erfitt fyrir manneskju að verða eins og Gandhi, King eða Ikeda. En hvert og eitt ykkar getur orðið vísir að Gandhi, King og Ikeda, með því að hugsa um málið sjálf og tala um málið sjálf, í staðinn fyrir að bíða eftir að einhver annar tali um það.

Það eru mörg umræðuefni í samfélagi okkar, varðandi mannréttindi og friðarmál, eins og mál samkynhneigðra, geðsjúklinga og útlendinga, heimilisofbeldi, fjölmiðlamál, launamun kynjanna, mál Mannréttindaskrifstofu Íslands og stríðið í Írak. Tilefnin er því ærin og þið hafið mörg tækifæri til þess að sanna ykkur sem framtíðar Gandhi, King og Ikeda í samfélaginu. Ekki hika við að grípa tækifærið. Lífið er ykkar – núna – í okkar samfélagi – fyrir alla. Mannréttindamál eru áþreifanleg og persónuleg.

Kærar þakkir

(Prestur innflytjenda, 19. nóvember 2005, í ráðhúsi Reikjavíkurborgar)

css.php