Spádómsgáfa kirkjunnar og þjóðfélagið

„Er ekki óæskilegt að kirkjan taki afstöðu til þjóðfélagsmála?“ „Það er hættulegt að blanda saman trúarlegri hugmyndafræði og pólitískum málum.“ Spurningar og staðhæfingar sem þessar koma fljótt upp á yfirborðið þegar rætt er um samband kirkju, stjórnmála og samfélagsins og því langar mig að velta yfir þeim vöngum.

Hvað er spádómsgáfa?

Ég er á þeirri skoðun að þjóðkirkjuna skorti spádómsgáfu en hvað er spádómsgáfa? Í stuttu máli má segja að spádómsgáfa sé sú gáfa að sjá fyrir vilja Guðs sem ekki kann að hafa ræst og óska eftir því að sá vilji verði eða eins og við segjum í bæninni Faðir vor: ,,Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.“ Spádómsgáfan leitar því eftir þeim vilja Guðs sem enn hefur ekki birst á jörðinni og boðar hann opinberlega. Það má segja að hún birti manni ,,ófullkomleika“ heimsins og að í huga manns slái niður setningunni: ,,Þetta á ekki að vera svona.” Og svo framarlega sem heimurinn okkar er ekki himnaríki er slík spádómsgáfa sjálfsögð og beinlínis nauðsynleg.

Í kirkjunni megum við reyndar ekki sjá veröldina okkar sem himnaríki. Kristin trú er ekki trú sem er algjörlega háð aðstæðum í veröldinni, hvort sem þær eru góðar eða slæmar. Kristin trú er trú manna sem lifa þessu lífi með gleði og þakklæti einmitt vegna trúarinnar á vilja Guðs, sem við höfum ekki enn í hendi okkar. Það sem fullkomnar heiminn eða tilveru okkar er nefnilega í höndum Guðs, ekki okkar.

Spádómsgáfa gerir greinarmun á raunveruleikanum og því hvernig hann ætti að vera og leiðir okkur í þá átt sem Guð býður. Við viðurkennum t.d. flest kennisetningar eins og ,,allir eru jafnir sem manneskjur“ en á sama tíma vitum við að raunveruleikinn er   annar. Það er hins vegar okkar hlutverk að óska þess að þessi sannleikur verði að staðreynd, sem sagt að láta hann með Guðs hjálp og trú rætast. Spádómur sem þessi er ekki pólitísk stefna kirkjunnar í samfélögum manna heldur í eðli sínu trúarlegt viðhorf til heimsins, bæði á jörðu sem á himni, þrátt fyrir að það kunni að skarast að vissu leyti við pólitísk mál.

Kirkjan og stjórnmál

,,Það er óæskilegt og hættulegt að kirkjan fari að blanda sér í pólitík“. Þessi skoðun er samtvinnuð sögunni og ég er fylgjendum hennar sammála ef átt er við að kirkjan myndi haga sér eins og stjórnmálaflokkur. Ástæðuna fyrir því að fólk í dag hræðist afskipti kirkjunnar af stjórnmálum má ef til vill rekja til stöðu mála á alþjóðavettvangi. Það var gagnrýnt í fjölmiðlum að George Bush Bandaríkjaforseti skyldi beita fyrir sig ,,vilja Guðs“ þegar hann réttlætti árásina á Írak og við gagnrýnum líka hræðilega hegðun ofstækismanna í nokkrum múslimahópum sem m.a. myrða í nafni Guðs.

Slíkt samband á milli trúar og stríðsátaka, er að sjálfssögðu ekki gott en er engu að síður hluti af raunveruleikanum hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hvernig getum við dregið línu á milli almennrar spádómsgáfu trúarinnar annars vegar og misnotkunar trúarlegra hugmynda í stjórnmálum hins vegar?

Hér verð ég að einskorða hugmyndir mínar og skoðanir við kristni. Það má segja að kristin spádómsgáfa virki yfirleitt aðeins fyrir þá sem eru valdalausir og búa við einhvers konar kúgun í samfélaginu. Spádómsgáfan virkar til þess að styðja fólk sem mætir óréttlæti í lífinu, upplifir beiskju og sorg ogþarfnast stuðnings annarra og samstöðu. Jesús sýnir svo glögglega með hegðun sinni sem skráð er í guðsspjöllunum. Spádómsgáfan getur einnig neytt fólk sem þjakað er af yfirlæti, sjálfsdýrkun og sjálfsánægju til þess að iðrast eins og þegar Jónas sendur til Níníves og Natan til Davíðs konungs.

Þeir sem búa við kúgun og misrétti eru ekki alltaf fámennur hópur í samfélaginu þótt oftast sé vísað til þeirra sem minnihlutahóps. Samfélagsvöld eru nátengd því að vera í meirihlutahóp. Ég vil gjarnan vekja athygli á því að í Nýja testamentinu er oftast talað út frá afstöðu minnihluta eða valdalausra. Stór kirkja eins og þjóðkirkjan, sem er meirihluti og hefur jafnframt ákveðið vald í samfélaginu, á að íhuga það vel.

Út frá þessu ætti síðan að vera skiljanlegt hvers vegna sú hugmynd Bush Bandaríkjaforseta um vilja Guðs um að gera árás á Írak flokkast ekki undir spádómsgáfu. Ákvörðun Bush og Bandaríkjastjórnar snérist ekki um annað en að nýta hernaðarlega yfirburði sína gegn minni þjóð. Það var gjörð þeirra sem höfðu mikil völd gegn öðrum völdum. Þess vegna var árásin pólítísk gjörð og hafði ekkert með spádómsgáfu að gera.

Það má oftast kanna hvort spádómsgáfan virki á réttan hátt eða ekki með því að skoða við hverja hún styður, fólk sem býr við kúgun eða misrétti eða þá sem hafa völdin, fólk í minnihlutahóp eða fólk í meirihlutahóp.

Lokaorð

Með þeirri tillögu minni að þjóðkirkjan reyni að styrkja spádómsgáfu sína á ég ekki við að kirkjan eigi beinlínis að blanda sér í stjórnmál heldur að kirkjan viðurkenni hlutverk sitt sem henni var gefið af Guði, ekki af þjóðfélaginu, og að hún beri orð Guðs til samfélagsins svo það megi rata rétta leið. Þurfum við í kirkjunni ekki að velta fyrir okkur því hlutverki?

(Prestur innflytjenda, 17. júlí 2004 Mbl.)

css.php