Tilfinning, fordómar og samkynhneigð

Tilfinningaleg tengsl og fordómar

“Þú skalt ekki morð fremja”. Flest okkar eru kunnug þessu boðorði Guðs. Þetta kennir okkur í fyrsta lagi bókstaflega að við megum ekki drepa aðra manneskju. Í öðru lagi þýðir það að við skulum ekki taka þátt í tilraun til morðs í samfélaginu, eins og t.d. stríði. Í þriðja lagi getum við túlkað boðorðið þannig að við megum ekki drepa aðra manneskju andlega eða félagslega með því að útiloka eða deyða persónuleika hennar frá samskiptum og virðingu samfélagsins. Þegar við tökum meðvitaðan þátt í slíkri “útilokun” kallast það einelti eða fordómar, og þegar slíkt er gert ómeðvitað getum við kallað það “afneitun á tilveru manneskju” eða “sinnuleysi”. Allt þetta eru andstæður kærleika.

Skoðum betur “útilokun” persónuleika annarra. Þegar við útilokum persónuleika annars fólks úr lífi okkar byggir það fyrst og fremst á skorti á tilfinningalegum samskiptum við viðkomandi. Þegar t.d. einelti eða mismunun á sér stað á milli manna reynir gerandi slíks meðvitað að hætta að skilja tilfinningar þolenda.  Tilfinningaleg samskipti og tengsl trufla framkvæmd eineltis eða mismununar.

Ef tilfinningalegt samskiptaleysi á sér stað ómeðvitað veldur það hins vegar fyrst og fremst sinnuleysi og virðingaleysi gagnvart öðrum. M.ö.o. ég er þess fullviss að hægt sé að minnka fordóma og draga úr sinnuleysi með því að hvetja til ríkari tilfinningalegra samskipta og tengsla á meðal ólíkra manna.

Á þennan hátt met ég jákvætt hlutverk tilfinninga manna í forvarnarstarfi gegn fordómum. Engu að síður er venjulega talað um fordóma nær eingöngu út frá sjónarmiði mannréttinda eða samfélagsfræða. Við gleymum oft og fylgjumst lítið með hinum tilfinningalega þætti í þessum málum.Við fjöllum alvarlega um tilfinningar manna t.d. í ástarmálum eða í sálgæslu fyrir syrgjendur. Aftur á móti er það fastheldin fagleg stefna víða hjá læknum, prestum, félagsráðgjöfum o.fl. að “fagfólk á ekki að lenda í tilfinningalegum samskiptum eða fara yfir á tilfinningalegt svið skjólstæðinga”. Þetta er alveg rétt á takmörkuðu faglegu starfssviði.

En gætum að.  Það að skilja tilfinningar mannanna er eitt, það að hníga niður í þær eða týnast í þeim er annað.  Tilfinningaleg tilvist okkar er sterkasti þráðurinn sem tengir eina manneskju við aðra. Með því að hvetja til tilfinninglegra samskipta geta menn hlotið mannlegt innsæi og virðingu sem fæst ekki í samfélagsfræðilegri umfjöllun. Með því að skilja tilfinningar annarra getum við lært af öðrum og tileinkað okkur mál þeirra  sem okkar eigin mál. Þannig getur tilfinning orðið ómótstæðilegur kraftur til að þenja út veggi og takmörk skynseminnar og ýta manni til nýs skilnings. Ég segi ekki að tilfinningaleg samskipti leysi alla fordóma í samfélaginu, en samt held ég að við ættum að endurmeta almennilega hlutverk tilfinninga í þessum málum.

Kirkjan og fordómar

Innan kirkjunnar er enn að finna mikinn misskilning og fordóma í garð samkynhneigðra. Annars vegar vinna margir í kirkjunni með þetta málefni og leggja sitt af mörkum til að byggja upp nýtt og sanngjarnt viðhorf til samkynhneigðra.  Það  eru hins vegar margir sem næstum sjálfkrafa dæma samkynhneigt fólk sem syndara, án þess að gera nokkra tilraun til að skilja tilfinningar þeirra. Flestir eru þó líklega afstöðulausir og ég var sjálfur einn þeirra lengi. En fyrir ári síðan kynntist ég samkynhneigðu fólki og byrjaði að skilja tilfinningalega hlið þessa máls. Stig af stigi er það orðið mál sem snertir skilning minn á náunganum, en ekki bara eitt af mörgum málefnum innan guðfræði.

Hver er munurinn frá því sem var, áður en ég kynntist samkynhneigðu fólki sjálfur og eignaðist það að vinum? Ég græt ekki þegar ég les bækur um guðfræði, en ég get grátið vegna náunga míns.  Ég get haft tilfinningu sameiginlega með náunga mínum, þ.á.m. sorg, reiði, gleði, ást og von. Þegar kirkjan kennir okkur að við skulum elska náunga okkar, er “náungi” ekki bara skilgreining í bók, heldur tiltekin manneskja með eigið nafn, einkasögu og tilfinningar. Náungi minn eða þinn er lifandi heildarpersónuleiki, og kynhneigð er órjúfanlegur hluti þeirrar heildar. Málefni kristinnar trúar, hvert sem það er, má aldrei gleyma þessu grundvallaratriði og viðurkenningu. Ef þetta gleymist og of mikil áhersla er lögð á trúarleg óhlutbundin rök eigum við á hættu að ganga fram hjá persónuleika náunga okkar og fyrirlíta hann. Er það t.d. ekki hræðilegt ef einstaklingur, sem vanalega þykir bera af í fallegri og manneskjulegri framkomu, verður fyrir aðkasti og vanþóknun út af ást sinni? Sönn ást í lífi manneskju er heilög. Hún er ekki smáatriði eða hliðarspor sem aðrir geta gefa sér vald til að þykjast “lækna” eða “leiðrétta”, til þess eins að hún passi hugmynd meirihlutans. Auk þess hugsar þessi meirihluti í slíkum tilfellum nær aðeins um kynferðislegt samband samkynhneigðra, en ekki um ást þeirra. Er slíkt viðhorf virðulegt í nafni Jesú Krists?

Kirkjan hefur afneitað samkynhneigðu fólki lengi með því að dæma það og útiloka frá því sem telst “normal”. Kirkjan hefur aldrei verið fullkomin stofnun í sögu okkar, heldur er hún síbreytilegt félag trúaðra sem er í þróun. Mér skilst að síðustu ár hafi átt sér stað mikil breyting innan kristinnar siðfræði á jákvæðan hátt fyrir samkynhneigða. En því miður virðist þjóðkirkjan hins vegar ekki fylgja á eftir með breyttri afstöðu.  Mikil umbót hefur átt sér stað á sviði aukinna mannréttinda fyrir samkynhneigða, en skilningur á meðal kristinna manna fylgir þar oft ekki að málum.

Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir ófullkomleika okkar. En við þurfum að skammast okkar ef við viðurkennum ekki eigin galla og skort. Ef við höldum áfram að dæma saklaust fólk meiri syndara en okkur sjálf, og útilokum það beinlínis eða óbeinlínis frá umföðmun kirkjunnar, munu viðhorf kirkjunnar verða dæmd hin raunverulega synd. Því að það er synd að láta fordóma gagnvart náunganum viðgangast af sinnuleysi. Núna er tíminn fyrir kirkjuna að taka næsta sýnilega skrefið í þessum málum.

(Prestur innflytjenda, 13. júlí 2002 Mbl.)

css.php