Ertu einmana í kvöld?

Þó að ég sé að starfi faglega í sviði innflytjenda- og fjölmenningarmála á Íslandi finnst mér oft óþarft og leiðinlegt að festast í þeirri hugmynd um að ,,ég er innflytjandi!” Fyrir utan það hvort maður sé innfæddur eða af erlendum uppruna, sýnist mér vera til staðar margs konar mál sem við þurfum að hugsa, pæla og ákveða, eins og t.d. um íbúðamál, atvinnu, hjónaband, ástarsamband, börn, menntun, veikindi, tómstundagaman, sumarfrí og svo framvegis. Líf okkar er umfangsmikið. Af hverju verðum við að eyða endalausum tíma að hugsa um innflytjendamál? Er ekki nauðsynlegt að setja okkur mörk/draga ákveðna línu á einhverju stígi lífs okkar?

Samt fylgir sú staðreynd að vera ,,útlensk/ur” okkur sífellt. Við innflytjendur þurfum til dæmis að eiga frumkvæði á að tala við Íslendinga og bjóða þeim í kaffi til þess að eignast að vini eða vinkonur til að við verðum ekki einsömul. Flestir Íslendingar eiga næga vini og ættingja nú þegar og því þurfa þeir ekki að vinna að því að eignast vini eins og við. Mér finnst þetta vera dálítið ósanngjarnt stundum – lífið er alla vega ekki alltaf sanngjarnt (ég vil ræða við Guð um þetta þegar ég hitti hann að lífslokum).

Annað hvort erum við með í leik lífsins eða við föllum úr leik. Stundum er ég alveg við það að detta úr leik vegna þess að ég er þreyttur – þreyttur á endalausu piparsveinalífi, árangurslausum ,,stefnumótamatarboðum”, hækkandi aldri, gigt, skuldabréfum, lélegri íslensku … og þar fram eftir götunum – en samt hangi ég enn í leiknum. Ég á örugglega eftir að standa frammi fyrir fleiri kringumstæðum þar sem mig langar að gefast upp en kannski er það einmitt núna sem ég verð að gera upp hug minn að halda áfram í leik lífsins.

Ég vil hvetja alla að halda áfram saman í lífsleiknum, en ekki að gefast upp vegna of mikillar meinloku eða erfiðleika við að vera innflytjendur. Lífið er of dýrmætt að týna því út af slíku.

En hvað áttu að gera ef þú ert einmana í kvöld? Hugsaðu með þér að það eru fleiri sem eru jafn einmana og þú í kvöld. Og það er alltaf von að einmanaleikanum ljúki þegar þú kynnist annarri einmana sálu – kannski í kvöld, annað kvöld eða eftir tíu ár. Hver veit?

(Prestur innflytjenda, 13. mars 2007 Tímarít Alþjóðahúss)

css.php