Þjóðkirkjunni er umhugað um flóttafólk

Það var farið að dimma í bænum Marsta nálægt Uppsölum í Svíþjóð þegar fulltrúar íslensku þjóðkirkjunnar komu í heimsókn nú fyrir jólin. Fyrir utan bæinn var gamalt hús sem áður var heimavistarskóli. Húsið stendur enn því þrjár kristnar konur keyptu skólann og ákváðu að gera heiminn aðeins betri.

Það var ljós í öllum gluggum og hlýlegt heim að líta. Dyrnar eru aldrei læstar hér. Í forstofunni voru ótal skópör í öllum stærðum, snjógallar, húfur og vettlingar og smám saman birtust andlit af stórum og smáum, börnum og fullorðnum, svörtum og hvítum og allt litrófið þar á milli.

Íslensku gestirnir voru komnir í heimsókn þar sem flóttafólk alls staðar að úr heiminum átti skjól. Þau voru ekki öll lögleg í landinu, en þau fengu að borða, þeim var hlýtt og þar ríkti kærleikur. Fólk var ekki spurt um þjóðerni og ekki beðið um vegabréf.

Stutta heimsóknin minnti gestina á óbreytanlegan sannleikann: Við búum öll á einni jarðarkúlu. Við eigum hana sameiginlega og það voru manneskjur sem fundu upp landamæri. Landamæri eru ekki náttúruleg, nema kannski hér á Íslandi af því við búum á eyju. Við sem búum á þessari jörð erum öll á sama báti. Við erum öll af holdi og blóði. Við eigum okkar sorgir og gleði. Við eigum öll djúpar tilfinningar, sem geta verið sárar, en líka fylltar svo óumræðilegri gleði.

Því miður ríkir ekki alls staðar friður á jarðarkúlunni okkar og því er skiljanlegt að fólk vilji flýja ófriðinn. Þess vegna finnst okkur að við eigum að taka þeim sem vilja flýja ófrið og annan ófögnuð opnum örmum. Okkur finnst ekki sæmandi að senda vegabréfslaust fólk orðalaust í fangelsi. Við eigum að virða það eins og okkur sjálf.

Frelsarinn á flótta og kirkjan hans

Fyrir tveimur árþúsundum fæddist í Betlehem barn í fátækt. Þetta barn bjó við ógn og ofsóknir. Það þurfti að leggja á flótta undan ofríki ungt að árum.

Hann þekkti það að vera flóttamaður. Hann var ekki með neitt vegabréf. Til þess að skilja líf frelsarans sem heild er það því ómissandi þáttur að skoða þann hluta ævi hans.

Þess vegna er það nægileg ástæða til að íslenska þjóðkirkjan vill láta sér annt um flóttafólk. Prestur innflytjenda hefur verið starfandi við Þjóðkirkjuna síðan 1996 og hann sinnir fólki hvaðan sem það kemur og spyr hvorki um trúarbrögð né vegabréf.

En kirkjan vill gera betur. Á Prestastefnu Íslands, sem haldin var á Ísafirði í júní 2014, bar biskup Íslands upp tillögu að svohljóðandi ályktun: „Prestastefna haldin á Ísafirði 10.-12. júní hvetur til þess að biskup standi fyrir ráðstefnu þar sem fjallað yrði um málefni hælisleitenda. Yrði sú ráðstefna haldin í samvinnu við innanríkisráðuneytið, RKÍ og Útlendingastofnun. Ráðstefnan yrði haldin næsta vetur.“ Tillagan var samþykkt samhljóða.

Staða flóttafólks í heiminum í dag er geigvænleg og fréttir af stjórnlausum skipum á Miðjarðarhafi bera vott um ótrúlega mannvonsku og fégræðgi. Talið er að um 52 milljónir manna séu á flótta í heiminum í dag og hefur þeim fjölgað gríðarlega, en í lok ársins 2013 var flóttafólk sem flúði eigið land um 16 milljónir og flóttafólk sem var á vergangi í eigin landi var um 33 milljónir.

Árið 2013 sóttu 172 um hæli á Íslandi og í lok ársins 2013 voru 56 umsóknir í vinnslu. 110 manns fengu synjun, en 12 fengu hæli. Brottvísanir vegna Dyflinnar-reglugerðarinnar voru 59. Þessar tölur segja mikla sögu, sögu af fólki sem á hvergi höfði sínu að halla.

Hlutverk kirkjunnar

Við undirrituð viðurkennum þá staðreynd að Þjóðkirkjan hefur ekki sinnt flóttafólki nægilega hingað til, en hún vill gera betur. Við viljum gjarnan þjóna flóttafólki meira en verið hefur, en ætlun okkar er alls ekki að vera í samkeppni við aðra aðila, heldur taka þátt í því að gera gott í samvinnu við þau sem nú þegar vinna að málefnum flóttafólks. Það viljum við gera með því að veita flóttafólki þjónustu bæði á kirkjulegum grundvelli og mannúðlegum grundvelli.

Meðal flóttafólks er margt kristið fólk, sem hefur áhuga á að vinna á kirkjulegum vettvangi, og því er mikilvægt að kirkjan veiti því andlegan stuðning, svo og praktíska aðstoð. En á sama tíma gerum við okkur fulla grein fyrir því að fólk sem ekki er kristið er jafn mikilvægt í kirkjunni. Því mun kirkjan standa fyrir samverustundum í ákveðnum söfnuðum á höfuðborgarsvæðinu fyrir allt flóttafólk óháð trúarlegum bakgrunni.

Þátttaka fólks í söfnuðum er mikilvæg og raunar skiptir hún miklu máli. Samskipti milli kirkjufólks og flóttafólks eiga ekki að vera einstefna, heldur gagnkvæm þar sem báðir hópar njóta samfélags hvor við annan. Fólk í kirkjunni getur lært mikið af því að kynnast flóttafólki og lífsreynslu þess.

Og um leið munum við staðfesta þann mikilvæga sannleika: að við erum öll sömu jarðarbúar þó að við séum ólík á ýmsan jarðneskan hátt. Og við erum „við“ í djúpum tilvistarlegum atriðum, en ekki „við“ og „þeir“. Það er mikilvægt hlutverk kirkjunnar að viðhalda þessum sannleika í hvíventa í þjóðfélagi okkar.

(Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup í Hólum
og Toshiki Toma, prestur innflytjenda, 4.febrúar 2015 MBL. )

css.php