Samkynhneigð og trú okkar

Nýlega var birt skýrsla nefndar forsætisráðherra um réttarstöðu samkynhneigðra en þar er þjóðkirkjan m.a. hvött til þess að veita samkynhneigðum pörum kirkjulega hjónavígslu. Síðan skýrslan var birt hefur nauðsynleg umræða um þessi mál orðið aftur virk, jafnt innan kirkjunnar sem utan hennar.

Hér vil ég skýra frá afstöðu minni í þessari umræðu. Ég er þjóðkirkjuprestur og þeirrar skoðunar að samkynhneigðir eigi að fá að ganga í kirkjulegt hjónaband rétt eins og gagnkynhneigðir. Hins vegar virðist mér sem að væntingar nefndarinnar og jafnframt sú gagnrýni sem beinist nú að kirkjunni byggist ekki á trúnni sjálfri heldur fremur hugmyndum um réttindi samkynhneigðra og vil ég hér skýra hvað ég á við.

Mannréttindi, kirkjan og trú

Mannréttindi eru að sjálfsögðu mjög mikilvæg í hverju samfélagi og heiminum öllum. En í eðli sínu er kirkjan ekki mannréttindasamtök heldur trúfélag. Í kristinni trú skarast oft  gildi mannréttinda og trúarleg gildi en þau gildi þurfa samt ekki alltaf að fara saman. Kirkjan viðurkennir til dæmis að önnur trúarbrögð eru til og ber virðingu bæði fyrir þeim og fylgjendum þeirra en tekur samt ekki gildi þeirra inn í sín eigin. Margir prestar og trúmenn hika á sama hátt við að viðurkenna trúarlegt gildi hjónavígslu samkynhneigðra para jafnvel þótt þeir séu jákvæðir í garð samkynhneigðra og talsmenn þess að þeir njóti mannréttinda til jafns við gagnkynhneigða.

Ástæðan er sú þeir telja að Biblían segi okkur að hjúskapur geti eingöngu orðið á milli karlmanns og konu. Þeir álíta að þar sem Biblían er Guðs orð og gefin okkur mönnunum þá sé það ekki í okkar valdi að breyta þeim jafnvel þótt við óskum þess. Þetta er ákveðið viðhorf og ég ber virðingu fyrir því. En um leið er ég ósammála þeim skilningi að Biblían kenni að hjón geti ekki verið af sama kyni.

Munurinn, á afstöðu þeirra þjóðkirkjupresta og trúmanna sem finnst þeir ekki geta viðurkennt hjónaband einstaklinga af sama kyni og afstöðu minnar, felst ekki í því hvort að viðkomandi sé í bókstaflegum skilningi háður Biblíunni eða ekki, heldur hvernig hann skilur og túlkar hana með guðfræðilegum og trúarlegum rökum. Að mínu mati er ekki til neitt sem heitir,  “bókastafleg trú”. Málið snýst frekar um hvernig við túlkum orð Guðs sem færð voru til bókar af mönnum fyrir um 2000 árum og eru þar af leiðandi varla algjörlega hafin yfir menningarleg gildi manna á skrásetningartímanum. Það sem ég tel að við þurfum að gera, er að skilja frá þeim stundum augljósu og þekktu gildum sem bundin eru tíma og rúmi, þau sem eru alveg tímalaus. Í dag verður til dæmis afstaða kirkjunnar til kvenréttinda ekki rakin til bókstaflegs skilnings hennar á Biblíunni heldur fyrst og fremst boðskaps trúarinnar og þá menningarleg gildi nútímans og viðurkennd mannréttindi.

Þegar við ræðum um hvort kirkjan eigi að veita tveimur samkynhneigðum einstaklingum kirkjulega hjónavígslu þá finnst mér að umræðan eigi á sama hátt ekki að einskorðast við bókstaflegan texta Biblíunnar, heldur hvort að gildi hjónabandsins eigi ekki við um allar tvær manneskjur sem vilja gefast hvor annarri, sama af hvoru kyninu þær eru. Ég tel að þau gildi sem kirkjan vill almennt að fólk tileinki sér í parasambandi hljóti að vera æðri einhverri ákveðinni kynjasamsetningu hjónabandsins. Þess vegna finnst mér ekki viðeigandi að vísa til þess í rökræðum  og bera fyrir sig að “Biblían segir…”

Það er vissulega oft þörf á meiri umræðu um það sem stendur í Biblíunni en stundum meiri um það sem hún boðar líkt og þau grundvallaratriði sem gerir hjónaband að sönnu hjónabandi. Guðs orð er kraftmikið og boðskapurinn færir okkur trúarlegan heims- og lífsskilning sem er hafinn yfir tímann.

Kirkjan á móti samkynhneigðum?

Mér þykir leitt ef umræðan þróast í þá átt að almenningur telji að kirkjan sé á móti samkynhneigðum. Það sem við í kirkjunni þurfum að gera er að hætta að líta á málefni samkynhneigðra sem mál sérstaks hóps og ræða það út frá trúnni okkar. Hvað þýðir hjónavígsla í nútímasamfélagi þar sem helmingur hjúskapa endar með skilnaði? Hver eru þau grundvallaratriði sem móta hjúskap og af hverju? Hverjar eru væntingar Guðs til okkar nú í upphafi 21. aldarinnar? Enginn af þessum spurningum varðar samkynhneigða heldur trú  okkar sjálfra án tillitis til kynhneigðar. Við í kirkjunni þurfum að vera minnuig þess hvers vegna Jesús Kristur var krossfestur og vinna í hans anda að því að brjóta niður múra fáfræði og fordóma sem mannfólkið hefur að óþörfu reist á milli sín.

Ég vona að kirkjan fari rétta leið og veiti hjónavígslu samkynhneigðra sína blessun. Það verður hún hins vegar að gera á sínum forsendum, trúarlegum forsendum, en ekki vegna þess að hún finnur sig til þess knúna vegna samfélagslegs þrýstings.

(Prestur innflytjenda, 14. október 2004 Mbl.)

css.php