Þekkir þú nágranna þinn?

Þekkir þú nágranna þinn vel? Hér á ég ekki aðeins við náunga þinn í nágrenni þínu heldur einnig fólk sem þú hittir daglega á vinnustað, íþróttaklúbbi eða annarri reglulegri samkomu. Þekkir þú þá nægilega vel?

Manneskja er stundum mjög flókin og dýpri en við álitum með því að skoða útlit hennar og skilja hana aðeins yfirborðslega. Gerist það ekki stundum að maður sem þú hélst að væri leiðinlegur reyndist vera mjög fyndinn eða kona sem þú taldir vera kurteisa og hlýja var í raun köld og ruddaleg?
Slík upplifun á sér oft stað hjá mér. En til allrar hamingju hefur það gerst svo oft að ég er búinn að læra alveg nóg um lélega hæfileika mína í að dæma manneskju í fljótu bragði. Því reyni ég núna að taka mér góðan tíma áður en ég hef fast álit á manneskju.

En hvernig segjum við til um þegar við mótum álit á einhverri manneskju hvort það sé “í fljótu bragði” eða “í góðan tíma”? Jafnvel þótt við þekkjum mann “í góðan tíma”, þekkjum við mann ekki vel: slíkt gerist. Er það ekki?

Mig langar að draga fram öfugt sjónarhorn. Hvernig þekkja nágrannar mínir mig í raun? t.d. í vinnu?Ég velti því fyrir mér og íhuga það. Ég giska á að þeir sjái mig eins og t.d.: ,,Toshiki talar ekki mikið og segir engan brandara. Hann er ekki skemmtilegur maður. Hann eyðir ekki hádegistíma sínum með öðru starfsfólki. Hann vill ekki samskipti við aðra“.Þetta eru skiljanlegar ályktanir og ég ætla ekki að mótmæla þeim.
Það er samt eitt hvernig maður litur út fyrir að vera og annað hvernig maður er í raun og veru. T.d. um mig sjálfan get ég sagt eftirfarandi. Fyrst og fremst finnst mér erfitt að tala íslensku. Ég þarf að einbeita mér að því að skilja hvað fólk segir og því er mér alltaf seinkað við að segja frá mér. Margar fyndnar hugmyndir koma líka upp í huga minn í samtölum við fólk, en á meðan ég er að reyna að þýða þær á íslensku, missi ég tækifæri til að segja frá þeim. Spjall í kaffitíma er jafnt erfitt fyrir mig, þar sem fólk byrjar að tala hitt og þetta á eigin forsendum og oftast skortir mig sameiginlegan ,,gagnagrunn“(saga Íslands, upplýsingar um ákveðið fólk o.fl.).

Þetta eru allar persónulegar afsökunar mínar en hjá okkur innflytjendum hlýtur að vera sameiginleg staða að nokkru leyti. Íslendingar munu upplifa það sama stundum í útlöndum. Ég þekki íslenska konu sem er mjög málgefin en hún fékk gælunafnið ,,den tystlåtna“(hin þögula) fyrsta árið í Svíþjóð!

En að vera innflytjandi á Íslandi er bara hluti lífs míns og margir aðrir innflytjendur munu segja sömu sögu. Ég sé ekki altaf sjálfan mig sem innflytjanda og vil ekki að fólk sjái mig eingöngu sem innflytjanda. Sömuleiðis þarf ég – þurfum við – að passa mig að skilgreina ekki mig einungis sem innflytjanda, líkt og hætt er við að líta fólk með fötlun aðeins sem ,,fatlað“ eða samkynhneigða aðeins sem ,,samkynhneigt fólk“. Þá förum við fram hjá persónuleika, og dýrmæti sérhverrar manneskju, náunga okkar.

En hvað um þetta þá? Ef við sjáum bara útlit náunga okkar og yfirborðslega framkomu hans, munum við ekki fá að þekkja hann vel. Ef við stækkum aðeins nokkurt einkenni náunga okkar og flokkum hann í ákveðna staðalmynd, þá förum við fram hjá persónuleika hans. Hvað eigum við að gera ef okkur langar að þekkja náunga okkar almennilega og kynnast honum?

Mismunandi svör hljóta að vera til, en ég myndi segja að það er mikilvægast að hafa áhuga á náunga okkar. Ef þetta er ekki nógu skýrt, þá mætti m.ö.o. segja að hlusta á hann. Að mínu mati eru bestfarnar þrjár leiðir til að þekkja náunga okkar, í fyrsta lagi að hlusta á hann, í öðru lagi að hlusta á hann og í þriðja lagi að hlusta á hann. Að hlusta er eina leiðin þar sem innri-persónuleiki náungans streymir til okkar.

Hefurðu einhvern náunga í kringum þig sem þig langar að kynnast betur? Þá prófaðu að reyna að hlusta á hann fimmtan mínútur á hverjum degi í eina viku! Og endilega láttu mig vita hvernig það gengur!

(Prestur innflytjenda; 10.júní 2011 Trú.is)

css.php