Er fleira fólk inni í skáp?

Páll Óskar Hjálmtýsson var í viðtali í sunnudagsblaði Moggans þann 12. maí sl. Þar sagðist hann vilja að gerð yrði rannsókn á því hvort hinsegin fólk á Íslandi sé raunverulega hamingjusamt og í hverju sú hamingja felist.

Hann tók upp þetta mál í samhengi við stöðu samkynhneigðra hérlendis en hann telur að enn séu margir sem lifi með samkynhneigð sína “inni í skáp”. Með því á Páll Óskar við að sumir feli kynhneigð sína, eignist maka af gagnstæðu kyni og fjölskyldu og lifi þannig tvöfaldu lífi í skápnum, sem samkynhneigt fólk í búningi gagnkynhneigðar.

Ég hef hugsað samskonar mál um liðan innflytjenda þessa daga eftir hryðjuverkið í Boston. Bræður sem frömdu þann glæp voru innflytjendur í Bandaríkjunum. Yngri bróðirinn sagði að þeir hefðu verið í mikilli einangrun og þessi einmanakennd virðist hafa haft hvetjandi áhrif á að hryðjuverkin voru unnin. En það er athugavert að samkvæmt fréttum sögðu vinir þeirra allir að bræðurnir hefðu notið mikils félagsskapar. Voru þeir e.t.v. ,,í skápnum“ líkt og því sem Páll Óskar lýsir í öðru samhengi?

Liðan innflytjenda á Íslandi

Ég tel að það séu nokkur atriði sem gera aðlögun innflytjenda á Íslandi torvelda. Mig langar að segja frá þeim af minni eigin reynslu. Það er mikilvægt að hafa í huga að innflytjendur eru ekki eins, og það sem ég bendi hér á er aðeins tilhneiging í lífi innflytjenda.

Fyrsta hindrunin er íslenskt tungumál. Eins og margir innflytjendur get ég bjargað mér á íslensku í hversdagslífinu. En ég næ aldrei á það stig þar sem ég get stjórnað íslensku eins og móðurmáli mínu. Tjáning á íslenskri tungu er stöðugt takmarkandi fyrir mig. T.d. gafst ég upp fyrir löngu að segja brandara á íslensku. Þó að mér detti í hug eitthvað fyndið, hef ég ekki tök á að tjá það á íslensku tímanlega. Ég hlýt að líta út fyrir að vera þegjandi og alvarlegur maður. En þegar ég tala við Japana, hlæ ég kannski fimm sinnum meira en þegar ég tala við Íslendinga.

Önnur hindrunin er sú staðreynd að innflytjendur eiga ekki eins mikið sameiginlegt og Íslendingar eiga hver með öðrum. Æskuvinir, upplifun í skólalífi, saga í þjóðfélagi o.fl. Eitthvað sem allir Íslendingar eiga sameiginlegt, og oft eigum við innflytjendur ekki. Aðstæðurnar þar sem ég finn þetta mest er þegar ég fer á samkomu eins og prestastefnu. Prestastefna er, að nokkru leyti, samkoma bekkjarbræðra og systra og mér liður þar alltaf eins og utangarðsmanni. Þetta kallar náttúrulega yfir mig nokkurskonar einmanakennd.

Ég held að þessi atriði gildi einnig um marga aðra innflytjendur, þó að ekki alla. Í þessum kringumstæðum getur maður byrjað að fela sig inni í skáp. Eða ef til vill er réttara að segja að maður sé settur í skáp af kringumstæðunum. ,,Ég er ekki svona maður eins og fólk í kringum mig telur!“ Ég tel að margir innflytjendur upplifi þessar hugsanir.

Er fleira fólk inni í skáp?

En ef við veltum málinu vel fyrir okkur,  verðum við að viðurkenna að þetta getur gerst hjá sérhverjum manni í samfélaginu, ekki aðeins hjá tilteknum hópi eins og innflytjendum, að einangrast í skápnum. ,,Þetta er ekki sannur ég“:  Ég held að það séu fleiri sem lifa inni í skáp með tilfinningar sínar en við höldum.

Latneska orðið ,,persona“ þýðir gríma sem leikari notar í leiksýningum. Að lifa í samfélagi getur krafið mann, meira eða minna, þess að fela sjálfan sig undir grímu.

Ég nefndi áðan atriði sem getur ýtt innflytjendum inn í skápinn, út frá eigin reynslu. Þegar ég skoða málið dýpra út frá sjálfum mér, get ég ekki fullyrt að ég myndi aldrei vera í skápnum jafnvel þó að ef ég hefði búið í Japan. Líklegast væri það einhver önnur orsök sem myndi ýta mér inn í skápinn. Raunar er það þannig þegar ég er í Japan í fríi, byrja ég að sakna Íslands í hvert skipti eftir nokkurn tíma.

Það sem er erfitt þegar við horfum til einmanakenndar innflytjenda og vanlíðan þeirra er að við getum ekki aðgreint svo auðveldlega hvaða hluti málsins stafar af því að vera innflytjandi og hvaða hluti er vegna annarrar ástæðu. Samt höfum við innflytjendur tilhneigingu að útskýra einmanaleika okkar og vanlíðan með því að við erum innflytjendur. Mér finnst það vera sérstaklega mikilvægt fyrir okkur innflytjendur að vera vakandi fyrir þessu.

Mig langar að forðast misskilning af því sem ég held fram. Orsakir sem gera aðlögun innflytjenda erfiða eru vissulega til staðar. Það er einnig staðreynd að innflytjendur einangrast stundum og það ýtir undir einmanaleika. Ég vil að Íslendingar reyni að skilja þessar aðstæður hjá innflytjendum og hjálpa þeim að rjúfa einangrun þeirra.

Hins vegar, þegar kemur að okkur innflytjendum sjálfum, verðum við að passa að við útskýrum ekki öll okkar vandamál með því að við séum innflytjendur. Þetta má ekki verða ástæðan fyrir því að við festumst inni í skápnum.

Flestir hlutir sem okkur langar í fást oftast með því að reyna að vinna að þeim, hvort sem um félagsskap, skilning annarra eða hamingjukennd er að ræða. Snýst ekki lífið einmitt um að vinna að slíkum hlutum?

(Prestur innflytjenda, 23. maí 2013 Mbl.)

css.php