Tímamót í innflytjendamálum á Íslandi

Hið umdeilda frumvarp um breytingu á útlendingalögum var samþykkt á Alþingi í apríllok og er nú orðið að lögum. Þrátt fyrir mikil mótmæli gagnvart ýmsum atriðum frumvarpsins, eins og t.d. aldurstakmörkum fyrir veitingu dvalarleyfis fyrir maka Íslendinga (24 ára reglu) eða lífsýnatöku innflytjendafjölskyldu, voru breytingar á frumvarpinu með minnsta móti. Þó má segja að frumvarpið hafi aðeins verið samþykkt til hálfs fyrst atkvæði skiptust til helminga milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

1. Þverpólitísk hreyfing

Það sem mig langar að benda hér á varðar ekki frumvarpið beint heldur nýtt fyrirbæri sem hefur birst í kringum það. Fyrst og fremst vil ég nefna þverpólitíska hreyfingu. Undirskriftasöfnun sem Fjölmenningaráð og samtök kvenna af erlendum uppruna hófu, þróaðist í óvænta og jákvæða átt. Ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka tóku þátt í söfnuninni ásamt mörgum vefritum sem eru vakandi í þjóðmálaumræðu. Safnað var fjögurþúsund undirskriftum og það á aðeins viku. Á sama tíma skrifuðu margir um málið í ýmsa fjölmiðla. Sem einn af skipuleggjendum og innflytjendum vil ég hér þakka þennan stuðning.

Mér hefur verið sagt að þetta sé í fyrsta skipti sem ungliðahreyfingar allra flokka sameinast um eitt málefni. Þetta eru því tímamót fyrir þær.

Eins tel ég mikilvægt að muna að Íslendingar og innflytjendur tóku þarna höndum saman á jafnrétttisgrundvelli.

2. Framtíðarsýn i málefnum innflytjenda

Varðandi framtíð umræðu um málefni innflytjenda er okkur hollt að muna að þau tilheyra ekki einum einstökum stjórnmálaflokki heldur eru þau í grunninn þverpólitísk. Innflytjendur standa víða í stjórnmálum en málefni þeirra tengjast mannréttindum, ýmsum hagsmunum íslensks þjóðfélags og ganga þvert á stjórnmálastefnur. Þverpólitísk undirskriftasöfnun sýndi okkur fram á það.

Öll málefni innflytjenda varða bæði Íslendinga og innflytjendur og verður umfjöllun að vera á jafnréttisgrunni. Mikilvægt er að kalla fulltrúa innflytjenda til umræðna, t.d. þegar um er að ræða menntamál eða atvinnuréttindi. Annars er hætta á að innflytjendur taki aldrei virkan þátt eða telji sig geta lagað sig að þjóðfélaginu hér.

3. Ekki lengur mállaust fólk

Síðast en ekki síst finnst mér glæsilegt að innflytjendur skuli hafa sýnt frumkvæði og látið til sín heyra. Fjölmenningaráð og Samtök kvenna af erlendum uppruna voru talsmenn frá upphafi. Ýmsir aðrir komu þar að, eins og Filiippínsk-íslenska félagið, Félag Nígeríumanna og Félag Víetnama. Tíminn mun leiða í ljós hvort þetta skref til þáttöku félaganna er varanlegt. Við erum vissulega á leið frá málleysi til þátttöku í lýðræðsiþjóðfélagi. Þar mun eftir sem áður gæta gagnrýni og hróss um ýmislegt sem fyrir er, við viljum sýna ábyrgð okkar í samvinnu að bættu samfélagi þar sem við búum núna.

Innflytjendamál hér á landi eru á tímamótum. Ég vona að þessi tímamót boði betri framtíð handa Íslendingum og innflytjendum.

(Prestur innflytjenda, 21. maí 2004 Mbl.)

css.php