Vantar ekki Blogg-siðferði?

Eins og við öll vitum, hafa möguleikar hins almenna borgara á að tjá sig þróast mjög hratt með tilkomu netmiðla undanfarin ár. Margir virðast taka þátt í því á einhvern hátt, eins og t.d. á spjallrásum vefsíðna, a blogg-síðum eða með fjöldasendingum í tölvupósti. Það er því óhætt að segja að tjáningarfrelsið blómstri.

Tjáning í netmiðlum virðist þó ólík þeirri sem fer fram dagblöðum og sjónvarpsþáttum. Samskiptamátinn virðist vera einhvers staðar á milli opinberra samskipta og persónulegra, formlegra og óformlegra enda staða miðilsins og markhópur hvers og eins þeirra oft óljós. Stundum er það opinber fjölmiðill, stundum heimasíða stofnunnar og stundum einstaklings eða hópa.

Mér finnst eðlilegt að með þessum miðlum sé meira siðferðislegt aðhald og eftirlit.

Ástæða þess að ég hef máls á þessu er sú að ég hef tekið eftir að það er talsvert um það, og það er mein á tjáningarfrelsinu, að ómálefnalegar árásir á einstaklinga eigi sér stað í netmiðlum. Sem dæmi má nefna að ég fann um mig sjálfan ummæli á nokkrum vefsíðum eins og ,,Toshiki segist finna engin virði í íslenskri menningu“, ,,Hann vill leggja niður íslenskt mál af því að hann telur það vera kúgunartæki“.

Ég verð að telja að ummælin séu ekki tómur misskilningur heldur meðvituð þegar ég skoða þau í samhengi. Slíkt virðist koma fyrir fleiri og er ekki alltaf persónulegt. Málið er að slíkt er gert án vitundundar viðkomandi. Ég fékk nokkrum sinnum svipuð skeyti sem að mínu mati eru alröng, í dagblaði, en a.m.k. hafði ég möguleika á að svara þeim, þar sem þær voru opinberar. En hvernig getur maður leiðrétt misskilning annarra eða svarað persónulegum skoðunum eins og t.d. á bloggi? Á meðan geta saklausir lesendur netsins talið að vitlaus ummæli séu réttmæt.

Fyrir utan meðvitaðan hug einhvers annars til manns og málefnis, getur það átt sér stað líka að maður skrifar vanhugsuð ummæli inn á netið í tilfinningalegu uppnámi og sem samstundis viðbrögð við því sem maður hefur þar lesið eða annars staðar. Satt að segja er ég líka sekur sjálfur um það, þar sem ég gerði slíkt nokkrum sinnum en hef það nú fyrir reglu að ígrunda vel það sem ég set inn á netið. Það verður ekki syndaaflausn en a.m.k. bað ég viðkomandi afsökunar á sama hátt og ég sendi út afsökunarbeiðni þar sem ég sagði frá mistökum mínum. Ég ætla því ekki að ásaka annað fólk í þessum málum heldur vil ég eingöngu spyrja hvort ekki sé tímabært að móta einhvers konar siðareglur á sviði netsamskipta og miðla.

Sjálfur hef ég lausnirnar ekki á takteinunum og vil endilega heyra skoðanir fólk sem er vel að sér um réttindamál, tjáningarfrelsi og siðferði í fjölmiðlum. Vonast til þess að heyra í einhverjum.

(Prestur innflytjenda, 28. júní 2006 FrB.)

css.php