Stefna þjóðkirkjunnar og spádómsgáfan

Nú liggur fyrir skýrslan Stefna og starfsáherslur þjóðkirkjunnar 2004-2010 sem er afrakstur stefnumótunarvinnu innan þjóðkirkjunnar sem fram fór á síðasta ári. Stefnumótun sem þessi er ný af nálinni í starfi kirkjunnar og komu að henni hundruð manna, bæði prestar, starfsfólk kirkjunnar og leikmenn. Hún ætti því að endurspegla bæði óskir og almennan vilja þeirra sem vinna innan kirkjunnar og með henni starfa.

Ég fagna þessari mikilvægu stefnumótun og þakka fyrir hana en um leið langar mig að benda í einlægni á atriði sem mér finnst mjög mikilvæg og ég hefði viljað sjá þar.

Kirkjuna skortir spádómsgáfu

Í stefnumótuninni er ekkert fjallað um hvers konar samfélag það er sem kirkjan mun starfa í á næstu sjö árum og þá við hvers konar aðstæður borgarar þess búa. Þar er ekkert fjallað um mögulega framtíð, hvorki heimsins, þar sem stríð og hryðjuverk ógna lífi margra og ofbeldi og misrétti fer vaxandi, né hins íslenska samfélags þar sem m.a. fjölmenning mun óhjákvæmilega verða ríkjandi á komandi árum. Skýrslan er fremur tæknilegs eðlis, ef það má orða það svo, og ekki alltaf hugað að því umhverfi og samfélag sem kirkjan starfar í eða mun starfa í.

Svo ég taki dæmi um þetta get ég nefnt markmið þar sem segir að þjóðkirkjan vilji ,,stuðla að varðveislu íslensks menningar- og trúararfs í samvinnu við stofnanir og aðra er sinna þeim málum,“ sem að sjálfsögðu er gott og gilt. Hins vegar hefði mér fundist eðlilegt, með hliðsjón af þróun fjölmenningar hér á landi, að í skýrslunni væri einnig að finna markmið eins og: ,,Kirkjan vill styrkja við fjölmenningu í íslensku samfélagi og stuðla þar að góðu sambýli ólíkra trúarbragða.”

Almennt þykir mér sem kirkjuna skorti spádómsgáfu í stefnumótuninni, í þeirri merkingu að segja fyrir um hvernig ætla má að íslenskt samfélag þróist á þessu árabili. Það er mikilvægt hlutverk kirkjunnar og raunar sérhvers kristins manns að sjá fyrir þann vilja Guðs sem ekki kann að hafa ræst og óska eftir því að sá vilji verði. Það er spádómsgáfa í stuttu máli og er raunar einn af grunnþáttum trúar okkar, samanber orðin í bæninni Faðir vor: ,,Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.“

Kristin þjóð og þjóðkirkjan

En hvers vegna skyldi vera skortur á slíkri spádómsgáfu við stefnumótunina og jafnvel í þjóðkirkjunni sjálfri? Ástæðan liggur ef til vill í því að lengi vel játaði nánast öll íslenska þjóðin kristna trú og að samfélagið hefur þróast, með hin kristnu gildi að leiðarljósi, í þá átt að almennt er viðurkennd ákveðin verkaskipting á milli burðarása samfélagsins. Þannig hefur þótt við hæfi að einskorða stjórnmál við Alþingi, láta sérstakar stofnanir sjá um framkvæmd velferðarmála og kirkjuna um trúarlegar athafnir. Nú veit ég ekki hvort þessi rök séu gild en ég tel að þetta gæti verið ein ástæða þess að kirkjan hefur að mestu leyti kosið að standa utan við stjórn- og samfélagsmál og taka þar afstöðu.

Það er hins vegar mín skoðun að trú okkar varði öll svið samfélags og mannlífs og hún hefur jafnframt áhrif á viðhorf okkar til heimsins. Kirkjan ætti því að virkja spádómsgáfu sína, skoða samfélagið og reyna að sjá fyrir nánustu framtíð og þá móta hana, t.d. með því að taka afstöðu til hennar eins og hægt er.

Þess eru mörg dæmi í sögunni um að kirkjur hafi tekið afstöðu, mótmælt og barist gegn samfélagsþróun sem ekki var í samræmi við hin kristnu gildu. Þannig hafnaði þýska játningakirkjan nasismanum og svertingakirkjurnar í Bandaríkjunum kynþáttamisrétti og Galíleukirkjan helgaði sig lýðræðisbaráttu í Suður-Kóreu. Þessar kirkjur sýndu heiminum hvaða þýðingu og áhrif kristin trú getur haft. Dæmin eiga samt ekki að sýna “starfssemi kirkjunnar á samfélagssviði”, heldur trú kristinna manna á sjálfa sig og spádómsgáfu kirkna þeirra. Slík spádómsgáfa, sem lyftir sér yfir einstaklingshyggjuna og kemur okkur í samband við raunveruleikann eins og hann birtist í mismunandi samfélögum, skiptir máli. Hér á ég ekki við að ætíð skuli blanda saman trú-og samfélagsmálum sem hljóta samt stundum óhjákvæmilega að skarast. Það sem ég á við er að í trú okkar á Jesú Krist kristallast ákveðið viðhorf til náungans, hvar sem er í heiminum og að tilvera okkar verður ekki aðskilin frá tilveru náungans.
Sögur í Biblíunni Miskunnsami samverjinn eða Matarborðið Jesú við ,,syndara”, fjalla þannig ekki um ,,kærleiksþjónustu kirkjunnar“ eða ,,velferðarþjónustu“ hennar. Þær kenna okkur um trúna sjálfa, það er að leita eftir vilja Guðs og óska eftir að taka þátt í birtingu hans.

Þær spurningar sem við í kirkjunni ættum að spyrja okkur sjálf, í framhaldi af þessari hugleiðingu, eru: Hvernig við lítum á eigin trú okkar, hvaða væntingar við höfum til kirkjunnar og hvernig við viljum iðka trú okkar innan sem utan kirkjunnar?

Lokaorð

Kirkjan og sérhver kristinn maður stendur sífellt frammi fyrir já-i eða nei-i Guðs til heimsins okkar. Spádómsgáfan felst í því að hlusta á þessi já og nei. Ef við erum búin að týna gáfunni verðum við að finna hana aftur.

(Prestur innflytjenda, 4. júlí 2004 Mbl.)

css.php