Kirkjuleg vígsla samkynhneigðra

„Það er mál kirkjunnar“, sagði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra við blaðamenn aðspurður hvort kirkjan ætti að leyfa samkynhneigðum pörum að ganga í hjónaband. Íslenskt samfélag mun fylgjast vel með því hvernig kirkjan bregst við þessum orðum Halldórs.

Það er eitt af grundvallarmannréttindum að fá að ganga í hjónaband en samtímis snýst málið einnig um trúarlegar kennisetningar kirkjunnar. Það hefur hingað til verið viðhorf kirkjunnar að Guð hafi stofnað til hjónabandsins og það eigi að vera milli karls og konu.

En einmitt hér skulum við staldra aðeins við. Fyrirbærið “hjónaband”  var nefnilega samfélagsleg venja löngu áður en kristin trú og menning kom til sögunnar.  Form hjónabands hefur einnig verið mjög mismunandi eftir menningarheimum og t.d. eru bæði einkvæni og fjölkvæni þekkt.

Þegar við í kirkjunni biðjum í hjónavígslu og höfum eftirfarandi orð eftir:  ,, …Guð hefur skapað karl og konu og ákvað þau til hjúskapar …varðveita og blessa þessi brúðhjón,“ þýðir það að við, sem kristið fólk, erum að þiggja náð og blessun Guðs í hjónabandinu, umfram gildi hennar sem samfélagslegrar stofnunar.
Við játum takmörk okkar sem einstaklinga og þökkum Guði fyrir að leiða okkur í hjónaband. Við trúum að hjónabandið muni lyfta tilveru okkar upp á æðri stig. En spurningin sem kirkjunni er nú ætlað að svara er sú hvort kynjasamsetning í hjónabandi eigi áfram að skipta máli.

Eins og við vitum vel endar um helmingur hjónabanda með skilnaði í samfélagi okkar. Eftir skilnað virðist fólk skiptast í tvennt, annað hvort leitar það að nýjum maka eða sættir sig við að lifa án maka.

Ég er sjálfur einn af þeim sem hafa upplifað skilnað. Ég gekk í hjónaband og þáði blessun Guðs en gat ekki haldið mín eigin loforð. Ég hugsa oft um ófullkomleika sjálfs míns og dýrmæti þess að geta átt lífsförunaut.

Ég hika við að segja við fólk að það eigi bara að vera ánægt með að lifa eitt, þótt oft sé maður neyddur til þess, þar sem mér finnst það að nokkru leyti vera tengt þeirri kennd fólks að telja sig vera sjálfu sér nægt, s.s. að útiloka náð Guðs og aðstoð (ég á þó ekki við að fólk skuli halda í hjónabönd hvernig sem þau standa).

Þegar ég lít á þá staðreynd hve auðveldlega við getum eytt náð Guðs í tómi, jafnvel við sem fáum hana með blessun, finnst mér ókristilegt að fólk sem óskar eftir því skuli ekki geta fengið hjónavígslu kirkjunnar, aðeins vegna þess að það er af sama kyni.
Guð segir: ,,Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi“ og ég legg mína trú á þá náð Guðs sem er í samræmi við heildarboðskap Biblíunnar en ekki á kynjasamsetninguna í hjónabandi sem slíka, sem ég tel vera bundna við ákveðinn menningarheim.
Kennisetning kristninnar er alls ekki óbreytanleg, það sýnir sagan okkur. Málið snýst frekar um það hver hefur hugrekki til þess stíga fram og hvenær til þess að leiða breytingarnar þar í samræmi við aukinn skilning okkar og þekkingu á manneskjunni og réttindum hennar.

(Prestur innflytjenda, 2. september 2005 Mbl.)

css.php