Nágranni

Flest þekkjum við dæmisöguna um miskunnsama Samverjann nokkuð vel. Þetta er dæmisaga sem Jesús notaði til þess að kenna okkur hver sé náungi okkar, en stundum sýnist mér að sagan sé misskilin þannig að við höldum að Jesús sé að segja að við skulum veita fólki í erfiðleikum hjálparhönd.
Sönn áminning dæmisögunnar er hins vegar þessi: ,,Þegar við skilgreinum nágranna okkar á einhvern hátt t.d. eftir stéttaskiptingu í samfélaginu, þjóðerni eða siðvenju, þá föllum við í fordóma og mismunun, þar sem skilgreining um nágranna okkar er sjálfkrafa skilgreining um það hverjir séu ekki nágrannar okkar. Því við eigum að vera nágrannar sjálf fremur en að velja okkur nágranna“.

Fordómar og mismunun, hvort sem um er að ræða kynþáttamisrétti eða annars konar mismunun, fylgir röksemd sem stendur á rangri forsendu eða illum huga. Gallupkönnun á Íslandi fyrir nokkrum árum sýndi að töluverður hópur í þjóðfélaginu vill ekki hafa múslima og geðsjúklinga í nágrenni sínum og einnig sjást fjölmörg dæmi um neikvæða umfjöllun um múslima eða útlendinga í fjölmiðlum og í netheimi.
Hver sem ástæðan er sem liggur að baki þess viðhorfs, má segja að slíkt er einmitt tilraun til þess að skilgreina það ,,hverjir eru nágrannar okkar og hverjir ekki“ eða hitt að menn vilja ,,velja nágranna sína“.

Ég ætla ekki að neita því að það gerist stundum í lífi okkar að við mætum einstaklingi með sérstök vandamál, eins og neyslu eiturlyfja eða ofbeldisfulla framkomu, og við viljum því ekki eiga í miklum samskiptum við hann.
En það er stór munur milli þessa tveggja, annars vegar að bregðast við áþreifanlegum vandamálum sem eru til staðar í raun og hins vegar að alhæfa svo um hóp manna í þjóðfélaginu að við afþökkum öll samskipti við einstaklinga úr þeim hópi. Síðar nefnda eru bókstaflegir fordómar sem ekki er hægt að fela undir forsendum forvarna. Forvarnarstarf leiðir okkur í meira öryggi og uppbyggingu betra samfélags, en fordómar skapa aðeins hatur meðal manna og aukið misrétti.

Fordómar og mismunun eru oftast hugsuð frá sjónarhorni þolenda þeirra. En í þessari smágrein langar mig líka að benda á hina hlið málsins, sem er það að ef haldið er fast í fordóma og mismunun þá skaðar það mannkosti þess sem ber slíkt með sér.
Ef maður lætur fordóma sína vera, munu þeir stjórna manni algjörlega með tímanum og búa til sjálfsréttlæti og sjálfsánægju, eins og fræðimennirnir eða farísearnir sem Jesús gagnrýnir oft í Biblíunni. Að lifa í sjálfsréttlæti og sjálfsánægju er langt frá hinu eftirsóknarverða lífi kristinna manna og þeirra sem virða dýrmæti mannlífsins.

Nú stendur yfir átak sem er Evrópuvika gegn kynþáttafordómum og misrétti og lýkur henni þann 23. mars, á páskadegi. Ég óska að sérhvert okkar hugsi um eigin fordóma og meti mikilvægi þess að verða nágranni þeirra sem búa í sama samfélagi.

(Prestur innflytjenda, 20. mars 2008 FrB.)

css.php