Staðfest samvist, tvíeggja sverð?

Katrín Jakobsdóttir, alþingiskona og varaformaður Vinstri-grænna, birti skoðun sína í dagblaði 17. ágúst  sl. um mál sem vörðuðu “staðfesta samvist / hjúskap” samkynhneigðra.

Greinin var tímabær að mínu mati af því að mér sýnist talsvert margir misskilja samband milli “staðfestrar samvistar” og “hjónabands” og segja að staðfest samvist sé fullkomlega söm og hjónaband. Það blasir við að sumir nota orð “hjónaband” þegar þeir eru að tala um “staðfesta samvist” í raun. Þess vegna tel ég það mikilvægt að það komi skýrt fram að “staðfest samvist” er eitt og “hjónaband” er annað í íslensku lögum áður en umræðunni verður hugsanlega haldin áfram á Alþingi í haust.

Á undan Katrínu, skrifaði Kolbrún Halldórsdóttir, alþingiskona Vinstri-grænna, þarfa ábendingu og framtíðarsýn í bloggi sínu á 11. ágúst sl. Í skrifunum sínum benti hún réttarlega á mun milli ofangreindra tveggja og galla í núverandi löggjöfum, s.s. í hjúskaparlögum og lögum um staðfesta samvist:

“Það var þó í meginatriðum einungis tvennt sem lögin heimiluðu ekki. Þau heimiluðu ekki kirkjulega vígslu og þau heimiluðu ekki að hjúskapur samkynhneigðra væri kallaður hjónaband. Þar með var ákvarðað með lögum að hommum og lesbíum bæri áfram að vera afmarkaður hópur á jaðri samfélagsins”(www.althingi.is/kolbrunh).

Og Katrín tekur undir með Kolbrúnu: “Um leið varð hins vegar til tvöfalt kerfi sem ekki fær staðist til lengdar”.

Að mínum skilningi er eina átæða þess að lögin vilja aðgreina staðfesta samvist frá hjónabandi sú að þau vilja forðast árekstur í alþjóðlegum samskiptum varðandi gagnkvæma viðurkenningu um “hjón” eða forréttindi sem “hjón” eiga að vera með.

Satt að segja, ef við skoðum aðrar þjóðir í heiminum, framkvæma örfáar þjóðir (t.d. Holland, Belgía, Spánn) sameinuð hjúskaparlög við lög um staðvista samvist. Langflestar þjóðir, sem eru jákvæðar í garð jafnréttis samkynhneigðra, eru með hjúskaparlög sem aðgreina staðfesta samvist frá hefðbundnu hjónabandi. En að sjálfsögðu stendur ástandið ekki í stað. Það má segja að samvistir samkynhneigðra verði að “hjónabandi” hægt en bítandi, a.m.k. í vestur Evrópu löndum.

Mér sýnist hugtakið um “staðfesta samvist” vera tvíeggja sverð. Núna er vígsla staðfestrar samvistar eingöngu fólgin borgaralegum vígslumanni, en viðhorf almennings hneigist til þess að breyta lögum í þá átt að sérhvert trúfélag geti annast vígslu staðfestar samvistar ef það rekst ekki á eigin trúarkenningu. Ef málið þróist á þessa leið, verður það stórt skref til jafnréttis.

Á hinn bóginn er það líka satt að tilvist laga um staðfesta samvist viðurkennir sjálf aðskilnaðarstefnu samkynhneigðra para frá “venjulegum hjónum”. En af hverju verðum við að aðgreina samvistir para af sama kyni frá öðrum hjónaböndum? Er slík aðgreining ekki sú djúp-dulda mismunun gagnvart “hinsegin” fólki? Er hún réttlætanleg sem málamiðlun til þess að geta stigið jákvætt skref fram á við?

Við þjóðkirkjuprestar fáum stöðuga gagnrýni frá samfélaginu vegna þess að umræðunni í kirkjunni um þetta mál er alltaf seinkað og ég verð að viðurkenna að gagnrýnin er réttmæt. Samt langar mig til að segja frá því að hópur presta og guðfræðinga sem vilja styðja líf samkynhneigðs fólks fundar reglulega og eiga einlægar umræður. Um ofangreint atriði: “staðfest samvist eða hjónaband” hefur líka verið rætt mikið. Það eru tvenns konar skoðanir meðal okkar. Annars vegar er sú hugmynd að við skulum ýta á með breytingu á lögum um staðfesta samvist svo að þjóðkirkjuprestar megi annast vígslu samkynhneigðs pars og öðlast þannig sýnilegan ávinning. En hins vegar segja sumir að við skulum krefjast þess að hjúskaparlögin og lögin um staðfesta samvist sameinist og verði aðeins ein hjúskaparlög.

Mig langar til að ítreka það að við prestarnir sem erum í stuðningshópnum viljum allir leggja okkar af mörkum til að ýta á með jafnrétti samkynhneigðs fólks. Munurinn á skoðunum meðal okkar er hvort við eigum að leggja áherslu á að fá að vígja staðfesta samvist í þessum stigi málsins, eða hvort við eigum að leggja áherslu á að fara alla leið til enda án þess að gera málamiðlun í stjórnsýslu þjóðkirkjunnar. Við erum að vinna að málinu svo að hópurinn geti haft jákvæð áhrif á kirkjuþing, sem haldið verður í október og á að fjalla um “staðfesta samvist / hjónaband” fólks af sama kyni, og til þess þurfum við að ákveða hvort við leggjum áherslu á: að vígja staðfesta samvist eða að sameina staðvista samvist og hefðbundið hjónaband.

Persónulega er ég hjartanlega sammála Katrínu í því sem hún sagði í ágætri grein sinni. “Nú lítum við fyrst og fremst á hjónaband sem ákvörðun frjálsra einstaklinga um að eyða ævinni saman. Óháð því hvort sú ákvörðun gengur eftir eða ekki er hún mergur málsins”.

Mér finnst þetta vera réttur áfangastaður allavega hvort sem við förum þangað strax beint eða við komum í aðra höfn á leiðinni.

(Prestur innflytjenda, 21. ágúst 2007 Mbl.)

css.php