Ræða í málstofu ,,Móðurmál eru máttur“ Þegar börn mín sögðu orð á japönsku…

Komið þið sæl.

Sumarið 1993 var fallegt og dásamlegt. Í þá daga bjó ég í Miklaholtshreppi sem er nálægt Snæfellsnesi, og hafði flust til Íslands árinu áður. Ég var giftur íslenskri konu og við bjuggum í einbýlishúsi með tveggja ára syni okkar. Fyrir mig sem ólst upp í borginni Tokýo var umhverfið ótrúlegt. Himininn var blár og í kringum húsið hafði grænum túnum verið lagt eins og teppum með bláum berjum. Ég talaði við kindur og söng með fuglum á hverjum degi. Náttúran umfaðmaði svo sannarlega fjölskylduna og það var tíu mínútna gangur til næstu nágranna.

Vandamálið var hins vegar framtíðin. Konan mín var ekki í fastri vinnu og ég var atvinnulaus. Það eina sem við vorum 100% viss um var að okkar annað barn myndi fæðast á hausti komanda.

Ég talaði við tveggja ára son minn á japönsku eingöngu, las fyrir hann sögur á japönsku og horfði með honum á myndbönd á japönsku. Ég kunni ekkert í íslensku og nennti ekki að læra hana við þessar óvissu aðstæður fjölskyldu minnar. En að sjálfsögðu talar tveggja ára barn ekki fullkomið tungumál, það er að stíga fyrstu skrefin.

Mér fannst oftar en ekki að stundum væri svolítið kjánalegt að reyna að tala japönsku við strákinn minn, svona álíka gáfulegt og að tala við vegg. Sú staðreynd, að það var enginn annar í nánasta málumhverfi okkar sem talaði japönsku, jók einnig á örvæntingu mína. Ég varð hræddur um að ef sonur minn myndi ekki skilja japönsku þá myndi ég ekki geta átt samskipti við hann. Sá ótti var mjög raunverulegur fyrir mér.

Dag nokkurn var ég með stráknum mínum í garðinum á bak við húsið, eins og venjulega. En þegar við gengum fram hjá einu blómabeðanna sagði hann allt í einu: ,,mura-saki“.

,, Ha? Segðu mér einu sinni enn?“:bað ég hann á japönsku. Sonur minn leit á blómin og síðan á mig og sagði aftur: ,,Murasaki“.

Murasaki er ekki mjög auðvelt orð á japönsku en það þýðir fjólublár á íslensku og þannig voru einmitt blómin á litinn, fjólublá! Ég hljóp inn í húsið til þess að ná í myndbands upptökuvél, festi þennan eftirminnilega atburð á filmu og sendi síðan spóluna til foreldra minna í Tokyo!

Ég mun aldrei gleyma þessu yndislega og blessaða andartaki. Það lá svo margt þungt á herðum okkar hjóna á þessum tíma, ég talaði ekki íslensku, var atvinnulaus, framtíð okkar var ótrygg og svo framvegis. En þarna var mér beinlínis sýnt að erfiði bæri árangur.

 

Tíminn flýgur og nú eru þrettán ár liðin frá þessari stund. Strákurinn orðinn 15 ára og yngri systir hans 12 ára. Við tölum ennþá saman á japönsku. Að sjálfsögðu lýkur tungumálalærdómi aldrei. Bæði ég og þau erum sífellt að bæta við orðum sem eru fullnægjandi til þess að geta tjáð tilfinningar sínar og hugmyndir í samtíma okkar. Ég get núna líka skilið íslensku og hef því ekki eins miklar áhyggjur og áður af því að geta ekki skilið börnin mín og að við munum ekki geta tjáð okkur og átt samskipti. Við lærum hvert af öðru.

Nú langar mig til að leggja fram nokkur atriði sem ég lærði persónulega af reynslu minni, en sum þeirra eru áreiðanlega hagnýt og geta gagnast öðrum líka.

