Þörf fyrir samtök innflytjenda á Íslandi?

ÞAÐ er mjög eðlilegt í þjóðfélaginu að fólk sem á ákveðna hagsmuni sameiginlega myndi með sér sérstök samtök eins og stéttarfélag. Einnig gæta samtök eins og t.d. Samtökin 78 eða Femínistafélag Íslands ákveðinna hagsmuna sinna.

ÞAÐ er mjög eðlilegt í þjóðfélaginu að fólk sem á ákveðna hagsmuni sameiginlega myndi með sér sérstök samtök eins og stéttarfélag. Einnig gæta samtök eins og t.d. Samtökin 78 eða Femínistafélag Íslands ákveðinna hagsmuna sinna. Núna heyrist oft spurning frá bæði innflytjendum og Íslendingum um hvort innflytjendur hér á landi eigi ekki að móta svipuð samtök fyrir sig.

Það eru til nú þegar ýmis samtök sem varða innflytjendur í þjóðfélaginu. Mannréttindasamtök innflytjenda og fjölskyldu þeirra eða Fjölmenningarráð vinna virkilega með réttindamál útlendinga, en fyrrnefnt er leitt af Íslendingum og síðarnefnt er “ráð” en ekki samtök í eðli sínu. Fólk frá Tælandi, Filippseyjum o.fl. mótar félag fyrir sig en hingað til eru engin samtök til á Íslandi, sem ná til allra innflytjenda.

Mismunandi aðstæður innflytjenda

Eru slík samtök nauðsynleg í raun og ef svo er, hver er ástæða þess? Hverjir eru sameiginlegir hagsmunir innflytjenda? Þessari spurningu eru alls ekki auðsvarað, þar sem við innflytjendur erum ekki eins.

Í fyrsta lagi er réttarstaða útlendinga í íslenskum lögum mismunandi í raun. Hugsum um dvalar- og atvinnuleyfi, sem er mikilvægasta atriðið ef útlenskur maður vill búa á Íslandi. Eins og vel er kunnugt eru t.d. Norðurlandabúar með næstum sömu réttindi og Íslendingar. Útlendingar frá Evrópska efnahagssvæðinu mega koma til landsins án dvalarleyfis og leita að vinnu í sex mánuði. Þeir þurfa dvalarleyfi ef þeir hyggjast vera hér lengur, en þurfa ekki atvinnuleyfi til þess að starfa á Íslandi. Harðastar kröfur eru settar á útlendinga utan EES og þeir verða að öðlast dvalar- og atvinnuleyfi áður en þeir koma til landsins. Auk þess er nauðsynlegt að uppfylla grunnskilyrði fyrir dvöl, sem eru framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði. Það tekur a.m.k. fjögur ár að öðlast rétt til að sækja um búsetuleyfi (græna kortið) og lögfræðilega getur manni verið hent út ef hann fullnægir ekki einu af þessum skilyrðunum á meðan.

Málið verður flóknara þegar við teljum maka Íslendinga, því að þeir eru með sérréttindi og mega byrja að starfa án atvinnuleyfis og eiga einnig auðveldara en aðrir með að öðlast græna kortið. Ég forðast að gera málið flóknara með því að minnast á flóttamenn eða fráskilið útlenskt fólk hér.

Auk ofangreinds er líka munur til utan lagakerfis vegna svokallaðra “kynþátta” eða þjóðernis. Hvítur bandarískur maður og ó-hvítur maður frá þriðja heiminum standa jafnt í lögfræðilegu tilliti, en oftast eru þeir ekki í sömu aðstæðum varðandi fordóma eða mismunun vegna “kynþáttar” síns. Ég er nýbúinn að heyra kvörtun fólks frá Asíu og Afríku nokkrum sinnum um að aðstandendur þess geti ekki fengið leyfi til að koma til landsins þótt þeir uppfylli öll skilyrði í lagakröfum. Ef slíkt gerist í alvöru, er það ekki aðeins brot á lögum heldur líka skammarlegir fordómar. Einnig megum við ekki gleyma mun milli karlmanna og kvenna hvaðan sem þau eru.

Ef aðstæður innflytjenda eru í reynd svona mismunandi, hvernig getum við þá komið fram “hagsmunum” innflytjenda? Getum við sagt skýrt svo sem “þetta eru sameiginlegir hagsmunir innflytjenda”?

Ef við innflytjendur mótum hagsmunasamtök núna sem þýða eitthvað í raun, munu þau verða að vera eins og “samtök útlendinga utan EES”, “stuðningssamtök fyrir innflytjendur til að kalla aðstandendur sína frá heimalöndum” eða “samtök innflytjendakvenna gegn heimilis- og félagslegu ofbeldi”.

“Samtök innflytjenda” aðeins er alltof óljóst hugtak að mínu mati.

Mismunandi lög í einu þjóðfélagi?

Ástæða þess að ég birti skoðun mína er ekki að vera á móti hugmynd um samtök innflytjenda, heldur að benda á nauðsynlegt ferli til að fara yfir fyrir okkur innflytjendur. Mér sýnist að enn sé mikið verkefni eftir fyrir okkur innflytjendur.

Persónulega er ég ekki hrifinn af þessari hugmynd, að aðskilja innflytjendur frá Íslendingum. Mér finnst betra ef við þurfum ekki að móta sérstök samtök útlendinga og við öll, Íslendingar og innflytjendur, getum unnið saman í þjóðfélaginu. En ef það gengur ekki, þá þurfum við innflytjendur að viðurkenna skýrt hver þörf er fyrir samtökin.

Ég vil að Íslendingar hugsi einnig um eitt atriði í þessu samhengi. Um daginn hlustaði ég á lögfræðing frá Frakklandi á ráðstefnu. Hún sagði: “Í gamla daga voru mörg lög til í einu þjóðfélagi í Evrópu. Aðalsstétt átti sín eigin lög, og aðrar stéttir sömuleiðis. Það tók þúsund ár að Evrópubúar kæmust að hugtakinu sem er: “allir jafnir fyrir lögum”.”

Engu að síður sýnist mér að Evrópuríki séu að byrja að nota mismunandi lög aftur, eins og lög fyrir innfædda borgara, lög fyrir Evrópubúa og lög fyrir innflytjendur frá þriðja heiminum. Ég óttast að við töpum aftur hugtakinu “jafnrétti fyrir lögum”.

Mér finnst þetta vera mjög umhugsunarverð orð fyrir okkur öll, bæði fyrir innflytjendur og fyrir Íslendinga. Á að fara leið eins og lögfræðingurinn lýsir á Íslandi líka? Ef það er satt, verður þörf fyrir samtök innflytjenda óhjákvæmileg.

(Prestur innflytjenda, 6. september 2003 Mbl.)

css.php