  • Móðurmálskennsla tekur oft langan tíma áður en árangurinn kemur í ljós. Það er því mikilvægt fyrir foreldra að gefast ekki upp þótt árangurinn láti á sér standa.
  • Þegar foreldri af erlendum uppruna er að tileinka sér íslensku og jafnframt að kenna barninu móðurmál sitt getur álagið verið tvöfalt. Það er mikilvægt að foreldrið sé hvatt og stutt til þess að kenna barni móðurmál sitt.
  • Hæfileikur barna eru oftast meiri en foreldrar ímynda sér. Það er oftast foreldarnir sem setja takmarkanir á barnið sitt eins og :,,það er of mikið fyrir barnið okkar að læra íslensku og móðurmálið okkar“. Barnið á að ráða því sjálft, en ekki foreldrar þess.
  • Aðalkennslustofa móðurmálsins er á heimili barnsins. Kennslustundir í skóla eða námskeið styðja við kennsluna og skapa skemmtileg og góð tækifæri til lærdóms, en geta ekki tekið við hlutverki heimilisins sem er í öndvegi.
  • Móðurmál er óhjákvæmilega tengt við sjálfsmynd barns. Það er jafnt mikilvægt að veita barninu aðstoð svo að hann öðlist jákvæða mynd af heimalandi sínu eða upprunalandi, jafnt sem Íslandi.

 

Að lokum ætla ég að segja frá framtíðarsýn minni á móðurmálskennslu almennt.

Móðurmálskennsla fer fram í grundvallaratriðum á heimili barns. Að því leyti er hún mjög persónulegt mál. Ég hef ekki reiknað út hversu miklum tíma og orku ég hef eytt í að kenna börnunum mínum japönsku. Árangurinn er hins vegar ekki endilega persónulegur eða einkamál mitt eða okkar. Hann getur nýst íslensku samfélagi. Sem sagt, framlag tvítyngdra barna getur verið einstakt fyrir þjóðfélagið, t.d. í viðskiptatengslum og menningarsamskiptum.

Fólk biður mig oft um að þýða íslensku yfir á japönsku. Ég get talið nokkurt dæmi: þýðing fyrir DVD-spólu og upplestur vegna heimssýningar í Japan eða fyrir ferðamenn almennt, þýðing fyrir tónlistahóp sem var á leið til Japans eða fyrir starfsmenn íslensks fyrirtækis. Ég er einnig að aðstoða við japönsku-skorina hér HÍ líka og ég er mjög ánægður með að japanskan er komin inn í fasta kennsluáætlun HÍ og þakklátur viðkomandi aðilum fyrir það. Ég geri svona gjarnan. En ég geri það ekki til að fá vasapeninga, heldur ég geri af því að ég trúi að samskipti milli þjóðanna eru jákvæð og gagnkvæmur hagur fyrir okkur öll.

Slík samskipti eiga eftir að aukast í framtíðinni og verða mikilvægari, hvort sem þau fara fram á íslensku og japönsku eða íslensku og ensku, íslensku og rússnesku, lítháensku, tælensku, pólsku, spænsku eða hvaða annars tungumáls sem er. Og hverjir eru vel færir um að sinna slíkum verkefnum? Börnin okkar. Móðurmálskennsla er því einnig fjárfesting í framtíð þjóðarinnar. Tvítyngd börn eru ekki vandamál, vesen eða hindrun skólastarfsemi, heldur eru þau ,, the New fronteer“, mannauð þjóðarinnar.

Ég hafna því algjörlega að móðurmálskennsla sé einkamál útlendinga.Yfirvöld menntamála í ríkisstígi hér á landi veita tvítyngdum börnum og foreldrum þeirra ekki nægilegan styrk hingað til, en á sama tíma er samfélagið er tilbúið til þess að notfæra sér framlag tvítyngdra barna þegar fram í sækir og því hentar og heldur það vera sjálfsagtmál. Er þetta sanngjarnt?

Framtíðin þjóðarinnar byggist á menntun ungu kynslóðarinnar og börnin okkar eru þeirra á meðal.

Kærar þakkir,

17.mars 2006 hátíðarsal HÍ

css.php